Fæðingu frumburðar Harrys Bretaprins og eiginkonu hans Meghan Markle var beðið með mikilli óþreyju víða um heim. Í veðbönkum endurspeglaðist sú trú að barnið yrði skírt konunglegu nafni. Svo varð ekki. Ríkjandi skoðun var að barnið yrði stúlka sem fengi nafn tengt Díönu prinsessu móður Harrys. Drengur varð það þó og ber ekki konunglegt nafn. Enginn reið því feitum hesti frá veðbönkunum að þessu sinni. Drengurinn heitir Archie, fullu nafni Archie Harrison (sonur Harris) Mountbatten Windsor. Archie-nafnið er enn ein vísbending um að Harry og Meghan ætli sér að fara eigin leiðir í lífinu og ekki beygja sig undir stífar konunglegar reglur. Sögusagnir eru á kreiki um að þau hyggist tímabundið setjast að í Afríku.

Meghan og Harry eru óhrædd við að sýna hvort öðru blíðu fyrir framan ljósmyndavélar. Önnur pör í konungsfjölskyldunni gera ekki mikið af slíku, það þykir ekki nægilega konunglegt.
PA/Dominic Lipinski

Samkvæmt skoðanakönnun sem birt var í Bretlandi í lok síðasta árs er Harry vinsælasti meðlimur konungfjölskyldunnar, vinsælli en sjálf drottningin Elísabet II sem nýtur þó gríðarlegrar virðingar þjóðar sinnar. Elísabet lenti í öðru sæti og Vilhjálmur, bróðir Harrys, í því þriðja og eiginkona hans Kate Middleton í því fjórða. Meghan lenti í sjötta sæti. Ríkisarfinn Karl Bretaprins er ekki sérlega vinsæll en tæpur helmingur þátttakenda sagðist hafa dálæti á honum, eiginkona hans Camilla nýtur enn minni hylli en 29 prósent sögðust vera jákvæð í hennar garð.

Breskir álitsgjafar segja þessa mynd eiga eftir að verða sögufræga. Hún er til marks um nýja tíma, en þar er blökkukona, Doria móðir Meghan, mynduð með drottingunni og Filippusi eiginmanni hennar sem hluti af konungsfjölskyldunni.
Getty

Harry og Meghan, sem bera titilinn hertoginn og hertogaynjan af Sussex, hafa sagt að þau vilji að barn sitt fái að lifa eins eðlilegu lífi og mögulegt sé. Það getur reynst erfitt því fylgst er með hverju fótmáli foreldranna og þau eru hundelt af ljósmyndurum. Það er hægara sagt en gert að lifa venjulegu lífi í slíku umhverfi, en það má samt alltaf reyna.

Örfáum dögum eftir fæðingu sonar síns fór Harry Bretaprins á opnun Invictus leikanna sem hann stofnaði árið 2014. Harry ljómaði af gleði og glaðværð þegar Margrét Hollandsprinsessa færði honum bol á hinn nýfædda son.
Getty