Sara Sóley er átján ára gömul og býr ásamt móður sinni í Árbænum. Hennar helstu áhugamál liggja í sköpun af ýmsu tagi en hún nýtur þess meðal annars að mála og föndra.

„Ég er að fara að útskrifast í vor, ef allt gengur að óskum, og þá flytja til Svíþjóðar í áframhaldandi nám í grafískri hönnun. Ég bjó áður í Svíþjóð og kann tungumálið svo ég hugsaði með mér að það væri góð byrjun. Síðan býr pabbi minn þarna líka.“

Var ekki að búast við sigri

Sara Sóley segist ekki viss um nákvæmlega hvenær áhuginn á skrifum hafi kviknað.

„Ég hef alltaf verið góð með orð og á auðveldara með að skrifa á ensku en íslensku. Ég veit ekki hvers vegna það er, kannski að hlutirnir hljómi einfaldlega betur.“

Hún segir þátttöku sína í keppninni hafa verið hálfgerða tilviljun.

„Þetta var nú eiginlega bara alveg óvart. Við eigum alltaf að skila inn dagbókarfærslum vikulega í ensku og okkur stóð til boða að sleppa við þrjár dagbókarfærslur ef við tækjum þátt í smásagnakeppninni. Ég hugsaði með mér: Geggjað, þetta sparar mér tíma í öðrum verkefnum. Svo vann ég bara óvænt, það var í raun ekki tilgangurinn til að byrja með.“

Þegar Söru var tilkynnt um sigurinn var hún steinhissa.

„Þetta kom mér rosalega á óvart. Ég var ekki að búast við því. Ég hélt fyrst að ég hefði gert eitthvað af mér þegar aðstoðarskólastjórinn kom í tíma til að segja mér að ég hefði unnið. Það var smá sjokk.“

Rýnt í drauma og tilfinningar

Saga Söru ber titilinn „A time for wonder“ og segir hún söguna fyrst og fremst vera sálfræðilega.

„Hún fer dálítið inn á það hversu sjaldan við stöldrum við til að vera í núinu og hvernig maðurinn er búinn að missa tenginguna við barnið í sér. Ég hugsa að hluti af innblæstrinum hafi komið úr samtali við mömmu en hún er að læra sálfræði. Það er alltaf verið að rýna ofan í tilfinningar hérna heima,“ segir hún og hlær.

Þegar Sara er spurð nánar út í samtöl sín við móður sína rifjar hún upp martröð sem hana dreymdi.

„Mig minnir að það hafi verið þannig að mig dreymdi einhvern mjög skrítinn og óraunverulegan draum og við mamma vorum að reyna að túlka hann. Ein af þeim túlkunum var sú að ímyndunaraflið mitt fengi ekki nógu mikið pláss, að rökhugsunin væri meiri, eins og barnið í mér fengi ekki alveg að njóta sín.“

Þetta kveikir forvitni blaðakonu sem spyr Söru hvort hún muni eitthvað eftir umræddri martröð.

„Ég var í einhvers konar ævintýra- eða Disneyheimi. Við vorum í einhverjum leiðangri í regnskógi og það var fullt af eiturslöngum út um allt. Síðan heyri ég einhvern segja: Passið ykkur á slöngunum, þær eru baneitraðar! Þá lít ég niður og sé hala á slöngu koma út úr peysunni minni. Ég frýs og fer svo að reyna að draga hann út en þá vakna ég og þegar ég vakna finn ég ennþá fyrir slöngunni.“

Kristján Örn Kristjánsson, landsliðsmaður í handbolta, vann smásögukeppnina þegar hann var í Borgarholtsskóla árið 2016. MYND/HSÍ

Borgarholtsskóli farsæll

Sara er sem fyrr segir nemandi í Borgarholtsskóla en athygli vekur að nemendur Borgarholtsskóla hafa oftar en en ekki ratað í efstu sæti smásagnakeppninnar. Þar má til að mynda nefna landsliðsmanninn í handbolta, Kristján Örn Kristjánsson, sem sigraði í keppninni árið 2016.

Íris Rut Agnarsdóttir, enskukennari í skólanum og ritari FEKÍ, telur að það stafi meðal annars af því hversu góð þátttaka sé í keppninni.

„Þátttaka í smásögukeppninni hefur iðulega verið mjög góð í Borgarholtsskóla. Það hafa borist tugir smásagna í keppnina hverju sinni og því úr nógu að velja. Ég held að ástæða velgengninnar sé fjölbreytnin í sögunum og skapandi nemendur,“ segir Íris Rut.

Sara segist upphaflega ekki hafa gert ráð fyrir að fara í Borgarholtsskóla en í ljós kom að það hafi reynst hárrétt ákvörðun.

„Það var í raun óvart. Einn vinur minn ætlaði að fara í grafíska hönnun og ég fór þá eitthvað að skoða þetta og fannst þetta áhugavert. Þetta er skapandi og skemmtilegt nám, kennararnir eru frábærir og hafa hjálpað mér mikið í náminu.“

Langar að ferðast um heiminn

Það er nóg að gera hjá Söru en hún segir helgina munu fara í að vinna og læra.

„Ég vinn með skólanum á kjúklingastaðnum í Suðurveri og hef verið að vinna eins mikið og ég get því ég er alveg að flytja út. Er að vísu að ekki að vinna eins mikið akkúrat núna því þetta er síðasta önnin mín.“

Það kemur því ekki beinlínis á óvart að Sara hafi ekki mikinn frítíma til að lesa annað en námsefni, þegar hún er spurð hvort hún eigi sér uppáhaldsbók eða rithöfund.

„Ég hef ekki mikinn tíma til að lesa en les dálítið á sænsku. Ég las Astrid Lindgren rosalega mikið sem barn svo að hún er örugglega uppáhalds, svona allavega í gegnum tíðina, en ekki lengur.“

Hvað framtíðina að loknu framhaldsnámi snertir kveðst Sara helst vilja kanna heiminn.

„Mig langar að ferðast, fara í heimsreisu og þá hafði ég hugsað mér að vera með dagbókarfærslur um ferðalagið mitt. Annað en það þá veit ég ekki. Kannski fara til Ítalíu, Grikklands eða Ameríku.“

Hún segir óvíst hvort og þá hvenær hún muni formlega skrifa meira eða jafnvel gefa út efni.

„Kannski einhvern tímann. Ég veit allavega núna að það er mögulegt.“