Hestar er þriðja samvinnuverkefni Ránar Flygenring og Hjörleifs Hjartarsonar. Áður hafa þau lagt saman í bækurnar Fuglar og Sagan um Skarphéðin Dungal.

„Það á við um Hesta eins og Fugla að bókin sprettur upp úr öðrum verkefnum. Fuglar varð til upp úr sýningu sem við Rán gerðum saman og ég hafði áður gert fuglasýningu. Í þessu tilviki hafði ég skrifað dagskrá fyrir Landssamband hestamanna sem Hilmir Snær f lutti og hljómsveitin Brother grass tók þátt í. Ég átti því einhverja texta um hesta,“ segir Hjörleifur.

„Þessi bók er aðeins annars eðlis en Fuglar, því íslenski hesturinn er einn meðan fjölmargar tegundir eru af fuglum,“ segir Rán. Hjörleifur bætir við: „Það sem er hins vegar sameiginlegt með þessum tveimur bókum er að við nálgumst viðfangsefnin öðruvísi en gert hefur verið hingað til. Hinum venjulega lesanda finnst ættfræði hesta, ræktun og keppni ekki sérlega áhugavert efni. Við vildum hafa sögur af hestum sem fara út fyrir rammann. Slíkt efni er að finna í gömlum tímaritum, sérstaklega Dýravininum og Dýraverndaranum. Vinnan fólst í því að fara í gegnum þann bunka.“

Blóðug bók

Spurð hvort erfitt sé að teikna hesta segir Rán: „Maður æfist í því sem maður æfir sig í.“ Hún fékk boð um að vera í Gryfjunni í Ásmundarsal þar sem listamenn hafa vinnuaðstöðu. „Þá tók ég allan textann sem Hjörleifur hafði safnað og skrifað, klippti í búta og límdi upp á vegg. Ég teiknaði síðan hesta og ákvað að teikna þá sem karaktera.“

Blaðamaður hefur orð á því að við lestur bókarinnar fái maður einmitt á tilfinninguna að hestar séu miklir karakterar. „Þá er þetta eins og til var sáð,“ segir Hjörleifur.

Bókin ætti að henta öllum aldurshópum. „Hún er mjög blóðug, ég finn að það hefur visst aðdráttaraf l í mörgum aldurshópum,“ segir Rán.

„Ég var búinn að skrifa kynningartexta um að þetta væri bók sem liti út fyrir að vera barnabók um hesta en það ætti kannski að banna hana bæði börnum og hestamönnum,“ segir Hjörleifur. „Í gegnum tíðina er mikið af harmsögum í kringum hesta og í þjóðsögum fylgir dauðinn hestunum eins og skugginn. Saga íslenskrar hestamennsku er enginn dans á rósum. Hestar hafa meira og minna verið á útigangi.“

Byrjuð á hugmyndavinnu

Spurð hvort þau séu hestafólk segist Hjörleifur ekki líta á sig sem hestamann þó hann fari í stöku hestaferðir og göngur og réttir. „Ég var í hestum sem krakki og seinna þjálfaði ég og tamdi hesta í Skagafirði og Þýskalandi,“ segir Rán.

Fuglar gengu mjög vel og hið sama virðist eiga við um Hesta. Eru þau farin að huga að þriðju bókinni í seríunni? „Við stefnum að því að gefa út þriðju bókina og erum aðeins byrjuð á hugmyndavinnu en það er of snemmt að segja eitthvað um það á þessu stigi,“ segir Hjörleifur.