Macbeth eftir William Shakespeare er hátíðarsýning Borgarleikhússins 2023. Leikstjóri verksins er hin litáíska Ursule Barto sem er rísandi stjarna í leikhúsheimi Evrópu og kemur með nýja og ferska nálgun að þessu burðarverki leikhúsbókmentanna.

Sólveig: „Þetta er ekki bara persónuleg saga Macbeth-hjónanna eða að þau séu svona ótrúlega vond heldur búa þau í heimi sem gerir þeim þetta kleift og styður þau í þeirra illgjörðum. Maður finnur mjög fyrir því hjá Ursule, af því við hittumst og töluðum saman fyrir innrás Rússa í Úkraínu og svo eftir, að það varð breyting á áherslum. Pútín er ekki bara einn að ráðast inn í Úkraínu, heimurinn sem hann kemur úr styður það.“

Hjörtur: „Það er mjög áhugavert að eiga í samtali um ástandið í Evrópu og heiminum í dag við manneskju frá Litáen sem hefur náttúrlega verið með Rússland í bakgarðinum alla sína sögu. Meira að segja er 13. janúar, frumsýningardagurinn okkar, blóðugur dagur í sögu Litáen eftir að þau lýsa yfir sjálfstæði frá Sovétríkjunum og eiga í blóðugri baráttu við sovéska herinn. Heimurinn í Macbeth er í lykilhlutverki, myndi ég segja. Þetta er heimur þar sem það er búið að opna dyrnar fyrir ofbeldi og mannhatri sem er stærra og meira en endilega bara persónulegur vilji hvers og eins. Þetta er einhvers konar vírus úr heift og ofbeldi sem breiðir úr sér og enginn sleppur undan.“

Ekki venjulegar manneskjur

Macbeth er eitt þekktasta verk Williams Shakespeare og segir frá því þegar líf ungs hermanns gjörbreytist eftir að hann heyrir spádóm þriggja norna um að hann muni verða konungur Skotlands. Verkið fjallar um sjúka valdabaráttu og það hvernig metnaðargirni getur umturnast í harðstjórn.

Sólveig: „Það sem ég held að sé líka mikilvægt og mér finnst áhugavert sem nálgun að Shakespeare, er að þegar þú ert að fást við persónur eins og Macbeth-hjónin eru þetta ekki bara venjulegar manneskjur með venjulegan sálfræðilegan boga í sínu lífi. Allar þessar persónur Shakespeares eru á miklu stærri skala, þetta eru næstum því goðsagnakenndar persónur. Þú getur ekki njörvað þær niður í okkar hversdagslega, sálfræðiþenkjandi líf.“

Á Shakespeare alltaf jafn mikið erindi, er Macbeth kannski bara samtímaverk?

Hjörtur: „Mér finnst það. Ég held að það sé þessi klisja sem er bara klisja af því hún er sönn, að það eru svo sterkir sammannlegir eiginleikar í öllum þessum verkum sem gera það að verkum að það er alltaf hægt að finna leiðir til að stinga þeim í samband við nútímann.“

Fasismi og ofbeldismenning

Macbeth var fyrst sett á svið fyrir meira en 400 árum síðan og hefur verið sett upp á alla mögulega vegu um allan heim. Hjörtur segir þó alltaf vera hægt að finna nýja fleti á verkinu eftir því hvað er í gangi í heiminum hverju sinni.

Hjörtur: „Það er mjög merkilegt að skoða þetta verk í gegnum linsu stríðs í Evrópu og þessa mikla uppgangs öfgahægristefnu. Það eru fasistahreyfingar að poppa inn í ríkisstjórnir alls konar Evrópuþjóða og úti um allan heim. Talandi um ofbeldismenningu þá er fasismi nánast ekkert nema það og þá einhvern veginn finnst manni það mjög brýnt og viðeigandi að skoða þetta verk í því samhengi.“

Sólveig segir lykilinn að því að túlka persónur Shakespeares vera að læra textann vel, leyfa honum að standa óbreyttum og láta hann verða hluta af leikaranum.

Sólveig: „Textinn einn og sér er ástæðan fyrir því að við erum ennþá að leika Shakespeare 400 árum síðar, hann er svo ríkur, sterkur og stór og myndirnar eru svo stórkostlegar. Ég held að það sé mjög mikilvægt að fara ekki með einhverja nútíma sálfræðigreiningu inn í þessar persónur, ég held að þú eiginlega drepir þær með því.“

Bölvun Macbeths

Ýmsar sögusagnir tengjast leikritinu Macbeth, þar á meðal sú hjátrú að leikarar megi ekki segja nafn verksins upphátt, ellegar hljóti þeir verra af. Það hefur því fengið á sig ýmis gælunöfn á borð við „skoska leikritið“.

Sólveig: „Ég heyrði ótrúlega skemmtilega sögu um að þetta komi til vegna þess að þegar Macbeth var sýndur þá elskaði fólk þetta verk og flykktist í leikhúsin. Þetta var alltaf öruggur hittari, bara eins og að setja upp góðan söngleik á Íslandi.“

Hjörtur: „Þetta var Mamma Mia! síns tíma.“

Sólveig: „Já, í gamla daga, á tímum Shakespeares, þá voru gríðarlega mörg lítil leikhús sem voru einkarekin í London og með styrktaraðila eins og við erum með í dag. Ef leikhúsin voru farin að ganga illa þá var yfirleitt ákveðið að setja Macbeth á dagskrá en það mátti samt ekki kvisast út fyrir fram að það ætti að fara að sýna verkið því þá hefðu styrktaraðilarnir fattað að það væri farið að ganga illa og dregið peningana sína til baka. Svo var bara frumsýnt, leikhúsið fylltist og búið að bjarga fjárhagnum.“

Að sögn Sólveigar er búið að vera óvenjulega mikið um slys, veikindi og óhöpp í æfingaferlinu. Hjörtur bætir því þó við að honum hafi verið mikið í mun að detta ekki í hjátrúna og hafi því lagt sig fram við að segja nafn sýningarinnar sem oftast strax þegar æfingatímabilið hófst.

Ekki mönnum sinnandi

Þetta er í fyrsta sinn á ferli beggja sem Hjörtur og Sólveig leika í Macbeth. Þau segja að fá önnur hlutverk heltaki leikara jafn mikið og hlutverk hinna morðóðu skosku konungshjóna.

Sólveig: „Ég hef eiginlega aldrei verið jafn heltekin af nokkrum karakter eða persónu eins og Lafði Macbeth. Ég er varla mönnum sinnandi utan æfinga. Yfirleitt hristi ég þetta bara tiltölulega vel af mér og fer svo í Bónus og tek úr vél eins og venjulegt fólk. Ég verð að segja að mér finnst núna þetta leikrit og þessi lafði fylgja mér ansi mikið í gegnum hvunndaginn.“

Hjörtur: „Ég segi það sama, maður er alveg eins og bjáni þegar maður er ekki hér. Ég skil allar mínar heilasellur eftir hér hjá Macbeth og í Skotlandi. Sem er auðvitað mjög gaman en ekki kannski fyrir maka manns og fjölskyldu.“