Ljós­myndarinn Helgi Ómars­son opnar sig á Instagram og telur að sér hafi verið byrlað á þjóðhátíð í Eyjum. Hann hafi verið hætt kominn en komið til að­stoðar og kveðst hann þakk­látur við­bragðs­aðilum.

„Síðustu þrír sólar­hringar hafa verið frekar miklir til­finninga­rússí­bani,“ segir Helgi í ein­lægum Insta­gram færslum. Hann segir at­vikið hafa átt sér stað að­fara­nótt mánu­dags.

„Ég tók skot með fé­laga mínum, man eftir að hafa drukkið úr ein­hverju röri, ef ekki tveimur og mögu­lega eitt­hvað annað, al­gjör­lega oblivíus um til­hugsunina að það gæti veirð eitt­hvað í drykkjunum sem væri ekki eðli­legt að inn­taka,“ segir Helgi.

Hann segir allt hafa orðið skrítið í allt í einu. Hann hafi brugðið sér af­síðis og liðið illa. „Áður en ég veit af er ég alveg kraft­laus útá túni í fá­rán­lega skrítnu á­standi,“ segir Helgi.

Hann tekur fram að hann sé með­vitaður um eigin drykkju, drekki sjaldan og drekki mikið vatn. Helgi segir lífs­reynsluna ó­líka öllu sem hann hefur upp­lifað. „Líkam­legt kraft­leysi og alls­konar rugl voru búin að taka yfir og ég er búinn að vera eitt stórt spurninga­merki.“

Skilar skömminni

Helgi segist vilja deila sinni sögu fyrst og fremst til að skila skömminni, sem hann segir hafa verið eins og eitur í sér.

„Hvað aðilanum gekk til eða hver á­setningurinn var hef ég ekki hug­mynd um, en ég óska engum að lenda í þessu og vona að svona til­fellum fækki til muna í fram­haldinu,“ segir Helgi.

Hann kveðst þakk­látur gæslunni á Þjóð­há­tíð. „Þau voru komin til mín ó­trú­lega fljótt og vissu upp á hár hvernig þau áttu að nálgast þetta, meira og minna báru mig og um­önnuðu mig með brjálaðs­lega mikilli mildi, skilning og kær­leik,“ segir Helgi.

„Ekki byrla, farið var­lega og ef þið hafið grun um að ein­hverjum hafi verið byrlað, alls ekki labba fram­hjá og láta eins og ekkert sé og fylgið inn­sæinu,“ segir Helgi sem þakkar að lokum Þjóð­há­tíð fyrir sig. „Þetta var besta há­tíð sem ég hef farið á og skemmti mér konung­lega og sjáumst eftir ár.“