Alfreð starfar sem leikmynda- og ljóshönnuður hjá Luxor.

Óhætt er að fullyrða að ferill hans hafi byrjað með stæl. „Ég byrjaði í því í Heilsubælinu í Gervahverfi árið 1987 og var fyrsti ljóshönnuður Stöðvar 2 í eldgamla daga en er samt menntaður í sálfræði og heimspeki. Ég er með M.Phil-próf í heimspeki frá King’s College í London og lærði líka sálfræði og heimspeki í Bandaríkjunum í Ohio. Ég er með nokkrar háskólagráður en ekki fimm,“ segir Alfreð og hlær.

Heilsubælið eftirminnilegast

Alfreð hefur fengist við bæði ljós- og leikmyndahönnun í tæp tuttugu ár. „Ég var á Stöð 2 frá 1987 til 1989 þegar ég fór út til Englands í nám. Þegar ég kom heim fór ég að vinna í þessum ljósabransa, var að vinna í kvikmyndum, sjónvarpi og leikhúsi. Árið 2000 var ég svo beðinn um að koma aftur upp á Stöð 2 þegar Viltu vinna milljón? byrjaði. Það var svona fyrsti stóri þátturinn minn á Stöð 2 og fyrsta leikmyndin sem ég gerði fyrir sjónvarp. Síðan þegar Idolið byrjaði 2003 þá byrjaði ég að hanna leikmyndir líka og er búinn að vera að hanna leikmyndir og lýsingu samhliða síðan þá. Það er nú yfirleitt ekki þannig, að þetta sé hannað af sama aðilanum, en ég hef núna gert það í næstum tuttugu ár.“

Alfreð byrjaði að hanna leikmyndir samhliða ljóshönnun þegar hann starfaði við gerð Idol-þáttana sem hófu göngu sína árið 2003.

Alfreð kynntist ljóshönnun þegar hann var í námi. „Þegar ég var í skólanum í Bandaríkjunum lærði ég ljóshönnuðinn meðfram náminu og var tæknistjóri dansdeildarinnar í þessi þrjú ár sem ég var þar. Ég byrjaði að vísu sem leikmyndasmiður í leikhúsdeild skólans til að vinna með námi. Þá kynntist ég lýsingunni og hafði meiri áhuga á því en smíðinni og tók nokkra kúrsa í lýsingu.“

Alfreð segir eftirminnilegasta verkefnið hafa verið Heilsubælið sem tekið var upp um sumarið 1987. „Þetta var tekið upp á þremur vikum. Við vorum að skjóta á daginn, svo var verið að skipta um leikmyndir og ég að lýsa á kvöldin og nóttunni, á meðan voru Laddi og Gísli Rúnar að semja fyrir næsta dag. Svo var farið strax í tökur og svona gekk þetta í þrjár vikur. Þetta voru stórar og miklar leikmyndir, mikið af ljósum og mikill hiti. Loftræstingin bilaði og það kom hitabylgja í Reykjavík. Það var alveg ofboðslega heitt þarna inni og það leið yfir Eddu Björgvins svona 2-3 á dag. Þetta var rosaleg törn en mjög lærdómsríkt.“

Sagðist vera kommúnisti í partíum

Alfreð segir námsárin vestanhafs hafa verið stórskemmtileg. „Ég var í eitt ár í háskólanum hérna heima í sálfræði og fór svo út ‘82 og bjó þá í litlum smábæ í Ohio. Ég gekk inn í prógramm sem hét Institute for International Education og fann styrki fyrir erlenda stúdenta í Bandaríkjunum þannig að ég þurfti ekki að borga skólagjöld. Ég var þar í þrjú ár og tók BA í heimspeki og sálfræði. Ég var rosa aktívur, var í hljómsveit, að vinna í leikhúsinu og var með útvarpsþætti. Þetta var svo lítill skóli að það var hægt að gera svo margt.“

