„Ég veit ekki hvort er meira miðaldra, að kjósa fyrir hádegi eða að missa ökuskírteinið niður í kjörkassann með kjörseðlinum. Aftur,“ skrifaði Þórarinn Stefánsson efnafræðingur á Twitter á kjördag.

Yfirlýsingin þótti að vonum fréttnæm enda þarna efniviður í bráðskemmtilega kosningafrétt ef frásögn Þórarins af því hvernig hann glopraði ökuskírteininu ofan í kjörkassann hefði ekki verið stórlega ýkt.

„Já, já, þetta var plat og það átti nú að vera vísbending að einhverjum hefði tekist að gera þetta tvisvar,“ segir Þórarinn í samtali við Fréttablaðið en lætur þess getið að vissulega hafi hurð skollið nærri hælum.

„Þetta var tilraun til fyndni. Ég stóð með seðilinn og ökuskírteinið í hendinni þegar ég áttaði mig á að ég yrði að passa mig á að setja þetta ekki saman niður. Það hefði ekki verið gaman fyrir mig en sagan er náttúrlega góð og ég fór að hugsa með mér hvað það yrði vandræðalegt og ákvað að búa til brandara úr því.“

Þórarinn bætir við að slík atburðarás sé ekki endilega alveg úr lausu lofti gripin og segist hafa fengið athugasemdir frá í það minnsta tveimur sem hafi verið nærri því að svipta sig ökuskírteininu með þessum hætti á kjörstað.

Allir sluppu þessir kjósendur þó með skrekkinn að þessu sinni og enda þótt Þórarinn hafi ýkt óheppni sína á kjörstað hressilega á Twitter má ætla að um ágætishugvekju hafi verið að ræða enda líklegt að fara þyrfti í gegnum flókið ferli til þess að endurheimta persónuskilríki úr kjörkassa. Ekki síst ef slíkt óhapp yrði í Norðvesturkjördæmi og allt eins líklegt að skírteinið myndi hverfa fyrir fullt og allt.