Þau Brynja Dadda og Hafþór hönnuðu og smíðuðu sitt eigið sumarhús með aðstoð góðra manna árið 2014 og tveimur árum síðar var húsið risið. Nú fjórum árum síðar er sumarhúsið Móberg orðið heimili þeirra hjóna en þau ákváðu að selja eign sína á höfuðborgarsvæðinu og flytja alfarið í sveitina. Í Móberginu líður þeim best og huga þau nú meira að sjálfbærni og lífrænni ræktun en nokkru sinni fyrr.

„Okkur hefur liðið svo vel í sveitinni. Við erum bæði fædd og uppalin í Reykjavík en landsbyggðin togaði alltaf í okkur. Við bjuggum í fimmtán ár á Hvolsvelli þegar börnin voru lítil, síðan fluttum við í Hafnarfjörð og Kópavog. Við eigum tvö uppkomin börn og fimm barnabörn. Hafþór vinnur við handverksfyrirtækið okkar, Hnyðju, og ég er skrifstofustjóri við heilsugæslustöð í Hafnarfirði,“ segir Brynja, einstaklega ánægð með þá ákvörðun þeirra að flytja í sveitina.

Móberg er reisulegt og fallegt hús sem nærir bæði auga og sál. FRÉTTABLAÐIÐ/ÓTTAR GEIRSSON

Einfölduðu líf sitt og fluttu í sumarhúsið

„Við keyptum þetta land 2012 og byrjuðum strax að rækta tré og kartöflur, síðar grænmeti. Síðan byggðum við húsið hægt og rólega árin 2014 til 2016. Það var lærdómsríkt að teikna og byggja þetta hús, miklar bollalengingar um hvað við þyrftum mikið pláss og hvað væri óþarfi. Við fengum svo fagmenn til að klára teikningar, að sjálfsögðu,“ segir Brynja.

Innt eftir tilurð nafngiftar hússins er því fljótsvarað.

„Í landinu er mosi, móar og berg, svo úr varð nafnið Móberg.“

Hvað kom til að þið ákváðuð að flytja alfarið í sumarhúsið?

„Það gerðist bara þannig að við vorum farin að vera hér æ fleiri daga því hér líður okkur best. Við vorum í raun ekki sátt við flækjurnar sem fólk kemur sér í með tækni og þanskipulagi. Okkur fannst við þurfa að einfalda lífið og losa okkur við óþarfa dót og tilbúnar þarfir. En auðvitað er þetta bara það sem hentar okkur, það verður hver að finna sitt,“ segir Brynja.

„Við hjónin höfum lengi verið á þeirri skoðun að við nútímafólkið séum búin að flækja líf okkar óþarflega mikið. Við höfum markvisst spáð og rökrætt um hvað við getum gert til að einfalda lífið og hvað það sé sem veitir okkur ánægju og lífsfyllingu, hvað sé þarft og hvað óþarft. Óneitanlega finnst okkur að fólk láti auglýsingar, samfélagsmiðla og snjalltæki stjórna sér of mikið, en því fylgir góð tilfinning að losa sig við hluti.“

Þau hjónin reyni ávallt að koma öllu í áframhaldandi notkun fyrir aðra

.„Við höfum reynt að gera svæðið hér að okkar og hafa í kringum okkur eingöngu hluti sem gefa okkur ánægju og gleði. Við reynum að vinna með náttúrunni, nýta hana og næra og við erum alltaf að læra eitthvað nýtt. Þetta hentar okkur vel og er fylling í okkar líf.“

Ræktun og sjálfbærni á hug þeirra allan og eru þau iðin við ræktunina. FRÉTTABLAÐIÐ/ÓTTAR GEIRSSON

Mikill munur á hinu daglega lífi

Þau Brynja og Hafþór segjast finna mikinn mun á daglegu lífi eftir að þau fluttu í sveitina.

„Það er ekki annað hægt. Betri tengsl við náttúruna, meiri útivera og betri nýting á tíma,“ segir Hafþór.

Náttúran í kring heilli þau alla daga.

„Hér er fullt af skemmtilegum verkefnum til að dunda sér við og okkur leiðist aldrei. Það er erfitt að útskýra þetta með tímann, en hann rúllar einhvern veginn öðruvísi hér í sveitinni."

Brynja og Hafþór eru dugleg að rækta sjálf og hefur Brynja aldrei verið jafn iðin við að töfra fram góðgæti úr eldhúsinu.

