Í dag verður þátttökuinnsetningin Horse Inside Out eftir listhópinn Wunderland opnuð í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsinu. Um er að ræða norrænt list- og rannsóknarverkefni sem hefur verið í þróun í nokkur ár og var áður sett upp í Danmörku og Finnlandi.
„Þetta er skúlptúr og innsetning sem er nógu stór fyrir manneskju til að fara inn í. Það fer einn einstaklingur inn í einu, sem kannar umhverfið upp á eigin spýtur. Í öðru rými er svo flytjandi sem viðkomandi á samskipti við. Þetta er fjölskynjunarskúlptúr sem þú upplifir með öllum skilningarvitunum, lykt, hljóði, sjón og snertingu,“ segir danska sviðslistakonan Mette Aakjær, stofnandi Wunderland.

Viðkvæmni og kraftur hesta
Skúlptúrinn sem um ræðir er í laginu eins og stórt tjald með lífrænu útliti. Mette segir Wunderland hafa sótt innblástur fyrir verkið til ólíkra eiginleika hesta.
„Innblásturinn er hestur en þetta líkist þó ekki hesti. Við sækjum á vissan hátt í eiginleika hestsins, þessa viðkvæmni en einnig þennan gífurlega kraft sem hestar hafa. Allt frá því að standa kyrrir yfir í að ferðast mjög hratt með miklum krafti. Þannig að það er allt róf hestsins, lyktin, hljóðin, allt saman,“ segir hún.
Af hverju sóttuð þið innblástur til hesta?
„Ég held að almennt séð liggi áhugi okkar í að breyta skynjun fólks á raunveruleikanum í gegnum líkamann og skilningarvitin. Við erum algjörir nördar hvað þetta varðar. Það eru margar leiðir til að vera í líkama sínum og í þessu verki vinnum við með upplifun sem er mjög jarðtengjandi. Þetta getur verið mjög villt og mjög ólíkt fyrir hvern og einn einstakling en við erum að sækja í kraft frá jörðinni, kraft sem hesturinn hefur einnig.“

Ólíkt fyrir hvern og einn
Er þetta þá einhvers konar ritúal?
„Maður gæti sagt það en ég er alltaf mjög varkár að setja merkimiða vegna þess að ég vil ekki að fólk sjái þetta bara á einn hátt. Ég kalla þetta bara upplifun af því að það er opið hugtak og er líka eitthvað sem við vinnum mikið með, að hafa hluti opna fyrir túlkun,“ segir Mette og bætir við að upplifunin sé ólík fyrir hvern og einn einstakling.
Eins og áður sagði er Horse Inside Out partur af stærra rannsóknarverkefni sem Wunderland hefur unnið að í samstarfi við Interacting Minds Centre hjá Árósaháskóla og ARoS listasafnið í Árósum.
„Í samstarfi við okkur gerðu þau rannsókn þar sem áhorfendum sem komu út af upplifuninni var boðið að skoða sérstaka listsýningu og síðan var tekið viðtal við þá á sérstakan hátt með heyrnartól á. Spyrjandinn spurði þau að mismunandi hlutum eins og hvort upplifunin hefði áhrif á það hvernig þau upplifðu listaverkin eftir á,“ segir Mette.
Að sögn hennar var það eitt af markmiðunum með Horse Inside Out að vera í sjálfu sér listaverk en einnig að opna skilningarvit áhorfenda fyrir nýjum upplifunum.
„Við komumst að því að upplifunin hafði þau áhrif á fólk að það var næmara fyrir myrkri og hreyfingu eftir á og hreyfði sig á ólíkan hátt inni í sýningarrýminu.“
Eitt sinn þegar við vorum að ganga niður götu í Finnlandi öskraði einhver skyndilega á eftir mér: „Horse Inside Out breytti lífi mínu!“
Breytti lífi eins áhorfanda
Hvernig hafa viðbrögð áhorfenda við verkinu verið?
„Þau hafa verið mjög, mjög góð. Við höfum fengið margar stjörnur hjá gagnrýnendum og þegar við sýndum verkið í Finnlandi fengum við til dæmis ýmis hjartnæm ummæli. Eitt sinn þegar við vorum að ganga niður götu í Finnlandi öskraði einhver skyndilega á eftir mér: „Horse Inside Out breytti lífi mínu!“. Það er auðvitað svolítið klikkað og kannski ekki eitthvað sem gerist í hvert skipti, en það var algjört vá-augnablik.“
Wunderland munu svo koma aftur til Íslands í ágúst á næsta ári með nýtt verk í samstarfi við framleiðslufyrirtækið MurMur.
„Við erum að koma með annað verk sem heitir Twisted Forest sem verður sýnt í Heiðmörk. Það er stærra staðbundið verk sem er næstum tveggja klukkutíma löng upplifun,“ segir Mette.