Báðir þeir sem voru með fyrsta vinning í fjórföldum Lottópotti þann 7. ágúst síðastliðinn hafa nú gefið sig fram en vinningshafarnir fá hvor um sig 27,4 milljónir í sinn hlut. Í öðru tilfellinu var miðinn keyptur í Olís í Varmahlíð á Norðurlandinu og hélt miðaeigandi í því tilfelli að upphæðin væri mun minni.

„Hún var heldur betur hissa og undrandi frúin sem kíkti til okkar í Laugardalinn í gær. Meðferðis hafði hún Lottómiða sem maðurinn hennar hafði beðið hana um að koma til okkar og sækja 27 þúsund króna vinninginn sem hann taldi að á honum væri,“ segir í tilkynningu frá Íslenskri getspá um málið.

Það kom því mjög á óvart þegar raunin var sú að vinningurinn væri rúmum 27 milljón krónum hærri. „Maðurinn hafði farið með miðann á sölustað til að láta skoða hann en bæði hann og starfsmaðurinn lásu upphæðina svona skakkt. Miðinn var bara settur aftur í veskið og beðið eftir næstu ferð í bæinn.“

Hinn vinningsmiðinn var keyptur á N1 á Þingeyri. „Eigandi hans var að kaupa sér sjeik og „æ láttu mig hafa einn 10 raða með Jóker“. Hann kom aftur í söluskálann daginn eftir – til að kaupa sér sjeik, var spurður hvort hann hefði hugsanlega keypt vinningsmiðann og mikil var gleðin þegar kom í ljós að það var akkúrat málið.“

„Hann sagði alveg ljóst í hvað þessi vinningur færi, hann ætlar að kaupa sér íbúð, og kannski einn sjeik til,“ segir í tilkynningunni. „Íslensk getspá óskar þessum stálheppnu vinningshöfum innilega til hamingju með þessa flottu vinninga.“