Brynja hefur getið sér gott orð í tónlistinni síðustu misseri og lag hennar Easier naut vinsælda í íslensku útvarpi í fyrra. Á föstudag sendir hún frá sér nýtt lag í samstarfi við hollenska listamanninn Yaëll Campbell og samlanda sinn, pródúserinn Baldur Hjörleifsson.

Kynntust í Haag

„Við Brynja kynntumst þegar við vorum að spila úti á götu,“ segir Yaëll um aðdraganda samstarfsins sem kviknaði í Haag fyrir tveimur árum. Brynja tekur undir það og segir Yaëll hafa spilað lag sem hún hélt mikið upp á, Best part í flutningi H.E.R. og Daniel Ceasar.

„Ég sagði: Ó, ég elska þetta lag,“ segir Brynja. „Ég tók kontaktupplýsingarnar hans fyrir samstarf, sagði honum að ég þekkti pródúsera og stakk upp á því að við myndum gera gigg saman,“ segir hún.

Brynja hafði samband við Yaëll ári seinna þegar hana vantaði karlkyns söngrödd í lag sem hún var að vinna að og segist hafa sent honum löng raddskilaboð.

Bauð í ferð til Íslands

„Ég vissi að ef við ætluðum að gera þetta, þá þyrftum við að vinna þetta saman í stúdíóinu. Mér tókst ekki að fá frí í vinnunni þannig að ég keypti bara miða handa honum til Íslands,“ segir Brynja.

„Hálfu ári seinna var ég á Íslandi í upptökum,“ segir Yaëll sem leikur á fjölda hljóðfæra auk þess að syngja. Ferlið gekk þó ekki snurðulaust fyrir sig og Yaëll greindist smitaður af Covid skömmu eftir að hann kom til landsins í desember. Þannig liðu tvær vikur frá komu hans til landsins, þangað til tökur gátu hafist.

Loksins komst þríeykið í upptökuver, með pródúserinn Baldur sem þriðja mann. „Við ákváðum að nota þennan litla tíma sem við áttum eftir, gera lag og sjá hvað kæmi út úr því. Þetta gekk rosalega hratt,“ segir hún.

Á það til að ofhugsa hlutina

Aðspurð um boðskap lagsins segir Brynja það fjalla um jákvæðni og hugarfarið að vera ekki endalaust að hugsa um hlutina heldur slá bara til. „Sem kjarnar allt þetta samstarf. Þetta ferli hefur oft verið mikið fokk-it og gerum þetta bara. Sem er gott fyrir mig af því að ég á til að ofhugsa hlutina,“ segir Brynja kímin.

„Titill lagsins er Mildly Insane,“ segir Yaëll. „Það meikar engan sens. Að vera létt klikkaður er þversögn, hvað er það eiginlega?“ Hann segir að í hans huga fjalli lagið um manneskju sem geri mann létt klikkaðan. „Sem þú vilt sýna allt sem þú hefur upp á að bjóða, og þú vilt að manneskjan fíli þig til baka og taki eftir þér,“ segir hann.

Marga mánuði með eina trommu

Baldur segir ferlið hafa verið skemmtilegt. „Mér finnst gaman að svona samvinnuverkefnum, þegar það er jákvæð pressa og maður þarf að fylgja innsæinu. Í sólóverkefnum get ég verið í marga mánuði að fínstilla einhverja bassatrommu og það er enginn þarna til að stoppa mig. Það getur verið mjög óskilvirkt vinnuferli, ólíkt því þegar fleiri eru á staðnum til að kasta boltanum á milli,“ segir hann.

Straumlínulagað ferli

Aðspurður hvernig hafi gengið að landa sameiginlegri hugmynd, svarar Baldur: „Ég held að ferlið hafi verið nokkuð straumlínulagað. Við vorum frekar sammála og við fundum um leið sameiginlegan grunn. Gítarhljóðið minnti svolítið á eitthvað seventís, sálar-rokk, R&B-eitthvað. Það kom okkur á ákveðinn stað,“ segir hann.

Aðspurð um hið fullkomna leiksvið fyrir lagið er hópurinn nokkuð sammála. „Í bíl, myndi ég halda. Þetta er góð tónlist fyrir bíltúr,“ segir Brynja. „Ég er sammála,“ segir Yaëll. „Í bílferð seint um kvöld, nær sólsetrinu,“ segir hann. „Já, í ljósaskiptunum,“ bætir Baldur við.