Arnór Bogason, grafískur hönnuður Háskóla Íslands, var í sóttkví þegar hann rambaði á orðaleikinn Wordle á samfélagsmiðlum, þar sem leikmenn höfðu verið duglegir að deila niðurstöðum úr leik dagsins. Í kjölfarið kynnti hann sér málið. „Ég var á Twitter og sá að fólk var að pósta þessu. Það fylgir þó enginn linkur með, þannig að ég gúgglaði þetta bara.“

Fimm stafir og fábreytt viðmót

Þrautin snýst um að giska á fimm stafa orð í sex tilraunum. Í upphafi hefur leikmaður engar vísbendingar en getur slegið inn hvaða fimm stafa orð sem er, á ensku. „Þá færðu litakóðaða hvaða stafi þú hefur rétta. Ef það er réttur stafur verður hann grænn í reitnum. Réttur stafur á röngum stað verður gulur. Rangur stafur verður grár,“ útskýrir Arnór. „Þú sérð svo á lyklaborði, sem er hluti af leiknum, hvaða stafi þú ert búinn að nota.“

Wordle-viðmótið er mjög einfalt og berstrípað, en aðeins er hægt að spila Wordle einu sinni á dag. Arnór segist því ekki hafa áttað sig á leikreglum strax. „Ég tapaði í fyrsta leiknum, og hélt að þetta væri krossgáta sem maður þyrfti að leysa án þess að fá vísbendingu,“ segir hann. „Svo fattaði ég að þetta snerist bara um eitt orð. Þá varð ég frústreraður þegar ég fattaði að ég þyrfti að bíða fram á næsta dag.“ Hann segist hafa náð tökum á leiknum daginn eftir. „Þá fór maður að ná þessu.“

Arnór segir að leikurinn hafi á tímabili tekið yfir tímalínuna hans á Twitter. „Við félagarnir erum stundum að bíða til miðnættis og leysum þetta um leið og nýtt orð kemur inn,“ segir hann. „Ég er líka í vinahópi þar sem nokkrir eru að spila þetta. Áður en íslenska útgáfan, Orðla, kom út, þá var vinafólk mitt búið að gera sína eigin íslensku útgáfu og annar félagi minn líka.“

w

Sem fyrr segir er Orðla sú íslenska útgáfa sem náð hefur mestum vinsældum. „Þessi nýja íslenska útgáfa sem er í gangi virðist vera besta útgáfan af þessum íslensku,“ segir Arnór. „Hún kópíerar Wordle alveg, útlitið og allt saman,“ segir hann. Höfundur Orðlu vildi þó alls ekki láta nafns síns getið við vinnslu fréttarinnar og vildi ekki tjá sig við blaðið. Það er þó kannski ekki undarlegt í ljósi höfundarréttarmála.

Netmiðillinn The Verge gerði því skil á dögunum að fjöldi eftirlíkinga, í líkingu við hina íslensku Orðlu, hefðu sprottið upp í App-Store síðustu vikur. Flestar hafa þó verið teknar niður þar sem þær eru í trássi við höfundarrétt.

Wardle þróaði Wordle sem gjöf

Wordle er þó ekki smáforrit heldur vefsíða eftir Josh Wardle, hugbúnaðarverkfræðing frá Brooklyn í New York. Í nóvember voru 90 manns að nota Wordle, en í dag er talan komin upp í tvær milljónir og hækkar hratt.

Josh Wardle gerði leikinn ekki í gróðaskyni, heldur þróaði hann Wardle sem gjöf fyrir kærastann sinn. Leikurinn var meðvitað þróaður til að vera aðeins spilaður einu sinni á dag og án ónæðis í formi stöðugra kynninga frá appinu eða tölvupóstlista, sem tíðkast gjarnan í sambærilegum leikjum, sem flestir eru þróaðir í því skyni að fá notandann til að eyða sem mestum tíma í leikinn á degi hverjum.

The Guardian segir frá því að í upphafi hafi parið leikið leikinn saman á sófanum en síðan hafi fleiri bæst í hópinn. Josh Wardle sagðist við sama tækifæri ekki kæra sig um athyglina sem velgengninni fylgir. „Ég finn til ábyrgðar gagnvart leikmönnum. Mér finnst ég skulda þeim að halda þessu gangandi og tryggja að allt virki sem skyldi.“

Hann segist þó gleðjast yfir því að leikurinn veiti fólki ánægju á erfiðum tímum. „Ég fæ tölvupósta frá fólki sem segist til dæmis ekki geta hitt foreldra sína vegna Covid, en þau spili þó og deili Wordle-niðurstöðum með þeim daglega.“