Helgi Björnsson og Reiðmenn vindanna settu svip sinn á samkomubannið með því að færa innilokuðum Íslendingum stuð heim í stofu með söng og gleði. Heima með Helga sló svo rækilega í gegn að þjóðin bar sig nokkuð vel þessi föstudagskvöld og gleymdi örlitla stund að úti væri stormur og él. Vilborg Halldórsdóttir, eiginkona Helga ásamt völdum gestum, varð hluti af rútínu landans á föstudagskvöldum og viðtökurnar voru miklu betri en Helgi átti von á.

Helgi og Reiðmennirnir ætla að fara annesja á milli og hitta landsmenn og þakka fyrir ótrúlegar viðtökur síðasta misserið. Félagarnir tróðu upp um síðustu helgi í Hlégarði þrjú kvöld í röð, en þar verða þeir einnig um helgina. Mikill áhugi var á miðunum sem fóru í sölu í vikunni.

Þegar leik lýkur í Hlégarði verða hattarnir settir upp, hnakkarnir á klárana og þeyst af stað um landið. Ætla þeir félagar að byrja á Norðurlandi og fara á Húsavík, til Akureyrar og á Siglufjörð dagana 10. til 13. júní. Næsta stopp er Ísafjörður 19. júní og svo er það austurlandið: Eskifjörður, Borgarfjörður eystri, Egilsstaðir og Vopnafjörður, 25.-28. júní.

„Þetta er nú bara tilkomið vegna þess hversu hrærður ég er yfir öllum þessum ótrúlegu viðbrögðum sem við fengum við þættinum okkar í skemmtanabanninu. Það er ekki hægt að taka þessu sem sjálfsögðum hlut. Fyrir bannið vorum við með dagskrá á prjónunum í Háskólabíói, sem við urðum að færa fram í ágúst en það er allt saman löngu uppselt. Okkur langaði því að fara til þeirra sem búa lengst frá borginni og eiga ekki auðvelt með að fara í það ferðalag.

Þannig að við komum bara til þeirra og gleðjum og gefum,“ segir Helgi. Alls verða þetta 14 tónleikar á 30 dögum. „Þetta er umfangsmikið ferðalag, við erum að fara með alla hljómsveitina og hluta leikmyndarinnar og ætlum að skapa þessa stemningu á öllum stöðunum.

Mikið rosalega hlökkum við til að sjá framan í sólbrúna Íslendinga, skælbrosandi og glaða,“ bætir Helgi við og tilhlökkunin leynir sér ekki. Miðaverði er stillt í hóf og er það sama og var í Hlégarði í Mosfellsbæ, 4.990 krónur, en miðasala fer fram á tix.is.