110 milljónir í þúsundkróna seðlum liggja á glámbekk í Kringlunni. Að vísu í rammgerðu öryggishólfi þar sem stærsti vinningurinn í Happdrætti Háskóla Íslands raungerist í hundrað og tíu þúsund 1000 króna seðlum.

Vinningurinn verður dreginn út á föstudaginn og leggur sig, eins og áður segir og sjá má, á 110 milljónir. „Það eru allir að spyrja okkur að því hvort við höfum fengið hug­myndina frá Squ­id Game en það er reyndar ekki þannig,“ segir Úlfar Gauti Haralds­son, sölu- og markaðs­stjóri HHÍ hlæjandi.

Seðlabúntin í glerhólfinu kalla þó nánast óhjákvæmilega á hugrenningartengsl við vinsælustu Netflix-þættina frá upphafi þar sem verðlaunafé í ljótum leik safnaðist upp í svipaðri peningakúlu.

Úlfar segir Kringlu­gesti þo alls ekki þurfa að hafa á­hyggjur af því að verða dregna í undar­legan Squ­id Game leik. „Við reynum alla­vega að hemja okkur!“

Þetta er umfang stóra vinningsins þegar hann er kominn í 1000 krónu seðla.
Fréttablaðið/Aðsend

Sá stærsti frá upphafi

„Þetta er stærsti vinningurinn okkar frá upp­hafi og nú er það ó­um­flýjan­legt, ein­hver þarf að fá þetta sím­tal núna. Þetta verður skelfi­leg upp­lifun, eða hitt þó heldur,“ segir Úlfar en potturinn verður dreginn á föstu­daginn.

Hann segir að upphaflega hafi verið lagt upp með að hafa vinningsupphæðina til sýnis í Kringlunni í tíu þúsund köllum en slíkir seðlar hafi ekki náð að mynda nógu tilkomumikinn haug og 1000 kallinn því orðið fyrir valinu. „Þannig þetta er alveg virki­lega myndar­legur haugur.“

Aðspurður segir Úlfar peninga­hrúguna vel vaktaða. „Það er enginn að fara að rölta með þessa hrúgu út. Þetta er það öruggasta sem er í boði og öryggis­verðirnir eftir því,“ segir Úlfar sem viðurkennir að hann sé farið að klæja í fingurna eftir því að fá að taka upp símann og til­kynna heppnum vinningshafa um að sá hafi hlotið stærsta pottinn í sögu HHÍ.

10.000 króna seðlarnir náðu ekki að mynda neitt sérstaklega tilkomumikinn peningastafla þannig að fagurfræðin réði því að milljónirnar 110 eru í þúsund króna seðlum.
Fréttablaðið/Aðsend