Helgi Björns og félagar söfnuðu tuttugu milljónum fyrir Mæðrastyrksnefnd í lokaþætti af helgarþætti kappans. Þetta kemur fram í tilkynningu.
Í lok nóvember birtust Helgi Björnsson og Reiðmenn vindanna ásamt Vilborgu Halldórsdóttur í síðasta sinn í bili í Sjónvarpi Símans. Þau hafa staðið vaktina í gegnum bylgjur farsóttar ásamt fjölbreyttum hópi listamanna og þannig skemmt þjóðinni og reynt að létta okkur lundina á þessu furðulega ári.
Lokaþáttur ársins var ekki aðeins fyrsta flokks skemmtun í galopinni dagskrá heldur ákvað Síminn ásamt Helga Björns að leggja sitt af mörkum og breyta þættinum í söfnunarþátt. Ákveðið var að söfnunarféð myndi renna óskipt til Mæðrastyrksnefndar.
Alls söfnuðust tuttugu milljónir í söfnuninni eins og áður segir og tóku viðskiptavinir allra fjarskiptafélaganna þátt. Mæðrastyrksnefnd mun nýta söfnunarféð til góðra verka og ljóst að upphæðin mun nýtast þeim sem hvað mest þurfa á hjálp náungans að halda og munu koma sér einstaklega vel nú þegar að jólin nálgast.
„Ferðalagið með Helga og Reiðmönnum vindanna í gegnum þennan faraldur hefur verið lyginni líkast, áhorf á þættina var í hæstu hæðum og við erum full þakklætis þeim fjölda sem lagði söfnuninni lið. Við vitum að þessir fjármunir eru í góðum höndum hjá Mæðrastyrksnefnd.“ segir Pálmi Guðmundsson dagskrárstjóri Sjónvarps Símans.