Rúrík Gíslason fótboltamaður var einungis fimmtán ára unglingur þegar hann flutti frá vinum og fjölskyldu á Íslandi, alla leið til Belgíu til þess að spila fótbolta. Þar bjó hann hjá strangtrúaðri kaþólskri fjölskyldu en hélt stuttu síðar aftur heim á leið, brotinn á sál og líkama. Rúrik er í ítarlegu viðtali í nýjasta tölublaði Glamour sem kemur út í dag. Þar ræðir hann ýmislegt við Álfrúnu Pálsdóttur, ritstjóra Glamour, meðal annars um fótboltann, lífið í Þýskalandi, vinsældir sínar á samfélagsmiðlum og framtíðina.

Hélt heim til Íslands með brjósklos og heimþrá í farteskinu

„Þegar ég hugsa til baka var þetta ekki góður tími. Af því að ég var svo ungur þurfti ég að búa inni á fjölskyldu og ég bjó hjá strangkaþólskri fjölskyldu. Það var smá skellur fyrir unglinginn sem átti kærustu og hún mátti varla koma í heimsókn,“ segir Rúrik í samtali við Glamour um þessi fyrstu skref unglingsins, sem skyndilega varð atvinnumaður í fótbolta. 

„Ég kom heim aftur gjörsamlega brotinn á líkama og sál, með brjósklos og heimþrá og lítill í mér.“

Foreldrarnir hans tóku lán fyrir boltanum

Rúrik náði þó fljótt að byggja upp krafta og leiðin lá næst til Englands þar sem hann spilaði með enska knattspyrnuliðinu Charlton. 

Það var þó ekki auðvelt því foreldrar Rúriks þurftu að taka lán til að koma piltinum út. „Svo ég gæti átt eitthvað til að lifa sómasamlegu lífi. Ég fékk ekki mikinn pening á þessum samningi og þau aðstoðuðu mig,“ er haft eftir Rúrik. Hann segir foreldra sína vera jafnframt vera sína stærstu stuðningsmenn. „Mamma hefur alltaf hvatt mig í öllu og hrósar mér eftir hvern einasta leik, sama hvað ég hef gert, á meðan pabbi hefur alltaf getað fundið eitthvað sem ég hefði getað gert betur. Haldið mér á jörðinni.“

Fullmikil neikvæðni á Íslandi

Frá Englandi hefur leið Rúriks legið víða, hann hélt fyrst til Danmerkur og svo Þýskalands þar sem hann er nú búsettur. Aðspurður segist hann ekkert endilega sjá fyrir sér að setjast að á Íslandi að fótboltaferli loknum, en að hans mati er full mikil neikvæðni hér á landi. 

„Það er svo langt síðan ég bjó á Íslandi og það er alltaf gott að koma heim. En ég veit það ekki, mér finnst fullmikil neikvæðni á Íslandi fyrir minn smekk. En maður á aldrei að segja aldrei svosem, en ég held að ég muni ekki búa á Íslandi aftur.“

Rúrik var á lista Sjálfstæðisflokksins í alþingiskosningum 2016 og 2018 og segist hafa sterkar skoðannir á málefnum líðandi stundar. Hann kveðst þó ekki vita hvað taki við að fótboltaferli loknum, helst af öllu dreymir hann þó um vinnu þar sem hann ræður eigin vinnutíma. Öllu ólíkt fótboltanum. „Ég hef til dæmis misst af öllum afmælum foreldra minna síðan ég flutti út og öðrum svona tímamótum í fjölskyldunni,“ segir Rúrik. 

Vill frekar nýta Instagram til góðs

Vinsældir Rúriks á samskiptamiðlinum Instagram eru gífurlegar og fylgjendahópur hans stækkaði gífurlega á meðan heimsmeistaramótið í fótbolta stóð yfir í sumar. Þá sást Rúrik sjálfur á sjónvarpaskjám um heim allan og fangaði hug og hjörtu kvenna - og karla um heim allann. 

Hann segir sjálfur það hafa verið sérstaka tilfinningu að opna símann eftir leikinn á móti Argentínu og sjá fylgjendurna hrannast upp, en fyrst hélt hann að um vírus væri að ræða. Svo hratt hrönnuðust fylgjendurnir inn. 

„Mig langar að svara öllum sem senda mér falleg skilaboð, það er bara partur af minni persónu,“ segir Rúrik sem kveðst meðvitaður um möguleikann á því að nýta sér síðuna til að græða fé. 

„Ég vil ekki gera þetta því einhverjir aðrir sjá tækifæri til að græða peninga á þessu. ÉG vil vekja athygli á góðgerðarsamtökum og einhverju sem skiptir máli.“ 

Viðtalið við Rúrik í heild sinni má finna í nýjasta tölublaði Glamour sem kemur út í dag.