Rit­höfundurinn, uppi­standarinn og þúsund­þjala­smiðurinn Bergur Ebbi segir les­endum Frétta­blaðsins frá listinni sem breytti lífi hans.

„Fyrir tæpum tíu árum síðan, þegar niður­hal og streymi á tón­list var byrjað að ryðja sér rúms, tók ég mig til og henti öllum geisla­diskunum mínum, um fimm hundruð stykkjum sem ég hafði safnað af metnaði og á­fergju allt frá ung­lings­aldri. Það er grát­legt að hugsa til þess. Ég henti þeim öllum. Eða það hélt ég alla­vega þangað til fyrir nokkru þegar ég fann geisla­disk í bóka­hillunni, sem hafði lík­lega ratað þangað því um­búðirnar eru eins og bók.

Það var eini diskurinn sem slapp og eini geisla­diskurinn sem ég á í dag og það er ekki til­viljun að hann fann sér leið, því um­ræddur diskur er gull­moli. Hann inni­heldur tón­list sem hljómar ekkert eins og árið sem hann kom út, góð­æris­árið 2007, enda klassískur í hljómi og efnis­tökum. Músíkin hreyfði við mér árið 2007 og hún gerir það enn í dag og mun lifa okkur öll.

Þessi diskur er Við og við með Ólöfu Arnalds, raunar frum­burður hennar og því stút­fullur af kjarki og dirfsku, en samt líka svo þroskaður og yfir­vegaður. Sjálfur met ég ekkert æðra í listum en það sem Ólöf færir fram á þessum diski: að standa án skjaldar, vopnuð engu nema eigin tóni og hugsunum og syngja fyrir heiminn, ó­hrædd við allt. List er sí­fellt að breyta lífi okkar, en virki­lega góð list getur breytt lífi okkar oftar en einu sinni. Það eru ekki mörg lista­verk sem fá slíka ein­kunn en Við og við er eitt þeirra.“

List er sí­fellt að breyta lífi okkar, en virki­lega góð list getur breytt lífi okkar oftar en einu sinni. Það eru ekki mörg lista­verk sem fá slíka ein­kunn en Við og við er eitt þeirra.