Birgir Andrésson: Eins langt og augað eygir

Kjarvalsstaðir

Árið 1994 ákvað nefnd um sýningar á íslenskri myndlist erlendis að senda verk Birgis Andréssonar á Tvíæringinn í Feneyjum árið eftir, mörgum til allnokkurrar undrunar. Ekki síst listamanninum sjálfum, ef marka má nýútkomna bók um hann.

Fram að því höfðu ýmsir helstu burðarásar myndlistarinnar í landinu, allt frá Jóhannesi Kjarval til Errós, sýnt þar fyrir Íslands hönd, svo og nokkur átrúnaðargoð (og kennarar) Birgis sjálfs, Magnús Pálsson, Sigurður Guðmundsson og Hreinn Friðfinnsson. Sjálfur hitti ég fyrir efasemdamenn sem veltu fyrir sér hvort listamaðurinn verðskuldaði þessa upphefð á þessum tímapunkti ævi sinnar, og að auki hvort meginviðfangsefni hans, íslenskt þjóðerni, ætti nokkurt erindi við alþjóðlegan myndlistarheim.

Satt best að segja voru viðbrögð í Feneyjum ekki uppörvandi. Í lítinn og nettan sýningarskála Íslands kom nánast enginn til að berja augum framlag Birgis, að minnsta kosti ekki meðan sá sem þetta skrifar var þar staddur, og þeir fáu sem létu sjá sig stöldruðu stutt við.

Enginn hinna fjölmörgu blaðamanna sem að jafnaði sækja þennan viðburð taldi sér heldur skylt að fjalla um þessi sérkennilegu íslensku listaverk af skynsamlegu viti.

Kannski hafði það sitt að segja hve sjónrænt aðdráttarafl sýningargripanna, til dæmis prjónuðu íslensku fánanna tólf í sauðalitunum, var af skornum skammti. Má vera að þarna hafi Birgir verið réttur maður á röngum tíma, því á tíunda áratugnum var farið að fjara ansi mikið undan hug­mynda­list á alþjóðavettvangi.

Höfundur bókarinnar um Birgi, kanadíski listfræðingurinn Robert Hobbs, viðrar einnig þá skoðun að Feneyjasýning hans árið 1995 hafi verið kynnt á röngum forsendum, sem eins konar hlutlæg „rannsókn“ á ýmsum birtingarmyndum íslensks þjóðernis.

Þvert á móti hafi ásetningur listamannsins alla tíð verið súbversífur, að grafa undan þessum birtingarmyndum með ýmsum hætti, afbyggja þær, eða að minnsta kosti hafa uppi verulegar efasemdir um gildi þeirra.

Sýningin stendur yfir í rúman mánuð til viðbótar
fréttablaðið/sigtryggur ari

Uppskeruhátíð að Kjarvalsstöðum

Í ljósi þessarar fremur ógæfulegu útrásar árið 1995 hefur verið ævintýralegt að fylgjast með því hvernig I8 galleríinu og afkomendum Birgis Andréssonar (sem lést 2007) hefur tekist að búa til alþjóðlega gjaldgengt og ábatasamt „brand“ úr listamanninum og viðfangsefni hans, „íslenskri þjóðrækni“, sannkallaðri útnárafræði sem ekki hefur verið milli tannanna á málsmetandi listspekúlöntum úti í heimi á síðustu áratugum.

Vísast hefur það auðveldað þessa seinni útrás, hve mikið af myndlist Birgis er að stofni grafísk hönnun sem hægt er að prenta í upplögum og dreifa stafrænt til kaupenda og safna víða um lönd.

Og nú fer fram vegleg uppskeruhátíð; yfirlitssýning í yfirstærð á Kjarvalsstöðum og 370 síðna bók um listamanninn á ensku, tungumáli heimsfrægðar.

Vonandi gefst tækifæri til að ræða þessa bók á öðrum vettvangi. Hér skal einungis áréttað að hún er frábærlega vel gerð. Texti Kanadamannsins Roberts Hobbs er læsilegur og upplýsandi, og raunar afrek miðað við það að hann er hér að fjalla um löngu látinn og sannast sagna sérlundaðan listamann af framandi menningar- og málsvæði.

Höfundur þarf að standa skil á innviðum íslensks myndlistarlífs á þeim tíma sem hér er undir, atburðum í íslenskri pólitík og undarlegum íslenskum þjóðsiðum, svo fátt eitt sé nefnt.