Útvarpsmennskan var viðburðarík. „Ég spilaði dálítið skringilega músík fyrir krakkana, Þursaflokkinn og Björk og svona. Það var mikið hringt inn og spurt hvað í fjandanum væri eiginlega í gangi,“ segir Alfreð hlæjandi. „Ég spilaði líka Laurie Anderson, Jean-Michel Jarre, OMD, og Kraftwerk og aðra tónlist sem amerísku krakkarnir vissu lítið um.“

Hann rifjar upp eftirminnilegt augnablik. „Ég man þegar Reagan var endurkjörinn 1984, sem var náttúrulega á þriðjudegi og ég var alltaf með þátt á þriðjudögum, þá spilaði ég jarðarfaramúsík allt kvöldið af því að ég var svo mikill kommúnisti. Þetta var einkaskóli þannig að það var mikið af ríkum krökkum þarna og þau komu öll niður að útvarpshúsinu og heimtuðu að fá almennilega tónlist af því að þetta var eina útvarpsstöðin í skólanum. Ég komst ekki heim til mín fyrr en sex eða sjö um morguninn vegna þess að allir fraternity-strákarnir voru brjálaðir. Þarna var auðvitað nýfrjálshyggjan að taka völdin.“

Var hann uppreisnarseggur?

„Já, ég var það og sagðist vera kommúnisti í partíum og var þá vísað út því að fólk hélt að þetta væri smitandi,“ svara Alfreð glettinn.

Skemmtilegastar þóttu honum danssýningarnar. „Þetta var frekar ríkur skóli svo þeir gátu fengið til sín erlenda danshópa sem voru að túra um Ameríku. Ég var tæknistjóri dansdeildarinnar og var að aðstoða þessa erlendu hópa og fannst það skemmtilegast, nútímadans er mitt uppáhaldslistform.“

Af settinu á X-Factor sem er eitt af mörgum verkefnum Alfreðs.

Íslenska leiðin óbreytt

Alfreð er um þessar mundir í ýmsum skemmtilegum verkefnum. „Við hjá Luxor vorum að gera samning við Sýn um að sjá um leikmynd og lýsingu fyrir þá. Við höfum líka verið að vinna fyrir Símann, ég gerði lýsingu þar fyrir enska boltann og er núna að lýsa Helga Björns í Hlégarði fyrir Símann. Svo gerði ég líka leikmyndina og lýsinguna fyrir Kappsmál sem er á RÚV.“

Hann segir starfið vissulega ástríðu. „Já, þetta verður ástríða. Og af því að þetta er alltaf verkefni og verkefni og maður er oft að vinna á kvöldin og um helgar þá verður þetta að eins konar veiðieðli, maður er alltaf að veiða næsta verkefni og verður smá háður því að vita aldrei hvað maður er að gera á morgun. Þú þarft kannski að hanna nýja leikmynd á þremur dögum og hraðinn er mikill. Það væri örugglega erfitt fyrir mann að fara í svona níu til fimm vinnu þar sem maður er alltaf að gera það sama.“

Starfið sé fyrst og fremst fólgið í samvinnu. „Hönnun leikmyndar og ljóss og sjónvarpsvinna er mikið samvinnuverkefni. Maður er að vinna með öðrum eins og útsendingarstjóranum og yfirtökumanninum og svo þegar búið er að setja upp þá þarf oft að breyta ýmsu vegna þess að myndavélavinklarnir eru svona og svona. Þetta er annað en í leikhúsi þar sem það er alltaf sami vinkill, bara áhorfendasalurinn.“

Hann segir stærstu áskorunina hér á landi felast í skorti á fjármagni. „Peningarnir eru af skornum skammti og maður þarf að nýta það sem maður getur og láta það virka. Reyna að koma með ódýrar lausnir sem líta vel út í mynd.“

Ýmislegt hafi breyst í bransanum en annað ekki. „Nú eru komin hreyfiljós og led-skjáir og tækninni hefur fleygt alveg gífurlega fram. Svo er eitt sem hefur ekkert breyst, það er tíminn sem maður hefur til að gera hlutina, hann er ennþá jafn lítill. Íslenska leiðin hefur ekkert breyst.“