Forsaga þess að Helgi getur nú titlað sig danshöfund er sú að Unnur Elísabet Gunnarsdóttir dansari og danshöfundur leitaði á náðir hans og 13 annarra listamanna til að semja sitt örverkið hver. Þessi 14 örverk, hvert í kringum þrjár mínútur að lengd, mynda svo listahátíðina Ég býð mig fram sem stendur yfir kvöldstund og verður frumsýnd í Tjarnarbíó þann 21. febrúar næstkomandi. 

Listamennirnir sem taka þátt fengu allir sent sama bréfið frá Unni, með ósk um að semja örverk og er skemmst frá því að segja að allir þeir sem leitað var til tóku vel í bónina og sögðu já. Auk Helga má nefna Ólaf Darra Ólafsson, Álfrúnu Helgu Örnólfsdóttur, Ilmi Stefánsdóttur og Ingvar E. Sigurðsson sem eiga örverk á hátíðinni.

„Það var alls engin krafa að um dansverk væri að ræða enda hafa fjölbreytt verk borist. En sjálfum fannst mér undir eins tilvalið að semja nútímadans við lagið Vængir sem nú er nýkomið í spilun á útvarpsstöðvum.“ Helgi segist hafa viljað nota tilefni lagsins sem innblástur verksins. 

„Lagið fjallar um tímabil sem ég fór í gegnum sem ungur drengur, þegar ég lagðist í einhvers konar þunglyndi í tvær til þrjár vikur.“ Helgi sem ólst upp á Ísafirði segist hafa setið í Lazy Boy stól heimilisins meira og minna og horft út um gluggann. „Ég horfði með kíki á sjófuglana sem halda til í hlíðinni við bæinn. Þetta var sáluhjálp mín á þessum tíma og snerist um að ná sér á flug aftur og rífa andann upp úr þessari dimmu, koma sér aftur af stað og rísa upp eins og fuglinn Fönix.“

Helgi notaði lagið Vængir en breytti því þó töluvert fyrir verkið og samdi við það nútímadansverk í samstarfi við Unni. „Þetta hefur verið ótrúlega skemmtilegt samstarf enda er Unnur svo fjölhæf og inspírerandi listamaður. Hún getur allt!“ Það er Unnur sjálf sem dansar í verkinu en Helgi viðurkennir að hún hafi reynt að fá hann til að taka sporið með sér. 

„Unnur er búin að vera að hamast í mér en ég ætla að láta það vera í þetta sinn. Ég útiloka þó ekkert með það í framtíðinni – ég þyrfti bara að losa mig við eins og 15 kíló áður en ég fer í þann pakka,“ segir Helgi og hlær. Helgi segist hafa mjög gaman af nútímadansi og fari alltaf annað slagið á danssýningar og hafi gaman af. „Ég hef fylgst töluvert með því sem Erna Ómars dansari er að gera og það er gaman að sjá hvernig þessi nútímadans er að þróast út í meiri tjáningu og kraft. Hráa expressjón.“ 

Unnur er sammála um að samstarfið hafi gengið vel og segir Helga hafa farið fram úr hennar væntingum sem danshöfundur. „Þetta kom mér verulega á óvart þó ég vissi auðvitað að hann væri ótrúlegur listamaður. Hann veit nákvæmlega hvað hann vill, bæði tilfinningalega og hreyfingalega. Ég er virkilega ánægð með hann og er búin að segja honum að í næsta verki dönsum við dúett,“ segir Unnur í léttum tón. 

Hún segir upprunalega hugmynd sína hafa verið að umbreyta Tjarnarbíói og leyfa því að lifna við og nú stuttu fyrir frumsýningu sýnist henni það ætla að takast. „Á sviðinu verða dansverk, leikverk, fyrirlestur, fimleikaverk og fleira. Frammi verður svo myndlistasýning auk þess sem Almar í Kassanum verður með gjörning sem mun án efa vekja athygli.“

Listahátíðin verður sett á svið þrisvar í lok febrúar en meðfram verkinu þróuðu þau Helgi og Unnur jafnframt myndband við lagið Vængir og verður það frumsýnt í kringum mánaðarmótin.