Við Dóra Steinunn Ármannsdóttir hittumst í Hörpu, rétt fyrir óperuæfingu hjá henni. Ég heyri strax að hún hefur söngkonurödd og söngkonuhlátur. Hún gjörþekkir líka óperuna um Hans og Grétu sem hún er að fara að taka þátt í.

„Ég söng hlutverk Hans í Sydney í Ástralíu og var áður búin að syngja það í Vínarborg þar sem ég var í námi í þrjú ár. En mér finnst nornin skemmtilegri. Það er gaman að prófa að vera vonda kerlingin,“ segir hún og hlær. „Röddin mín þykknaði aðeins eftir að ég eignaðist dóttur mína fyrir tveimur árum, nú er ég dramatískur mezzosópran. Það er góð rödd fyrir norn.“

Búningarnir flottastir hér

Fjórar sýningar eru fyrirhugaðar á Hans og Grétu, sú fyrsta á sunnudaginn klukkan 15. Verkið er krefjandi, að sögn Dóru Steinunnar. „Svolítið Wagner-skotið en þó enn melódískara á köflum, dúettinn þeirra Hans og Grétu er einstaklega fallegur. Flestir þekkja lagið Það búa litlir dvergar. Það er úr þessari óperu.“ Hún útilokar ekki að litlir krakkar geti orðið pínu smeykir við nornina „En ég held ég verði líka svolítið fyndin norn,“ segir hún og brosir breitt.

Sýningin er í Norðurljósasalnum þar sem sætin eru upphækkuð þannig að gestir horfa niður á sviðið. „Hans og Gréta er falleg fjölskyldusýning, segir Dóra Steinunn. „Ég hef sungið í henni á þýsku, ensku og nú íslensku. Uppsetningin er svipuð þeim sem ég hef tekið þátt í áður. Það hefur verið ævintýrabragur á þeim öllum en mér finnst búningarnir flottastir hér.“

Öðlaðist nýja sýn á lífið

Dóra Steinunn býr í Noregi, rétt fyrir utan Ósló í bæ sem heitir Ski. „Ég og maðurinn minn, Eiríkur Jóhann Gunnarsson, fluttum til Sydney í Ástralíu rétt eftir hrunið hér, þar bjuggum við í fjögur ár og það var ágætt en svo vildum við færa okkur aðeins nær ættingjunum og Noregur varð fyrir valinu. Þar höfum við búið í fimm ár. Ég er sjálfstætt starfandi söngkona og stunda líka nám í geislafræði, er á þriðja ári. Tók þvílíka U-beygju. Það er gaman að læra eitthvað nýtt en söngurinn er miklu skemmtilegri.“

Það er söngurinn sem hefur fylgt Dóru Steinunni frá barnsaldri því áður en hún hóf nám í Söngskólann í Reykjavík var hún eitt af Jónsbörnum Stefánssonar í Langholtskirkju. „Ég var í forskóla hjá Jóni og meðal stofnenda Graduale Nobili kórsins. Síðar fór ég til Vínarborgar í óperudeildina, svo hingað heim og þá kynntist ég manninum mínum. Hann er yndislegur og við eigum dótturina Victoríu Írisi saman.“

Hún kveðst hafa fengið endurnýjaðan kraft í sönginn eftir að hún eignaðist dótturina. „Ég var dálítið búin að missa trúna á sjálfa mig en svo fékk ég hana aftur. Ég var næstum dáin í fæðingunni, missti fjóra lítra af blóði og það tók einn og hálfan tíma að stoppa blæðinguna, á meðan var dóttir mín öll blá og full af vökva. Eiríkur var viðstaddur og þetta var erfitt fyrir hann. Við erum mjög þakklát fyrir lífið í dag og ég fór að syngja meira aftur af innlifun. Dóttirin gaf mér nýtt líf.“

Dóra Steinunn er Reykvíkingur og hefur notið þess að vera á „hótel mömmu“ undanfarið. „Ég brá mér líka til Vestmannaeyja því systir mín býr þar og bróðir minn sem býr í Glasgow er staddur hér núna, svo ég hef upplifað endurfundi. En ég er búin að vera án manns og dóttur í fimm vikur og sakna þeirra. Þau fljúga hingað heim á sunnudaginn, Eiríkur mætir á frumsýninguna og foreldrar hans sem hafa verið að hjálpa honum með dóttur okkar í fjarveru minni. Hún er hins vegar aðeins of ung til að halda út sýninguna og verður í pössun hjá vinkonu.“