Jakub Stachowi­ak sendi ný­lega frá sér sína aðra ljóða­bók, Úti bíður skáld­leg ver­öld. Jakub er pólskt skáld sem skrifar al­farið á ís­lensku og hefur vakið mikla at­hygli fyrir ljóð sín.

„Þetta er bók sem er dá­lítið frá­brugðin öðru sem ég hef skrifað hingað til. Hún fjallar mikið um pólitísk vanda­mál, um kapítal­isma og þung­lyndi en hún fjallar líka um skrif. Hún er per­sónu­leg eins og fyrri bókin en á dá­lítið öðru le­veli,“ segir Jakub.

Fyrsta ljóða­bók hans, Nætur­borgir, kom út 2021 en sú bók hlaut Ný­ræktar­styrk mið­stöðvar ís­lenskra bók­mennta.

„Ég myndi segja að hún væri per­sónu­leg á því sviði að hún fjallar um skrif. Hún fjallar til dæmis um lofts­lags­breytingar og nú­tímann en ég myndi segja að hún sé per­sónu­leg vegna þess að hún fjallar um skrifin og líka um tungu­málið sjálft. Tungu­málið er alltaf per­sónu­legt,“ segir Jakub.

Þetta er bók sem er dá­lítið frá­brugðin öðru sem ég hef skrifað hingað til.

Úti bíður skáldleg veröld er önnur ljóðabók Jakubs.
Kápa/Berglind Erna Tryggvadóttir

Taylor Swift sem skáld­kona

Að sögn Jakubs varð bókin til fyrir um ári síðan en hann kveðst ekki eiga auð­velt með að tala um skrif sín: „Mér finnst alltaf skrýtið að tala um verk mín því ég vinn svo mikið á inn­sæinu að ég veit yfir­leitt ekkert hvað ég er að skrifa fyrr en það er til­búið.“

Finnst þér ver­öldin vera skáld­leg?

„Já, mér finnst ver­öldin vera skáld­leg og mér finnst hið skáld­lega vera að finna á ýmsum ó­væntum stöðum. Ég var til dæmis að hlusta á plötu eftir Taylor Swift sem heitir Folklor­e og ég hugsaði með mér, vá hvað þetta er ljóð­rænt og ég meina hún er popp­stjarna! Þá las ég við­tal við hana þar sem hún var að tala um til­urð þessarar plötu og hún sagði að þetta hefði byrjað með myndum. Hún sat bara á stól og það komu ein­hverjar myndir til hennar og ég hugsaði með mér, svona tala skáld­konur.“

Spurður um hvort hann leiti inn­blásturs í eigin til­finningum eða í hinum ytra heimi segir Jakub:

„Ég myndi segja bæði og. Þetta er eigin­lega svona með öll lista­verk að þau eru ein­hvers konar úr­vinnsla úr þínum upp­lifunum en svo er þetta inn­sæið líka. Þannig að þetta er ein­hvers konar sam­spil.“

Jakub leitar innblásturs víða fyrir ljóðin sín.
Fréttablaðið/Anton Brink

Skrifar ekki á pólsku

Eins og áður sagði skrifar Jakub ljóð sín al­farið á ís­lensku en hann fluttist hingað árið 2016 gagn­gert til að læra tungu­málið.

„Ég gat ekki í­myndað mér að skrifa neitt á pólsku, það eina sem ég skrifa á pólsku eru bara skila­boð á Mess­en­ger til mömmu og pabba. Ef við tölum um hið ljóð­ræna eða hina skáld­legu æð þá finn ég hana ekki á pólsku, bara á ís­lensku,“ segir hann.

Finnst þér að það ætti að vera meiri stuðningur fyrir rit­höfunda af er­lendum upp­runa bú­setta á Ís­landi?

„Það er mikil gróska núna, Nat­asha Stolyarova sem rit­stýrði bókinni Pólifónía af er­lendum upp­runa, verður með ljóða­bók núna sem ég er mjög spenntur að sjá. Ég er ein­mitt núna líka að skrifa ess­eyju um að vera út­lenskur höfundur sem Bók­mennta­borgin ætlar að gefa út á næsta ári í safni bara með út­lenskum höfundum. Þannig að það er mikil gróska og mikill stuðningur sem er bara fagnaðar­efni.“

Flæði 3 er ljóðakver sem Jakub samdi með hjálp vefsíðunnar The Most Dan­gerous W­riting App.
Kápa/Pastel ritröð

Önnur bók í haust

Jakub sendir frá sér aðra bók í haust, ljóða­kver sem ber titilinn Flæði 3 og kemur út á vegum Pastel rit­raðar.

„Það er til vef­síða sem heitir The Most Dan­gerous W­riting App þar sem þú getur sett tíma­ramma og þarft að skrifa stans­laust í gluggann annars máist textinn burt. Út­koman er ein­hvers konar skrýtin flæðis­ljóð. Við gerðum þetta verk­efni í ljóða­kúrsi sem ég var í hjá Kristínu Svövu Tómas­dóttur í rit­list. Hún lét okkur skrifa eitt­hvað þannig og mér fannst þetta svo skemmti­legt að ég bara skrifaði heila bók. Verkið heitir Flæði 3 og talan vísar til þess að hvert ljóð var ort á þremur mínútum.

Þetta er mjög hrátt. Pælingin var að editera sem minnst og þetta er verk þar sem ég leyfi mér að leika mér og búa til alls konar bull­orð,“ segir Jakub.