Það sem er

Peter Asmussen

Tjarnarbíó

Leikari: María Ellingsen

Leikstjóri: Ólafur Egill Egilsson

Leikmynd: Snorri Freyr Hilmarsson

Búningar: Filippía Elísdóttir

Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson

Tónlist: Ólafur Björn Ólafsson

Sviðshreyfingar: Anna Kolfinna Kuran

Leikgervi: Guðrún Erla Sigurbjarnadóttir

Þýðing: Auður Jónsdóttir

Kona í Austur-Þýskalandi situr við bréfaskriftir. Hún er að skrifa dönskum elskhuga sínum í Kaupmannahöfn. Þau hittust bara einu sinni í vinnuferð og kolféllu fyrir hvort öðru. Bréfin ferðast yfir Berlínarmúrinn í laumi og samskiptin standa yfir í áraraðir. En ekki er allt sem sýnist. Hvernig er hægt að fela sannleikann í eftirlitssamfélagi? Hvernig er hægt að afhjúpa sannleikann í eftirlitssamfélagi?

Einleikurinn Það sem er byggist á skáldsögu Peter Asmussen sem kom út árið 2012 og leynir hressilega á sér. Á yfirborðinu virðist þetta vera einföld saga um forboðna ást en undir niðri ólga straumar líkamlegrar hættu, persónulegra efasemda og vænisýki. Alls ekki að ástæðulausu. Í verkinu skarast mörk hins raunverulega og fantasíunnar, hið pólitíska og hið persónulega, angurværð og örvænting. Auður Jónsdóttir nær föstum tökum á textanum og skilar honum skýrt á íslenska tungu.

Það sem er lokkar áhorfandann til sín með hægum en öruggum skrefum.

María Ellingsen leikur Renötu, tveggja barna móður og eiginkonu sem finnur óvænt ástina í öðru landi. Hún fær útrás með því að deila nostalgískum minningum, hverdagslegum vangaveltum og framtíðardraumum. Áhorfandinn er settur í hlutverk viðtakanda bréfanna, danska elskhugans. Hlutverkið er krefjandi en hún leysir það ágætlega. Þá sérstaklega þegar fer að þrengja virkilega að aðalpersónunni, þegar fantasían og raunveruleikinn takast á. María afhjúpar innra sálarstríð Renötu varlega og fer með textann eins og hún sé að segja áhorfendum leyndarmál. Hver nýr sannleikur færir okkur skrefi nær skilningi á tilvist hennar. Leikurinn einkennist þó einum of af rómantík líkt og Renata sé blinduð af ást, sem er ekki alveg trúverðugt miðað við samfélagið sem hún býr í. Sjálfsblekkinguna og afneitunina hefði mátt kynna fyrr til leiks, enda býður texti Asmussen svo sannarlega upp á slíkt. Þrúgandi andrúmsloftið kemst ekki nægilega til skila í leik Maríu fyrr en undir lokin.

Listræn umgjörð sýningarinnar einkennist af naumhyggju. Leikstjórinn Ólafur Egill Egilsson og leikmyndahönnuðurinn Snorri Freyr Hilmarsson afmarka rými Renötu við fáeina metra, þar sem hún situr allan tímann límd við stól á upphækkuðum palli. Fullkomlega einangruð í angist sinni. Lýsing Björns Bergsteins Guðmundssonar ber af. Hann umkringir Renötu sterkum ljóskösturum, líkt og í yfirheyrslu, og baklýsingu sem teiknar upp mynd af skuggum samfélagsins. Renata á sér enga undankomuleið, nauðbeygð til að horfast í augu við sjálfa sig á endanum. Búningahönnun Filippíu Elísdóttur og leikgervi Guðrúnar Erlu Sigurbjarnadóttur bera einnig einkenni afhjúpunar, hversdagslegt fas sem molnar eftir því sem árin líða og áföllin dynja á.

Það sem er lokkar áhorfandann til sín með hægum en öruggum skrefum. Með hverju bréfi, hverju ári, sökkvum við dýpra og dýpra í samfélag sem er gegnsýrt vænisýki, ekki að ástæðulausu. Allir hafa eitthvað að fela og í samfélagi þar sem leyndarmál eru mögulega dauðasök þá er allt undir.

Niðurstaða: Einstaklega vel skrifaður einleikur. Lausnir leikhópsins eru góðar en skortir sterkari tök á sálfræðitryllinum sem fyrirfinnst í textanum.