„Hugmyndin var upphaflega að bjóða þeim sem almennt eru ekki að sækja tónlistarhátíðir um verslunarmannahelgar kost á kaupa til sín tónlistarflutning ef svo má segja,“ segir Helgi Björnsson sem verður með tónleikastreymi frá Hótel Borg um helgina.

Ákvörðunin var upphaflega tekin í vor eftir að Helgi ákvað að taka því rólega eftir veturinn, en eftir nýlegar breytingar á samkomutakmörkunum virðist hann nú vera einn af fáum tónlistarmönnum sem koma ná að koma fram eins og til stóð.

„Þetta sáum við fyrir okkur seim einn valkost í umhverfi þar sem heilmikið af annarri afþreyingu og mannamótum væri í boði. Svona tilraun ef það mætti kalla það svo,” segir Helgi sem vonar að streymið nái að krydda helgina hjá fólki aðeins.

Fyrirhugaðir tónleikar Helga í Háskólabíó í ágúst frestast að öllum líkindum aftur vegna aðstæðna en hann segir lítið hægt að velta sér upp úr því.

„Núna er bara að setja upp vandaða dagskrá fyrir þjóðina," segir hann. „Við erum að setja upp búnaðinn okkar hérna á Hótel Borg og ætlum að hafa þetta einlægt og skemmtilegt, svona í þeim anda sem okkur tókst að gera í þáttunum.

Upplýsingar um dagskrána og miðasala á streymið má finna á tix.is