Eyja Garðarsdóttir nefnist níu ára gömul stúlka. Eyja er fallegt nafn, af hverju skyldi hún heita það? Systur mínar heita Katla og Hekla eins og eldfjöllin og ég heiti Eyja eftir Eyjafjallajökli, sem er líka eldfjall.

Hvaða skóla ert þú í? Ég er í 4. RG í Hlíðaskóla.

Æfir þú einhverjar íþróttir utan skólans? Ég æfi bæði fótbolta og körfubolta hjá Val, það er gaman.

Er eitthvað fleira sem þú fæst við? Ég er líka að læra á píanó og barítónhorn.

Hvað ertu helst að bralla heima við? Mér finnst gaman að leika við vinkonur, teikna og líka að spila eða horfa á eitthvað.

Hvaða leikur er í mestu uppáhaldi hjá þér? Uppáhaldsleikirnir mínir eru flugvélaleikurinn í fótboltanum og stinger í körfuboltanum.

Ertu byrjuð að spá í hvað þú ætlar að gera skemmtilegt í sumar? Mig langar aftur í húsbílaferð. Við gerðum það síðasta sumar og það var mjög gaman.

Hvaða kvikmynd hefur þér þótt best? Harry Potter, Star Wars og Descendants, get ekki valið á milli.

Hvaða bækur eru í uppáhaldi núna? Grísafjörður og Ofurhetjan.

Hver er besti maturinn, að þínum dómi? Pasta, pítsa og grjónagrautur.

Þekkir þú einhverja fugla? Ég þekki fullt af fuglum, starrar, skógarþrestir, svartþrestir og gráþrestir koma í garðinn minn. Svo hafa líka komið krummar, ein gæs og hænur.

Hvað er það fyndnasta sem þú hefur lent í? Einu sinni þegar ég var lítil ætlaði ég að segja við Frosta frænda minn, „gefðu mér teppið“, en sagði óvart „gefðu mér typpið“. Þá hlógu allir.

Áttu uppáhaldsstað á Íslandi annan en heimahagana? Sumarbústaður ömmu og afa, rétt hjá Stykkishólmi, er æði. Þar spilum við, förum í sund og göngutúra og bökum oftast.

Hvað langar þig mest að gera þegar þú verður stór? Verða betri í að spila á píanó og fræg í fótbolta eða körfubolta. Ég vil líka verða þjálfari.

Hvað varst þú á öskudag? Ég var sjóræningi!