Freyr Eyjólfsson

dagskrárgerðarmaður RÚV

Allt að verða sturlað

GOT er stór, epísk saga á borð við Njálu og verk Shakespeare. Draumar, spádómar, fyrirboðar, valdabarátta og miskunnarlaus átök. Þótt sagan sé full af útúrdúrum, aukapersónum, hliðarsögum – þá er hún þaulhugsuð, allt frá upphafi. Nú er búið að „klippa í burt“ alla útúrdúra, það er búið að einfalda söguna, lokabaráttan er fram undan. Við Næturkonunginn og uppvakningaher hans. Það á eftir að taka sinn toll hjá Jon Snow og Daenerys

Targaryen. Síðan tekur við slagur milli drottninganna tveggja. Ég vona að GOT haldi áfram að koma mér á óvart. Ég býst ekki við neinum farsælum endi, býst við að drekarnir deyi, sem og Jon Snow.

„Ég er að hanna meiri háttar heimabíó.“

Ég hef lesið bækurnar sem mér finnst fantavel skrifaðar. Þótt höfundurinn fari oft á flug og fari í margar áttar, þá er sagan alltaf á leiðinni eitthvert. Þarna eru stórkostlegar persónur. GOT-sagan hefur hingað til verið algjörlega ófyrirsjáanleg, persónurnar eru ekki svart/hvítar, þær breytast, taka jafnvel hamskiptum, eru flestar svona á gráa skalanum, góðar/vondar.

Ég held mest upp á dverginn Tyrion. Mig grunar að höfundurinn George R.R. Martin sé að troða sér inn í verkið í gegnum þessa persónu. Breyskur, fyndinn, klókur, bæklaður og algjörlega óvæntur. Mér finnst líka geldingurinn og ráðgjafinn Varys mjög spennandi persóna sem og hin dularfulla galdrakona Melisandre.

Hér í Brooklyn er allt að verða sturlað fyrir sunnudaginn. GOT-veislur, spurningakvöld, GOT-partí. Ég er nú ekki mikill sjónvarpssjúklingur, horfi frekar lítið á sjónvarp, en ég er að hanna meiri háttar heimabíó fyrir þennan heimssögulega sjónvarpsviðburð.“

Freyr Eyjólfsson.

Freyja Steingrímsdóttir

aðstoðarmaður formanns Samfylkingarinnar

Áhugaverðar og fjölbreyttar kvenhetjur

Ætli þetta sé ekki einn besti tilbúni heimur sem maður hefur t.d. séð í sjónvarpsþætti eða bíómynd. Söguþráðurinn heldur manni á tánum, maður veit aldrei við hverju maður á að búast, og sögupersónurnar hafa dýpt og þróast með þáttunum, að minnsta kosti þær sem fá að lifa. Það eru líka töluvert fleiri áhugaverðir kvenkyns karakterar í þáttunum en flestum öðrum; þær eru vondar, góðar, sterkar, veikar, ljótar, fallegar, skemmtilegar og leiðinlegar, ungar og gamlar.

„Ég á í eins konar „love-hate“ sambandi við Sönsu.“

Þetta verður rússíbani. Ég býst við mikilli spennu og stórkostlegu sjónarspili. Þetta eru auðvitað fáir þættir svo það verður örugglega smá sorgarferli þegar þetta klárast eftir nokkrar vikur.

Ég á í eins konar „love-hate“ sambandi við Sönsu. Mér finnst hún frekar leiðinleg týpa en held samt með henni. Reyndar á það við um fleiri karaktera. Þeir eru yfirleitt flóknir þannig að skilin milli „góða“ fólksins og „vonda“ fólksins eru óskýrari en í flestum öðrum sögum og þáttum. Af þeim sem eru á lífi er ég hrifnust af Tyrion, Danaerys og Aryu. Ygritte og Hodor voru í uppáhaldi þar til manni var gerður sá óleikur að þau voru drepin.“

Freyja Steingrímsdóttir.

Samúel Karl Ólason

blaðamaður á Vísi

Tekur glósur meðan hann horfir

Í stuttu máli sagt, þá vænti ég þess að þetta verði besta sjónvarp sögunnar og að hausinn á mér springi. Í lengra máli þá vænti ég þess að öskra úr spennu, öskra vegna reiði, verða sorgmæddur og tárast jafnvel.

Það allra besta við þessa þætti að mínu mati eru einstaklega vel skrifaðar og trúverðugar persónur. Yfir árin hafa áhorfendur fengið sífellt meiri innsýn í af hverju þær haga sér eins og þær gera og af hverju þær taka þær ákvarðanir sem þær taka.

„Í lengra máli þá vænti ég þess að öskra úr spennu, öskra vegna reiði, verða sorgmæddur og tárast jafnvel.“

Til dæmis eru fáir „vondir karlar“ sem eru vondir til þess að eins að vera vondir eins og lenskan er oft í kvikmyndum og öðrum þáttum. Það hafa allir einhver markmið og baksögu sem útskýrir þau markmið. Nema kannski

Ramsay Bolton og Joffrey Baratheon. Þeir voru bara hreinræktaðir drullusokkar en sem betur fer eru þeir dauðir.“

Ætlar þú að gera þér glaðan dag þegar fyrsti þátturinn verður sýndur?

Þar er ég í bölvuðu basli. Ég á að mæta í vinnu klukkan sex á mánudaginn og

kemst ekki upp með að bíða með að horfa á þáttinn. Því ætla ég að fara að sofa upp úr kvöldmat, vakna klukkan fjögur og horfa áður en ég fer í vinnuna. Auk þess á ég erfitt með að gera mér glaðan dag þegar ég horfi á Game of Thrones því ég tek glósur.

Samúel Karl Ólason.