Hera Björk Þórhallsdóttir söngkona fagnar því að tuttugu ár eru liðin síðan jólaplatan Ilmur af jólum kom út með afmælistónleikum í Hallgrímskirkju á mánudag.

„Platan kom út fyrir tuttugu árum síðan og er búin að lifa rosa vel síðan. Fólk segir mér að þau spili hana hver jól, sem er náttúrlega besta gjöfin,“ segir Hera Björk.

Þegar Hera gaf út plötuna árið 2000 hafði hún nýlega sótt táknmálsnámskeið, þar sem hún vildi geta tjáð sig við fjölskyldumeðlim.

„Ég var orðin ansi lunkin eftir þessi sex námskeið,“ upplýsir Hera sem segist enn skilja táknmál nokkuð vel, en gerir grín af sjálfri sér og segist þurfa nokkra n vodka sjússa til að rífa í sig smá kjark. „Svona eins og með dönskuna,“ segir hún og hlær dátt.

Andskotans tími til kominn

Eitt laganna á plötunni, Jólatími, var túlkað og sungið í myndbandi sem enn skýtur upp kollinum í kringum jólin. „Það er í rauninni tengingin mín við þennan döff-heim“, segir Hera.

Margrét Auður Jóhannesdóttir, táknmálstúlkur og vinkona Heru Bjarkar, hafði samband við hana vegna afmælistónleikanna og lagði til að Hraðar hendur yrðu fengnar til að túlka þá á táknmál.

„Ég hugsaði, Jú! about bloody time,“ segir Hera sem hafði einmitt lengi íhugað að láta af þessu verða. „Það koma þrjár dásamlegar konur frá Hröðum höndum sem ætla að túlka tónleikana. Þetta er svo æðislegt og ég hlakka svo til.“

Hún segir textann dýpka við túlkunina þar sem innlifunin í táknmálinu sé svo mikil. „Þetta er nánast eins og að vera með dansara.“ Hera bendir síðan á að túlkunin á söngnum liggi hjá hverjum og einum, hvort sem fólk er sjáandi og heyrandi eður ei. „Fólk nemur textann eftir sínum skilningi, þetta snýst um það.“

Kósí fjölskyldustund

Tónleikarnir eru einnig fjölskyldustund fyrir Heru, en dóttir hennar Þórdís Petra Ólafsdóttir, sem er í söngnámi í Berlín, kemur fram með móður sinni. Auk þess sem móðir Heru, söngkonan Hjördís Geirsdóttir, lætur einnig til sín taka.

Stjörnupopparinn Páll Óskar Hjálmtýsson mætir einnig til leiks sem og ungtenórinn Ari Ólafsson, fyrrum Júróvísjón-fari.

„Það er alveg æðislegt að nýta fólkið sitt. Mamma verður með heitt súkkulaði við innganginn ef reglur leyfa, og vinir mínir og fjölskylda verða sætavísur og rífa af miðum.“

Hera segir aðspurð að miklu betur megi gera þegar táknmálstúlkun á menningarviðburðum er annars vegar og kallar eftir meira af slíku. „Ég veit að Þjóðleikhúsið hefur verið með eina og eina sýningu,“ segir Hera og nefnir einnig Baggalút og einstaka kórtónleika.