Ríkjandi heimsmeistari kvenna í kúluvarpi, Chase Ealey frá Bandaríkjunum, er á meðal keppenda líkt og í fyrra en hún fagnaði sigri á heimsmeistaramótinu á síðasta ári þegar hún varpaði kúlunni 20,49 metra og varð um leið fyrsta konan frá Bandaríkjunum til að vinna til gullverðlauna í kúluvarpi á heimsmeistaramóti. Þá vann hún einnig sigur á Demantamótaröðinni.
Freyr Ólafsson, formaður Frjálsíþróttasambands Íslands, lofar frábærri skemmtun í Laugardalshöllinni á morgun og hann hvetur fólk til að fjölmenna í Höllina þar sem margt af besta og efnilegasta frjálsíþróttafólki landsins verður á meðal keppenda.
„Þetta verður heldur betur veisla og ég er gríðarlega spenntur fyrir þessu móti,“ segir Freyr, sem fagnar því að heimsmeistarinn Chase Ealey ætli að vera með.
Litríkur og sterkur karakter
„Við erum að tala um eitt stykki heimsmeistara og það er gríðarlega gaman að hún skyldi ákveða að mæta aftur. Hún kom hingað á mótið í fyrra og þá sá maður hversu litríkur og sterkur karakter hún er. Chase gerði miklu meira heldur en að keppa. Hún smitaði út frá sér og var svo ánægð með móttökurnar sem hún fékk þannig að hún vildi koma aftur núna sem er ofboðslega gott fyrir okkur. Mesta fjörið ætti að verða í kringum kúluvarpshringinn – að berja heimsmeistarann augum en það verður líka gaman að fylgjast með spretthlaupunum, stökkkeppnunum og ýmsu öðru,“ segir Freyr.
Spretthlaupararnir Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir úr ÍR og FH-ingurinn Kolbeinn Höður Gunnarsson verða í eldlínunni á leikunum en bæði slógu þau Íslandsmetin í 60 metra hlaupi í síðasta mánuði. Guðbjörg fær verðugan mótherja en Naomi Sedney frá Hollandi mætir henni en Sedney fór með sigur af hólmi á leikunum í fyrra. Guðbjörg er í hörku formi og er komin á fulla ferð eftir erfið meiðsli og sló Íslandsmetið á móti í Danmörku á dögunum þegar hún kom í mark á 7,35 sekúndum.
„Það er ljóst að Guðbjörg fær hörkukeppni og það er mjög ánægjulegt til þess að vita að hún er að ná fyrri styrk eftir erfið meiðsli og ánægjulegt að sjá hversu sterk hún kemur til baka,“ segir Freyr en Guðbjörg Jóna mun einnig hlaupa sitt fyrsta 200 metra hlaup á tímabilinu og mætir þar Sarah Atcho frá Sviss, sem á best 23,64 sekúndur í ár. Besti tími Guðbjargar í greininni er 23,98 sekúndur.
Kolbeinn Höður bætti fyrir skömmu 30 ára gamalt Íslandsmet í 60 metra hlaupi þegar hann hljóp vegalengdina á 6,68 sekúndum en meðal þeirra sem mæta honum í hlaupinu er Englendingurinn Richard Akinyebo, sem á best 6,73 sekúndur. Kolbeinn mætir einnig sterkum hlaupara í 200 metra hlaupinu en það er Lee Thompson frá Englandi. Kolbeinn á Íslandsmetið í greininni, 21,21 sek. En besti tími Thompson er 21,13 sekúndur.
Eru svo góðar fyrirmyndir
„Kolbeinn og Guðbjörg eru svo sterkir og flotti karakterar og þau eru bæði svo góðar fyrirmyndir, með allt sitt á tæru og uppskera eftir því,“ segir formaður Frjálsíþróttasambandsins.
Ólympíufarinn og Íslandsmethafinn í kringlukasti, Guðni Valur Guðnason úr ÍR, verður á meðal keppenda í kúluvarpi á leikunum eins og undanfarin ár. Guðni á best 18,90 metra innanhúss og hann etur meðal annars kappi við Englendinginn Lewis Byng sem lengst hefur kastað 18,50 metra.
Langstökk kvenna ætti líka að verða skemmtileg grein en Íslandsmethafinn í þrístökki, Irma Gunnarsdóttir úr FH, er skráð til leiks en hún á næstlengsta stökk íslenskrar konu, 6,36 metra. Þá ætlar Hafdís Sigurðardóttir að dusta rykið af langstökksskónum en hún á Íslandsmetið í greininni sem er 6,54 metrar.
Mótið hefst klukkan 13.30. Miðasala fer fram á corsa.is en einnig verður hægt að kaupa miða á staðnum.