Umfjöllun er heiti á nýju smásagnasafni eftir Þórarin Eldjárn en það geymir átta sögur.

„Það eru 40 ár síðan ég gaf út fyrsta smásagnasafnið mitt, Ofsögum sagt, og Ari sonur minn varð fertugur um daginn, 1981 er því merkisár í fjölskyldunni,“ segir Þórarinn. „Þetta er áttunda smásagnasafnið mitt þannig að ég virðist senda frá mér smásagnasafn á um það bil fimm ára fresti.“

Þórarinn hefur lagst í enn meiri tölfræði. „Ég taldi smásögurnar sem hafa birst í þessum bókum, þær eru 92, langar og stuttar. Ég þarf endilega að koma þeim í þriggja stafa tölu áður en yfir lýkur. Ef maður deilir þessum 92 sögum niður á 40 ár þá eru þetta rétt rúmlega tvær smásögur á ári. Það eru engin afköst og úr því verður að bæta.“

Eðli skáldskaparins

Sögurnar gerast á ýmsum tímum og umfjöllunarefnið er fjölbreytt. Ein sagan fjallar um skáldið og náttúrufræðinginn Eggert Ólafsson sem drukknaði í Breiðafirði árið 1768 ásamt konu sinni. „Kveikjan var sú að fyrir mörgum árum hitti ég mann sem sagði mér frá atburði tengdum þeim hjónum, þar sem örn kemur við sögu. Hann hafði lesið eftir mig arnarsögu og taldi því rétt að gefa mér þessa sögu til brúks. Svo liðu öll þessi ár þar til ég áttaði mig loks á því hvernig ég gæti nýtt hana.“

Önnur saga, Máttur skáldskaparins, fjallar um Þórð malakoff og enn önnur um leikritahöfundinn August Strindberg. „Þá sögu spinn ég út frá vissum heimildum um að litlu hafi munað að Strindberg yrði sendur sem blaðamaður til Íslands á þjóðhátíðina 1874. Sænskur fræðimaður sagði í ritgerð að þar hefðu Svíar misst af góðri Íslandslýsingu. Ég sendi Strindberg í þessa ferð en það er spurning hversu góð þessi Íslandslýsing er því ég læt hann upplifa margt mjög einkennilegt.“

Lengsta sagan í bókinni heitir Úr sögu Bobbsambandsins. Sagan fjallar um skólabræður og virkar svo raunveruleg að blaðamaður spyr Þórarin hvort hún sé sannsöguleg.

„Nei, ekki nema á þann hátt að þar er alls konar góssi blandað og víxlað, sönnu og lognu. Þar er til dæmis spilað bobb, sem er eins konar barna- eða fátækrabilljard. Ýmiss konar smælki brúkað sem tengist hefðbundinni skólagöngu í Vesturbænum og MR, hellt saman hinu og þessu og upp af því sprettur eitthvað sem aldrei gerðist. Þannig er nú eðli skáldskaparins.“

Sonurinn gerði kápuna

Stundum er sagt að smásagan eigi undir högg að sækja, en það er ekki reynsla Þórarins. „Þetta er form sem ég hef alltaf haldið tryggð við með öðru, því mér finnst það henta mér vel. Smásaga kviknar oft út frá tiltölulega einföldum hugmyndum eða þá að maður getur skrúfað saman element úr ótal áttum sem yrði kannski erfitt að leiða til lykta í skáldsögu.“

Um heiti smásagnasafnsins, Umfjöllun, segir Þórarinn: „Ég tók eftir því þegar ég leit yfir sögurnar að þær fjalla allar um eitthvað. Menn gefa oft út bækur með látlausum og heiðarlegum titlum eins og Sögur eða Kvæði. Því ekki alveg eins Umfjöllun? Halldór sonur minn gerði kápuna og leggur út af þessu á sérstakan hátt. Þar er endurraðað reykvískri borg og norðlensk fjöll höfð í bakgrunni. Þar hefur sem sé verið umfjallað.“