„Þetta hafa verið langir dagar og það skein kannski í gegn þarna,“ segir Andri Steinn Hilmarsson, bæjarfulltrúi í Kópavogi, sem varð það á að birta tilkynningu á Facebook-vegg sínum sem átti eingöngu að fara til húsfélags hans, um að hann hygðist taka vatnið af.
„Vatnið fer ekki af í kvöld heldur annað kvöld klukkan 20.30. Það verður síðasta skipti sem ég þarf að taka það af,“ skrifaði Andri á Facebook.
„Ég var búinn að vera að hringla með þetta fram og aftur og var að taka vatnið af öllu húsinu og við höfum verið að vinna í þessu eftir vinnu og höfum reynt að upplýsa fólk um þetta, við höfum þurft að taka vatnið af tvisvar áður og þetta var í þriðja skiptið,“ segir Andri.
„Svo hendi ég þessu þarna inn og svo er það ekki fyrr en korteri seinna að nágranninn á hæðinni fyrir ofan mig kemur og dinglar og upplýsir mig um það að ég hafi hent þessu á rangan stað, þá sé ég að nokkrir voru búnir að hringja til að reyna að benda mér á þetta boomer múv,“ segir Andri og hlær.
Einhverjir spurðu hvort Andri hygðist taka vatnið af öllum bænum og var Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs, meðal þeirra sem slógu á létta strengi við færslu Andra.
„Þetta var óheppilegt svona á þessum kuldatíma að lenda í þessu, en þetta sýnir manni bara það að maður er ekkert ungur að eilífu.“