„Það er bara þannig að í þessu eldhúsi þar sem útsýnið er svo fallegt er ekki hægt annað en skapa eitthvað. Ég hef alltaf haft gaman af matargerð og bakstri en núna hef ég verið að grúska í gömlum matarhefðum, mig langar að gera meira frá grunni og að sjálfsögðu nýta náttúruna betur. Við ræktum grænmeti og kartöflur og erum með reykhús þar sem við reykjum langreykt lambalæri fyrir jólin.“

Sánahúsið fékk nafngiftina Örkin því það var eins og hellt úr fötu mestan tímann sem Hafþór smíðaði það. FRÉTTABLAÐIÐ/ÓTTAR GEIRSSON

Ástríðufullur handverksmaður og frumkvöðull

Hafþór er mikill handverksmaður og hefur verið iðinn við smíðar. Hann er einstaklega uppfinningsamur og ástríðan liggur í sköpun og smíði.

„Hafþór er hér með þrjár vinnustofur og vinnur í timbri að sinni eigin hönnun. Hann byggði húsin öll sjálfur og kemur mér enn á óvart með ótrúlegri uppfinningasemi og verklagni. Hafþór er mjög duglegur að endurnýta og hefur margsannað að ekki þarf alltaf að kaupa nýtt; það má nota ýmislegt gamalt til endurnýtingar. Hann byggði til dæmis skýli yfir pítsaofninn og þar undir er koníakstunna sem safnar öllu regnvatni af þakinu sem við svo notum til að vökva ræktunina okkar,“ segir Brynja, að að vonum hæstánægð með sinn mann.

Gróðurhúsið í Móbergi heitir Sunnuhvoll, því það er byggt úr gömlum gluggum sem verið var að rífa og henda úr húsi sem heitir Sunnuhvoll. FRÉTTABLAÐIÐ/ÓTTAR GEIRSSON

Öll híbýlin bera nafn

Öll híbýlin sem risið hafa á jörðinni, kofarnir og jafnvel litla gróðurhúsið bera öll sitt nafn.

„Það er til gamans gert, við verðum af hafa gaman af lífinu og litlu hlutunum. Gróðurhúsið heitir Sunnuhvoll, því það er byggt úr gluggum sem verið var að rífa úr húsi sem heitir Sunnuhvoll. Sánahúsið heitir Örkin því þakið minnir á Örk og það rigndi mikið þegar Hafþór smíðaði það. Vinnustofan undir hlíðinni heitir Undirhlíð og kartöflugeymslan heitir Svalbarð, því hún er svöl og stendur inni í og undir barðinu,“ útskýrir Brynja.

Hér gerast gerast hlutirnir. Handverk Hafþórs eru hrein nostalgía og gleðja augað. FRÉTTABLAÐIÐ/ÓTTAR GEIRSSON
Vinnustofan fékk nafnið Undirhlíð því hún stendur einmitt undir hlíð. FRÉTTABLAÐIÐ/ÓTTAR GEIRSSON

Nostalgía í barnaleikföngum

Fjölskyldan rekur handverkssmíðaverkstæðið Hnyðju, þar sem handverk Hafþórs fær að blómstra og fleiri geta notið þess. Langvinsælust eru leikföngin, sannkölluð nostalgía frá gamla tímanum; dúkkuvagnar, dúkkuvöggur og vörubílar en einnig njóta bretti, áhöld til matargerðar og margt fleira vinsælda.

„Allir hlutir eru hannaðir og smíðaðir af Hafþóri, ég legg til frágang og sé um sölu og bókhald. Allt er þetta handsmíðað, einn hlutur í einu af fagmanni með fullkomnunaráráttu, hann lætur ekkert frá sér sem hann er ekki sáttur við, og ég segi að hver hlutur sé gerður af ástríðu fyrir efninu.“

Í sveitinni í faðmi fjölskyldunnar líður Brynju og Hafþóri best. Hér er hluti af fjölskyldunni saman kominn. FRÉTTABLAÐIÐ/ÓTTAR GEIRSSON
Pítsaofninn hans Hafþórs er listasmíð og eldbakar ómótstæðilegar pítsur sem eru í miklu dálæti hjá fjölskyldunni. FRÉTTABLAÐIÐ/ÓTTAR GEIRSSON

Uppáhaldspítsan með perum og gráðaosti

Pítsuofninn hans Hafþórs er mikil listasmíði og nýtur mikilla vinsælda.

„Hann er mikið notaður, eiginlega meira en ég gerði ráð fyrir í upphafi. Oftast til pítsugerðar, en ég hef líka bakað í honum brauð og stefni á fleiri matartilraunir í honum,“ segir Brynja sem veit fátt skemmtilegra en að baka pítsur með barnabörnunum sem elska að koma til ömmu og afa í sveitina að njóta.

Hvernig er uppáhaldspítsan úr heimagerða pítsaofninum?

„Með hvítlauksolíu, perum, gráðaosti, rjómaosti, kasjúhnetum, klettakáli og sultu í lokin," segir Brynja sem segist oft nota tilbúið súrdeigspítsadeig sem meðal annars má fá í Bónus ■