Erfitt var að fá sjómenn til að læra að synda fyrr á árum en viðhorf gagnvart sundkennslu hefur sannarlega breyst á síðustu öld og eru nú laugar landsins stór hluti af menningarlífi Íslendinga.

„Þeir héldu að það myndi lengja kvölina við drukknun að læra að synda,“ segir Jón Karl Helgason kvikmyndagerðamaður í samtali við Nínu Richter en hann leikstýrði heimildarmyndinni Sundlaugasögur, sem var á sýningu á kvikmyndahátíðinni Skjaldborg.

Jón Karl byrjaði að vinna að myndinni árið 2014 en hann hefur heimsótt um hundrað sundlaugar um land allt til að forvitnast um menninguna í sundi.

Spjall við listamenn á Skjaldborg er stuttur viðtalsþáttur þar sem rætt er við skipuleggjendur og leikstjóra sem eiga myndir á hátíðinni. Skjaldborg 2022 fór fram í fimmtánda sinn á Patreksfirði fyrstu helgina í júní. Hér fyrir neðan má sjá klippu úr spjalli við Jón Karl.

Heimildarmyndahátíðin Skjaldborg hefur fyrir löngu unnið sér þegnrétt í menningarlífi landsmanna en þessi einstaka serímónía hefur safnað mörgu því helsta og besta sem hefur verið að gerast í þessari tegund kvikmyndagerðar á landinu. Hann er sýndur á Hringbraut annað kvöld klukkan 18:30.