Gunnar Þorri Pétursson leiðir fimm vikna námskeið um Karamazov-bræðurna, hina miklu skáldsögu Fjodors Dostojevskís. Námskeiðið hefst 28. apríl og er fyrsti viðburðurinn á dagskrá nýstofnaðs menningarfélags, Ástvinir Rússlands, en aðstandendur þess eru Ragnheiður Pálsdóttir og Kristín Eiríksdóttir auk Gunnars Þorra.

Í ár eru einmitt 200 ár frá fæðingu Dostojevskís og því tilvalið fyrir alla menningarunnendur að lesa hina stórkostlegu skáldsögu hans um Karamazov-bræðurna, en rómuð þýðing Ingibjargar Haraldsdóttur hefur nú verið endurútgefin í kilju.

„Okkur stofnendum Ástvina Rússlands fannst tilvalið að halda námskeið um þetta ótrúlega meistaraverk sem er hægt er að skoða frá svo mörgum hliðum og er eins og heimur sem hægt er að búa í. Þannig að fimm vikur er bara stutt stopp,“ segir Gunnar Þorri, en hann lærði rússneskar bókmenntir í Moskvu og Pétursborg.

Helgisaga og svört messa

Spurður hvað geri Karamazov-bræðurna að meistaraverki segir Gunnar Þorri: „Hún er helgisaga og svört messa í senn, glæpasaga og einn af hápunktum heimsbókmenntanna. Þegar ég las verkið fyrst sogaðist ég gjörsamlega inn í það og rankaði ekki við mér fyrr en að lestri loknum. Það var eiginlega tregafullt að klára bókina vegna þess að þar var ég í svo stórfenglegum heimi.“

Skáldsagan er mikið persónugallerí og Gunnar Þorri er spurður hvort hann eigi sér þar eftirlætispersónu. „Það er svo merkilegt að þegar maður les hana á ólíkum skeiðum þá tengir maður á ólíkan hátt við hana. Þarna eru þrír bræður sem eru fulltrúar þriggja grunnþátta í mannlegu eðli. Það er Dmítrí sem er hið líkamlega, ástin og tilfinningarnar. Svo er það Ívan sem er hugurinn og intellektið. – Sjálfsagt tókst Dostojevskí aldrei að skapa jafn gáfaða persónu og Ívan. Og loks er það Aljosha sem er í leit að guði og verður eins og miðjan í sögunni – einhverra hluta vegna tengist ég honum sterkustu böndunum.“

Af hverju tengir hann svo sterkt við Aljosha: „Samræður leika stórt hlutverk í Karamazov-bræðrunum og sögupersónur verksins opna sig allar gagnvart Aljosha. Ég dáist að því hvernig hann talar við innri mann sérhverrar persónu.“

Algjör lestrarnautn

Karamazov-bræðurnir eiga sér fjölda aðdáenda og því er oft haldið fram að hún sé besta skáldsaga sem skrifuð hafi verið. Spurður álits á þeirri skoðun segir Gunnar Þorri: „Þetta er allavega eftirlætisskáldsaga mín. Með þessum stóru skáldverkum á borð við Feður og syni, Önnu Karenínu og Karamazov-bræðurna nær gullöld rússnesku skáldsögunnar hæstu hæðum. Og það má alveg færa rök fyrir því að með Karamazov-bræðrunum sé sjálfum hápunktinum náð.

Um leið og maður talar svona finnst mér mikilvægt að undirstrika hvílík lestrarnautn er hér á ferð. Það er ekkert hátimbrað við Karamazov-bræðurna, maður þarf ekki að setja sig í neinar stellingar til að lesa þessa bók – hún er svo spennandi, fyndin og áleitin í senn. Dostojevskí skapaði iðulega persónur sem urðu svo lifandi að þær tóku völdin af honum. Þetta er heillandi og gerir bókina síkvika og lifandi.“

Gunnar Þorri segist ekki geta beðið eftir námskeiðinu. „Ég hef haldið nokkur námskeið um skáldsögur Dostojevskís. Ég hef samt alltaf verið að bíða eftir tækifærinu til að kenna þessa. Það sem lengi vel stóð í vegi fyrir því var að bókin var ekki lengur til á íslenskum bókamarkaði en nú hefur Forlagið gert bót á því og þá er okkur ekkert að vanbúnaði.“

Sem fyrr segir hefst námskeiðið þann 28. apríl og hægt er að skrá sig á tix.is.

Karamazov-bræðurnir eftir Fjodor Dostojevskí er mikið meistaraverk.
Dostojevskí í París árið 1863.