Helgi Björns, Vil­borg Hall­dórs­dóttir og Reið­menn vindanna munu mæta fjórðu helgina í röð á skjá lands­manna í Sjón­varpi Símans í veg­legum páska­þætti næsta laugar­dag. Helgi hefur áður í sam­tali við Frétta­blaðið lofað því að þátturinn verði veg­legri en nokkru sinni fyrr og gefur ekkert upp um það hverjir verða gestirnir að þessu sinni.

Út­sendingarnar Heima með Helga hafa orðið fastur liður á laugar­dags­kvöldum lands­manna frá því að sam­komu­bannið skall á. Þar syngur Helgi valdar dægur­perlur við undir­leik Reið­mannanna og býður til sín vinum og kunningjum á­samt eigin­konu sinnu Vil­borgu Hall­dórs­dóttur sem lesið hefur valin ljóð sem hún hefur þýtt úr ítölsku. Ljóðin hafa verið inn­blásin af á­standinu sem þar ríkir vegna Co­vid 19 en þau hjónin hafa verið með annan fótinn á Ítalíu í ára­tugi og eiga þar marga góða vini.

Fyrir síðustu helgi vildi Helgi ekkert gefa upp um það í sam­tali við Frétta­blaðið hverjir yrðu leyni­gestir. Það er sama uppi á teningnum nú.

Sér­stakir gestir þeirra hjóna hafa verið Salka Sól Ey­feld, Frið­rik Dór, og nú síðast KK og Ragga Grön­dal en allir hafa þessir gestir farið á kostum enda auð­fúsu gestir á öllum heimilum landsins. Einn helsti sam­kvæmis­leikur lands­manna síðustu laugar­dags­kvöld hefur verið að giska á hverjir verða gestir kvöldsins.

Við­brögðin við kvöld­dag­skránni hafa verið mikil og hafa þau ekki farið fram hjá neinum sem fylgist með sam­fé­lags­miðlum á laugar­dags­kvöldum.

„Ég hef fengið af­skap­lega góð við­brögð við tón­leikunum og ég er inni­lega þakk­látur fyrir það. Maður fyllist auð­mýkt og eftir að hafa fengið í­trekaðar óskir um að endur­taka leikinn þá gat ég ekki annað en sam­þykkt það," segir Helgi.

Hér að neðan má sjá þau Helga, KK og Röggu Gröndal taka lagið Bein leið á síðustu kvöldvöku.