Þjóðin getur hlakkað til kvöldsins því Helgi hefur einstakt lag á að koma henni í gott skap. Gleyma erfiðum stundum og hlýða á töfrandi músík. Helgi segir að hugmyndin að tónleikunum Heima, eins og hann kallar þá, hafi komið frá vinum hans á Ítalíu. „Ég þekki marga ítalska tónlistarmenn og þeir voru að pósta á Facebook og öðrum samfélagsmiðlum alls kyns tónlistaruppákomum sem fengu mjög góðar viðtökur. Mig langaði að gera þetta líka og setti mig í samband við Símann til að athuga hvort þetta væri framkvæmanlegt. Þeir tóku þessu fagnandi. Í fyrstu áttu tónleikarnir að vera heima hjá mér en þar sem ég bý í gömlu húsi þar sem ekki er mjög vítt til veggja var ekki hægt að framfylgja þeirri reglu að nægileg lengd væri á milli manna. Við fengum því hliðarsal í Hlégarði til að gera þetta mögulegt og útbjuggum hann eins og heimili. Ég fór til dæmis með eigin húsgögn og hluti til að gera umhverfið kósí,“ segir Helgi. „Þótt ég hafi tilkynnt það í þættinum að þetta væri í Hlégarði voru margir sem héldu að þetta væri heima hjá mér,“ segir hann.

Óvæntur leynigestur

„Mig langaði að gleðja fólk og sá fyrir mér að allir væru lokaðir heima. Ég var búinn að sjá að hverju stefndi og að það kæmi að þessu samkomubanni. Það var byrjað að fresta ýmsum viðburðum og ég þar á meðal mínum eigin. Tónlistarmennirnir sem eru með mér í þættinum tóku strax vel í að gera þetta með mér og við pössuðum auðvitað að enginn væri að faðmast eða snertast. Auk þess héldum við ákveðinni fjarlægð á milli okkar,“ segir Helgi en hann verður með nýjan gest í útsendingunni á laugardag. Um síðustu helgi söng Salka Sól með nokkur lög.

Það var kósí stemming hjá Helga og Reiðmönnum vindanna síðasta laugardag. Nú endurtaka þeir leikinn í kvöld og fjörið heldur áfram fyrir þjóðina.

Helgi segir að þetta sé leynigestur. „Mig langar til að það komi fólki á óvart hver hann er,“ segir hann. Það gekk ekki að ná því upp úr Helga hver hann yrði en hann upplýsti þó að þetta væri mjög vinsæll söngvari, karlkyns og frekar yngri en eldri. Nú verður fólk bara að geta í eyðurnar og horfa svo á þáttinn í kvöld og athuga hvort það hefur getið rétt.

Snortinn yfir viðbrögðunum

Í ljós kom að Helgi fékk gríðarlegt áhorf á þáttinn og hann er í skýjunum með viðbrögðin. „Viðbrögðin á eftir komu mér algjörlega í opna skjöldu. Það streymdu til mín þakklætiskveðjurnar og allir voru svo glaðir. Þetta hefur svo sannarlega hlýjað mér enda voru þetta hjartnæmar þakkir og margir báðu mig að endurtaka leikinn. Sumir voru búnir að horfa þrisvar og sungu alltaf með. Ein hjón sögðust hafa tekið fram gítar og bassa og síðan var bara spilað og sungið með. Kveðjurnar voru svo einlægar að ég var snortinn yfir þeim,“ segir Helgi. Hvort þættirnir verði fleiri segir hann að verði að koma í ljós. „Maður tekur bara eina helgi í einu í þessu ástandi. Lagavalið verður með svipuðum hætti og síðast. Mögulega getur fólk valið á milli laga á þeim lista sem við munum gefa upp og þá reynum við að syngja þau. Við erum að skoða hvernig við getum framkvæmt það. Við höldum sama forminu og síðast, verðum með lög sem þjóðin þekkir.“

Salka Sól kom fram í síðasta þætti. ?Í kvöld kemur annar óvæntur gestur.

Það er allt stopp í tónlistarbransanum og ekkert að gera hjá listafólki. Helgi segir að árshátíð þar sem hann átti að koma fram í maí hafi verið frestað í heilt ár. Auk þess hafi hans eigin tónleikum 24. apríl, Sumarhátíð með Helga Björns, verið frestað þar til í lok sumars. „Það er ekkert hlaupið að því að fá húsnæði þegar líða fer á sumar og haust því það var löngu búið að bóka þau. En það verða örugglega allir tilbúnir til að skemmta sér þegar þessu ástandi lýkur. Núna þurfum við að lifa þetta af með æðruleysi og vera jákvæð. Svo tökum við hitt þegar þar að kemur.“