Rapparinn landsþekkti Herra Hnetusmjör mætti á dögunum í einlægt viðtal við þá Bergsvein Ólafsson og Svein Aðalsteinsson í hlaðvarpsþættinum Millivegurinn, sem hlusta má á hér að neðan.  

Þar ræddi hann meðal annars upphafið að rappferli sínum, frægðina og baráttu sína við vímuefni árið 2016 og ákvörðunina um að gerast edrú. 

„Sumarið 2016, það var max rugl. Mikil neysla og engin rútína. Það er engin rútína í neyslu, allavega ekki hjá mér. Það voru þarna nokkur skipti 2016, þar sem ég var farinn að sjá munstur hjá sjálfum mér undir lok sumars. 

Í hvert einasta skipti sem ég datt í það, vissi ég ekki hvenær ég myndi stoppa. Þegar ég ætlaði bara að fá mér tvo bjóra á Prikinu og horfa á fótboltaleik þá enda ég bara í einhverri íbúð klukkan 10 um morgun og ætla ekki að hætta. Í október 2016 er bara botn eftir botn eftir botn.“

Væri ekki edrú ef hann hefði ekki farið í meðferð
Hann segir að það hafi verið vitundarvakning þegar hann mætti ekki í myndbandstökur á myndbandinu 203 stjórinn í lok árs 2016.

„Þetta var farið að hafa áhrif á það sem mig langaði að gera. Mig langaði ógeðslega að fara að skjóta þetta myndband en ég hafði bara ekkert um það að segja.“

Viku seinna hafi hann verið kominn inn á Vog þaðan sem hann fór í eftirmeðferð á Staðarfelli. Hann segir að lífið eftir meðferðina hafi krefjandi.

„Ég held ég væri ekki edrú ef ég hefði ekki farið í meðferð. Ég breytti bara algjörlega um lífsstíl og hvernig ég vinn. Þegar ég á að spila þá mæti ég bara þegar ég á að spila, í stað þess að sulla í mig tveimur tímum fyrr.

Ég væri örugglega bara dáinn ef ég hefði ekki farið í meðferð.“