Tvennt er það sem setur afgerandi mark á þróun Birgis sem myndlistarmanns, uppvöxtur hans meðal blindra og námsferill meðal hugmyndalistamanna. Að dvelja árum saman innan um blinda, vera í raun tengiliður þeirra við veruleikann, hlýtur að þroska með mönnum bæði frásagnar- og túlkunarhæfileika, um leið og túlkunin leiðir óhjákvæmilega í ljós ýmislegt misræmi milli þess sem er sýnt og sagt, milli máls og myndar.

Til dæmis verður glöggur sjáandi/túlkandi þess áskynja að því nær sem hann stendur því viðfangi sem hann á að lýsa fyrir sjónlausum, þeim mun meir gliðnar viðfangið fyrir augliti hans.

Í nærmynd er öll náttúra abstrakt, eins og þeir vissu gjörla Kjarval og Kristján Davíðsson. Hið sama gildir um ýmiss konar gildishlaðin hugtök sem menn hafa hampað gagnrýnislaust; við ítrustu skoðun verða þau hjóm eitt.

Sjálfsímynd þjóðanna

Hugmyndalistin er leið Birgis til að gaumgæfa hugtök og hugmyndir. Einna mestur áhrifavaldur á ferli hans er sennilega hollenski myndlistarmaðurinn Douwe Jan Bakker, sem Birgir kynnist ungur. Bakker er einna fyrstur hollenskra nýlistarmanna til að vinna ljósmynda- og textaefni út frá íslensku landslagi, húsagerðarlist og tungu.

Þekkt bókverk Birgis um „eyktarmörk í íslensku landslagi“ er því mjög í anda Bakkers. Þeir félagarnir áttu drykkjuskapinn einnig sameiginlegan og létust úr ofdrykkju, nánast jafn gamlir.

En þar sem viðhorf Bakk­ers til íslensks landslags og menningar er mestmegnis ljóðrænt og spurult, einkennast athuganir Birgis á ýmislegu í viðtekinni þjóðmenningu okkar Íslendinga – og þjóðmenningu yfirleitt – á efasemdum, blönduðum ísmeygilegum húmor, eða jafnvel tvílræði.

Nú er mér ekki fullljóst hvaðan Birgi kemur þessi áhugi á íslenskri þjóðmenningu í víðasta samhengi. Kannski er hann alfarið sprottinn upp úr bók Jónasar Jónassonar frá Hrafnagili, Íslenskir þjóðhættir, sem hann eignaðist ungur og skildi aldrei við sig.

Snemma á níunda áratugnum var Birgir altént kominn á kaf í eins konar myndræna spurningaleiki, þar sem ýmislegt kunnuglegt var til umfjöllunar, ekki síst sjálfsímynd þjóðanna, eins og hún birtist í máli og myndum.

Þar er auðvitað stærsta spurningin: Hvers eðlis er sú ímynd? Er hún yfirleitt til? Og ef hún er ekki til, eru þjóðirnar sem stjórnast af henni ekki bara tilbúningur?

fréttablaðið/sigtryggur ari

Þungbær boðskapur?

Yfirlitssýningin á verkum Birgis að Kjarvalsstöðum er viðamikil og fjölbreytt. Mest fer þó fyrir verkum þar sem stakir litir eru notaðir ásamt textum. Nokkur þessara verka eru réttnefndar veggmyndir, stór verk, þar sem textarnir eru eins og opinberar yfirlýsingar (jafnvel þótt þeir séu persónulegir), aðrar eru í stofustærðum, gerðar til einstaklingsbrúks.

Í þessum verkum á sér stað stöðug núningur milli textanna og litanna, þar sem textarnir kalla á lestur en litirnir á skynjun/túlkun. Til viðbótar koma svo staðhæfingar listamannsins, þrykktar á hverja mynd, um „íslenskan“ uppruna litanna sem notaðir eru, þegar áhorfandinn veit ósköp vel að enginn getur „átt“ liti.

Þessar mótsagnakenndu pælingar um „þjóðerni lita“ taka á sig stórbrotna mynd í verkaröðinni um gjörvöll ríki Afríku, þar sem sérhvert ríki virðist eiga sér lit, og sá litur er alltaf „íslenskur“. Og engin leið, skynrænt, menningarlega eða heimspekilega, að tengja á milli nafnanna á löndunum og litanna sem Birgir velur þeim.

Boðskapur Birgis gæti verið: Flest það sem okkur er heilagt er tilbúningur. Og kannski helsta afrek hans sem hugmyndalistamanns að gera þann fremur þungbæra boðskap allt í senn fyndinn, litríkan og aðlaðandi.