Sjálf er ég á leiðinni í fæðingarorlof og hef fengið hana Natalie, sem hefur unnið hjá mér í nokkur ár, til þess að taka við sem skólastjóri á meðan ég verð í burtu. Við höfum getað nýtt þennan furðulega COVID-tíma í að endurskipuleggja komandi mánuði og allar þær nýjungar sem Make-Up Studio mun bjóða upp á í sumar og út restina af árinu. Einnig stefnum við á spennandi hluti fyrir stúdíó-ið árið 2021, en við segjum betur frá því seinna,“ segir Harpa,

Harpa á von á eineggja tvíburum um mitt sumarið, sem verður því vafalaust frábrugðið öðrum sumrum.

„Ég ætla að njóta tímans með manninum mínum og fimm ára dóttur minni í rólegheitunum, áður en við verðum fimm manna fjölskylda með öllu tilheyrandi. Sökum stærðar er ég nýbúin að kaupa mér Lazyboy-stól svo ég geri ráð fyrir að ég muni eyða töluverðum tíma í honum á lokaspretti meðgöngunnar,“ segir Harpa.

„Við Natalie náum ótrúlega vel saman og hefur samstarfið gengið óskaplega vel. Natalie hefur reynst mér vel í einu og öllu og borið mikla ábyrgð á öllu sem við kemur stúdíóinu frá upphafi. Hún er frábær förðunarfræðingur og dásamlegur kennari. Það kom aldrei neinn annar til greina þegar að ég áttaði mig á því að ég þyrfti að finna mér tímabundinn staðgengil,“ segir hún, en þær hafa unnið saman síðan 2016.

Natalie Hamzehpour gengur í starf skólastjóra á meðan Harpa er frá. Mynd/Aldís Pálsdóttir.

Natalie segist hafa verið að farða frá því hún man eftir sér.

„En ég byrjaði að starfa sem förðunarfræðingur fyrir um sex árum. Ég byrjaði minn feril í Borgarleikhúsinu og fór svo fljótlega að læra í Mood Makeup School þar sem Harpa kenndi mér, dæmdi prófið og gaf mér hæstu einkunn. Stuttu eftir það fór ég að vinna í MAC og hef einnig unnið sjálfstætt við auglýsingar, sjónvarp, tónlistarmyndbönd og myndatökur. Ég nýt mín best í tísku og „editorial“ verkefnum og hef einbeitt mér mest að því. Ég byrjaði að kenna í Mood Makeup School þegar Harpa tók við sem skólastjóri þar og hef unnið hjá henni í Make-up Studio frá upphafi. Ég starfa einnig sem þjálfari og PR hjá Nathan og Olsen og fæ að vinna með merkjum eins og Clarins, Shiseido og Guerlain,“ segir Natalie.

Vegna heimsfaraldursins varð að fresta öllum námskeiðum og dagskrá, sem hafði tekið þær marga mánuði að setja saman.

„Við hættum tímabundið við öll okkar plön um leið og veiran barst til landsins. Þetta var frekar erfið ákvörðun, þar sem það var ekki búið að gefa út að við nauðsynlega þyrftum að loka, en okkur fannst gjörsamlega fráleitt og óábyrgt að halda úti starfsemi sem krefst mikillar nálægðar við næsta mann. Þetta fór misvel í alla þá sem voru búnir að skrá sig á þau námskeið sem við vorum búnar að auglýsa, en flestir sýndu þessu þó skilning á endanum. Auðvitað hefur þessi tími haft mjög slæm fjárhagsleg áhrif líkt og hjá flestöllum fyrirtækjum í landinu,“ segir Harpa.

Um miðjan júní hefst sérstakt þriggja vikna sumarnámskeið.

„Það er ætlað öllum sem langar að læra meira um förðun, en stefna ekki á að vinna sem förðunarfræðingar. En það hentar einnig förðunarfræðingum sem hafa lært fyrir einhverju síðan og langar að læra á trendin í dag. Nemendur læra að farða eigið andlit og notast við sínar eigin förðunarvörur sem þeim eru skaffaðar á námskeiðinu. Allir nemendur fá veglegan vörupakka með mörgum af okkar uppáhaldssnyrtivörum, ásamt burstasetti á fyrsta degi námskeiðsins. Þetta námskeið er tilvalið fyrir fólk sem langar að læra betur á sitt eigið andlit á stuttum tíma,“ segir Harpa.

Í lok ágúst hefjast svo átta vikna diplóma-námskeiðin.

„Þau eru mjög ítarleg og fræðandi förðunarnámskeið. Þau eru frábær grunnur fyrir þá sem hafa áhuga á að starfa innan förðunargeirans. Á námskeiðinu halda nokkrir af helstu og reynslumestu förðunarfræðingum landsins fyrirlestra og deila reynslusögum og kenna helstu trixin í sínum bókum. Það er ómetanlegt að geta boðið nemendum upp á fyrirlestra og sýnikennslu með slíku fagfólki, sem hefur allt upp í tuttugu ára starfsreynslu í faginu og öll skarað fram úr á sínu sviði. Á námskeiðinu fá nemendur fullbúið förðunarsett, burstasett og förðunartösku ásamt grunn hársetti,“ segir Harpa.

Glimmer glossaðar varir

Túbuglossið frá 2002 er komið aftur. Fallegar glansandi varir með fíngerðu glimmeri eru heitt trend í sumar. Gloss stækkar varirnar og veitir förðuninni skemmtilega áferð. Gloss má nota eitt og sér eða yfir varablýant sem mótar var

Bronslituð sumarhúð

Bronslituð sumarhúð er Trend sem við sjáum ár eftir ár er falleg, sólkysst húð. Hvort sem það er hefðbundið sólarpúður, kremað, eða fljótandi bronzer. Best er að bera á hæstu punkta andlitsins og bringu til að ná fram náttúrulegu útliti.

Litaður Eyeliner

Eyeliner er alltaf vinsæll á sumrin. Prófaðu að nota bjartan lit frekar en svartan, Blár blýantur í vatnslínuna, gulur eyeliner sem rammar inn augnkrók eða neongrænn, fljótandi eyeliner. Það má allt á sumrin

Ljós naglalökk

Geymdu dökku litina í baðskápnum í sumar og prófaðu falleg beiseða pastellituð naglalökk í sumar. Ljósir litir lengja fingur og koma þér í rétta skapið í sumar

Ljómi á líkamann

Á sumrin minnkar notkun á brúnkukremum og ljómakrem sem gefur húðinni fallega áferð verður mjög vinsælt. Það setur algjörlega punktinn yfir i-ið.