Café de Flore er sögufrægt og eitt elsta og virtasta kaffihús Parísar. Staðurinn hefur lítið breyst frá seinni heimsstyrjöldinni. Að stíga inn á Café de Flore er eins og að stíga inn í tímahylki, inn í tímabil þegar vinstri bakkinn var bóhemískt athvarf manna eins og Pablo Picasso og Ernest Hemingway. Til staðar eru enn innréttingar sem rekja má til fortíðar, hin klassíska Art Deco innrétting, rauðklæddir leðurbekkir, básar og stólar, falleg mahoníborð og stórir speglar ásamt pússuðum koparhandriðum sem minna dálítið á franskt bistró.

Margir sem koma til Parísar kíkja inn á Café de Flore.

Allir sem eitthvað þekkja til staðarins vita að bestu sætin í húsinu eru í raun og veru úti við gangstétt, þar sem gestirnir sitja utandyra og drekka í sig mannlífið, fólksmergðina sem leggur leið sína fram hjá staðnum. Þú finnur kaffihúsið á horni Boulevard Saint Germain og Rue Saint Benoet í Saint Germain des Pres í 6. hverfi og það er vel þekkt fyrir að hafa hýst nokkra af helsta mennta- og frægðarmönnum sem sóttu staðinn hér á árum áður. Kaffihúsið var opnað í kringum árið 1880 og nafnið er dregið af skúlptúr af Floru, gyðju blómanna og árstíð vorsins í rómverskri goðafræði.

Einfaldur morgunverður á fallegum og frægum stað.

Heimsfrægir fastagestir

Rithöfundarnir Joris-Karl Huysmans og Remy de Gourmont voru tveir af fyrstu þekktu fastagestunum. Í lok 19. aldar skrifaði Charles Maurras bók sína Au signe de Flore á fyrstu hæð kaffihússins. Árið 1899 var tímaritið Revue d'Action Francaise stofnað þarna. Þetta tímarit studdi frönsku öfgahægri stjórnmálahreyfinguna sem kallast Action Francaise. Kaffihúsið varð vinsæl miðstöð frægra rithöfunda og heimspekinga á árum áður. Hemingway, Georges Bataille, Robert Desnos, Leon-Paul Fargue og Raymond Queneau voru allir fastagestir, sem og Pablo Picasso.

Kaffið er ekki bara bragðgott heldur líka fallega fram borið.

Ógleymanleg upplifun

Hluti af upplifuninni er að sitja öxl við öxl með ókunnugum sessunautum í sæti á gangstéttinni. Ferðamenn sækja staðinn og vilja upplifa franska kaffihúsamenningu. Íbúar hverfisins næla sér gjarnan í borð og taka með sér bók og eyða síðdeginu í að narta í croques mesdames og dreypa á Kir Royales. Vín-, drykkjar- og matseðillinn er ekta franskur og það gerist ekki franskara en matseðill Café de Flore. Heitt súkkulaði er eitthvað sem allir ættu að prófa. Verðið er í hærri kantinum en það er sannarlega upplifun að mæta á Café de Flore. Stjórnmálamenn, listamenn, menntamenn, hönnuðir og rithöfundar mæta á kaffihúsið til að fylgjast með, leita sér að innblæstri og til að hittast. Besti tíminn til að njóta andrúmsloftsins er á morgnana.