LEIKHÚS: Þétting hryggðar
Halldór Laxness Halldórsson
Borgarleikhúsið, Litla sviðið
Leikstjóri: Una Þorleifsdóttir
Leikarar: Jörundur Ragnarsson, Rakel Ýr Stefánsdóttir, Sveinn Ólafur Gunnarsson og Vala Kristín Eiríksdóttir
Leikmynd og búningar: Eva Signý Berger Tónlist og hljóð: Garðar Borgþórsson Lýsing: Kjartan Þórisson Leikgervi: Elín S. Gísladóttir
Sviðshöfundur: Jóhann Kristófer Stefánsson
Aðstoð við raddþjálfun: Kristjana Stefánsdóttir
Fyrsta frumsýning Borgarleikhússins var fimmtudaginn 16. september. Loksins, loksins. Leikhúsið hefur farið sérstaklega illa út úr faraldrinum en byrjar leikárið með því að stíga fast til jarðar og bjóða áhorfendum upp á brakandi ferskt íslenskt leikverk. Þétting hryggðar er eftir þúsundþjalasmiðinn Halldór Laxness Halldórsson og fjallar um fjóra gjörólíka Reykvíkinga sem er haldið föstum í iðnaðarhúsnæði í Borgartúni eftir að ógnvænlegur atburður hefur átt sér stað.
Skopleg samfélagsrýni
Þétting hryggðar er fyrsta frumsamda leikrit Halldórs í fullri lengd en hann er reynslumikill höfundur á ýmsum sviðum. Hér er á ferðinni handrit sem talar þráðbeint inn í samtímann og fjallar um mörg málefni sem brenna á borgarbúum. Persónur eru samt ekki einungis málpípur ákveðinna málefna, þó byggðar séu á skýrum staðalímyndum, heldur ágætlega skapaðir karakterar sem er flett ofan af eftir því sem líða tekur á. Samtölin eru snörp, skörp og skoppa á sviðinu, þarna liggur styrkleiki höfundar. Lokasenurnar eru svolítið stífar þar sem leysa þarf framvinduvandamál í söguþræðinum og loka verkinu, en það heppnast að mestu.
Stórkostlegur leikur Völu
Vala Kristín Eiríksdóttir er hreint út sagt algjörlega frábær í hlutverki hinnar yfirborðskenndu Þórunnar, konu sem býr í Hlíðunum og elskar að vera í kringum fólk sem er ekki endilega frægt en allavega þekkt á Instagram. Listin við nálgun Völu er að hún miðlar persónunni aldrei í gegnum látbragð stereótýpunnar heldur sem alvöru manneskju með flókið tilfinningalíf. Jörundur Ragnarsson leikur miðaldra arkitektinn Einar Baldur, Vesturbæing sem elskar að messa yfir fólki um borgarskipulag og ágæti hjólreiða. Taugatrekkingurinn sem einkennir hann er keyrður upp of snemma af Jörundi en yfirhöfuð nær hann fínum tökum á karakternum.
Sveinn Ólafur Gunnarsson þarf að takast á við snúnari persónu, iðnaðarmanninn úr Grafarvoginum sem á erfitt með að tjá tilfinningar sínar. Á yfirborðinu er hann pollrólegur en undir niðri kraumar bullandi kvíði og reiði sem Sveinn Ólafur kemur mjög vel til skila. Írena, uppreisnargjarna unga konan, er síst skrifaða persóna verksins. Hún talar nánast einungis í frösum og er stöðugt að stuða en er ekki sannfærandi. Rakel Ýr Stefánsdóttir nær ekki nægilega góðu valdi á persónunni og virkar tvístígandi, en skapar einlægt augnablik með Völu undir lokin þegar brynja Írenu molnar.
Handritið er í öruggum höndum Unu Þorleifsdóttur sem gætir þess að leyfa textanum að njóta sín. Leikstjórnin er látlaus en skynsamlega útfærð, þá sérstaklega þegar kemur að leikaravinnunni. Þrátt fyrir að vekja lukku, enda bráðfyndið, á lagið rétt fyrir hlé truflandi stílbrot á sýningunni. Öll listræn umgjörð styður sömuleiðis laglega við textann. Leikmyndahönnun Evu Signýjar Berger undirstrikar hversu aftengdar raunveruleikanum persónurnar eru en búningarnir sýna akkúrat samfélagstöðu þeirra, þetta er vel gert.
Sálarkreppa samtímans
Einn grundvallargalli er á bæði túlkun og listrænu framsetningunni. Yfirvofandi hættan sem steðjar að persónunum er ekki nægilega ríkjandi, hún rammar inn framvinduna frekar en að vera föst stærð í kringumstæðum þeirra. Áhorfendur heyra þrusk og fótatak með reglulegu millibili en hljóðmyndin er frekar nýtt til að ýta framvindunni áfram en að trufla karakterana þegar þeir eru í miðjum samræðum, þannig gleymast ríkjandi aðstæður.
Stundum er annað fólk helvíti en á öðrum stundum er nærvera náungans nauðsynleg, jafnvel lífsnauðsynleg. Þétting hryggðar hikar ekki við að fletta ofan af smáborgarahætti höfuðborgarbúa en á sama tíma sýna að flestir hafa sínar mannlegu hliðar. Þetta gerir Halldór vel og gleymir ekki hinum mannlega sannleik: Við erum öll að leita að hinu sama, við erum öll að leita að nánd.
Niðurstaða: Smellið handrit Halldórs og stórkostlegur leikur Völu Kristínar stela senunni.