Nú á sunnudag, 5. júlí, verður sýningin Solastalgia opnuð í Listasafni Íslands og er hún fyrsta sýning í gagnauknum veruleika hér á landi. Hún er eftir frönsku leikstjórana Antoine Viviani og Pierre-Alain Giraud. Gabríela Friðriksdóttir myndlistarmaður er sviðsmyndahönnuður sýningarinnar.

Sýningin er í sal 1 og tekur 10 manns í einu. Hún varir í um hálftíma og hægt er að velja um þrjú mismunandi tungumál, íslensku, ensku og frönsku. Gestir ganga inn í innsetninguna með Hololens 2-höfuðbúnað og kanna jörðina við endalok mannkyns og sjá brak, rústir og vofur.

Eftir að öllu er lokið

„Við Pierre-Alain höfum unnið mikið saman, hann hefur gert með mér teiknimyndir og myndbönd. Fyrir rúmum tveimur árum byrjuðum við, ásamt Antoine, að vinna við þetta verkefni. Ég sá fljótt að ég þyrfti að afmarka mig einvörðungu við innsetningu verksins vegna anna í myndlistinni og einnig vegna þess hversu verkefnið vatt upp á sig. Við dvöldum fyrst í bústað í Borgarfirðinum og prófuðum alls konar hugmyndir og veltum því fyrir okkur hvernig yrði umhorfs eftir að öllu væri lokið hér á jörðinni. Sýningin var síðan fullunnin í Frakklandi. Við fluttum flest varðandi innsetninguna hingað. En sandurinn sem við notum hér er frá Steypustöðinni, tekinn úr Vatnsskarðsnámu. Við notum þau jarðefni sem eru í löndunum þar sem við sýnum,“ segir Gabríela.

Hún segir samvinnuna hafa verið afar skemmtilega. „Mér finnst áhugavert að vinna með stórar innsetningar með fjölbreyttum hópi fólks og þar sem mikið er notað af náttúrulegum efnum. Þessi sýning fjallar um umbreytingar og hverfulleikann og ferðalagið í gegnum hana er bæði heimspekilegt og ljóðrænt.“

Sálir á kreiki

Spurð hvernig hún hafi séð fyrir sér jörðina eftir endalokin segir hún: „Í byrjun vorum við að velta fyrir okkur að láta rústirnar í innsetningunni minna á fornminjar en hættum við það og færðum útlitið nær okkar tímum. Eyðing eins og sú sem við erum að lýsa gerist mjög hratt, sólin hættir að skína og skuggi fellur á allt. Ég sá fyrir mér að sálirnar soguðust inn í einhvers konar kubblaga gagnakuðung, samkvæmt hugmyndinni um að þó að líkamarnir hverfi séu sálirnar ennþá á kreiki.“

Sýningin var frumsýnd í Rennes í Frakklandi í fyrrahaust og auk Íslands er fyrirhugað að hún verði sýnd í Finnlandi, Suður-Kóreu og Bandaríkjunum, en af skiljanlegum ástæðum er þó ekki vitað nákvæmlega hvenær.