Hugveitan New Direction í Brüssel hefur gefið út bókina Twenty-Four Conservative-Liberal Thinkers eftir stjórnmálafræðiprófessorinn Hannes Hólmstein Gissurarson en eins og titillinn gefur til kynna fjallar hann þar um á þriðja tug íhaldssamra frjálshyggjukarla og eina konu, Ayn Rand.

„Ég var nú beðinn um að skrifa þetta og svo varð þetta nú að heilli bók og meginsefið, eða boðskapurinn, í bókinni er að frjálslyndi og íhaldssemi þurfa ekkert að vera neinar andstæður. Og þær eru ekki andstæður ef íhaldssemin er fólgin í að reyna að halda í frelsið,“ segir Hannes.

Hugsuðir Hannesar

„Ég reyni mitt besta,“ heldur hann svo áfram eftir að hafa verið minntur á að lesenda vegna sé best að reyna að halda samtalinu á almennum nótum. „Síðan tek ég þessa 24 höfunda og rek kenningar þeirra því að ég myndi nú halda það að þeir væru allir sammála mér um þetta. Þótt hver og einn þeirra hafi eitthvað sérstakt fram að færa.“

Halldór Baldursson teiknaði hópmyndina sem prýðir bókakápuna.

Hugsuðirnir sem Hannes fjallar um í bókinni hafa kvatt þennan heim. „Þeir eru auðvitað allir látnir en það sem ég reyni að gera er að velta fyrir mér hvað er lifandi í kenningum þeirra.

Hvað er lifandi í kenningum Snorra Sturlusonar, heilags Tómasar af Aquinas, Johns Locke og fram til okkar daga, manna eins og Friedmans og Hayeks?

Eddukvæði frjálshyggjunnar

Ég held að það sé mjög margt og ég held að enn gildi það sem þessir menn brýndu fyrir okkur að við þurfum að takmarka ríkisvaldið og hafa viðskiptafrelsi á milli landa og virða einkaeignarréttinn því að reynslan sýnir okkur að menn fara betur með eigið fé en annarra,“ segir Hannes þegar hann svarar spurningu sinni.

Sjálfur Snorri Sturluson er fyrsti hugsuðurinn sem þú tekur fyrir í bókinni. Hvernig tekst þér að draga hann í þennan flokk?

„Ja, ef þú lest rit Snorra Sturlusonar; Heimskringlu, Eddu og Eglu. Þá sérðu að þar ber mjög mikið á tortryggni gagnvart konungsvaldi. Rauði þráðurinn í Heimskringlu er að góðir kóngar séu þeir sem haldi friðinn og virði lögin. Hin fornu góðu lög.

En vondir konungar eru þeir sem efna til ófriðar og leggja skatt á bændur,“ segir Hannes og bendir einnig á að Egils saga Skalla-Grímssonar er, auk þess að vera saga sjálfstæðs einstaklings, full af fjandskap í garð konunga.

„Þannig að ég held að Snorri Sturluson sómi sér mjög vel sem einn af frumkvöðlum frjálshyggjunnar þó að frjálshyggjan verði ekki til sem stjórnmálastefna fyrr en með byltingunni 1688 í Bretlandi sem John Locke rökstuddi.“

Íslensk áhrif

Hannes hafði sínar ástæður þegar hann fékk skopmyndateiknarann Halldór Baldursson til þess að gera kápumynd bókarinnar. „Mér finnst hann nú bara mjög góður teiknari og mér fannst að það væri dálítið gaman ef að við Íslendingar gætum lagt eitthvað til þessarar bókar.

Kaflinn um Snorra Sturluson er auðvitað eitt dæmið. Teikning Halldórs Baldurssonar er annað dæmið og þriðja dæmið er að ég vík á nokkrum stöðum að Íslandi og tek íslensk dæmi. Þá kannski til þess að reyna að bæta einhverju við. Einhverju sjónarhorni sem enginn annar hefur.

Ég held að margt af því sem ég er að segja í þessari bók hafi komið fram víða annars staðar en það er tvennt sem hvergi kemur fram annars staðar. Það er í fyrsta lagi þetta íslenska sjónarhorn og í öðru lagi persónuleg kynni mín af fimm af þessum mönnum sem ég skrifa um,“ segir Hannes og nefnir sérstaklega þá Friedman og Hayeck.

Heimildagildi minninganna

„Þeir sögðu mér margt sem var mjög merkilegt og greiptist í minni mér og síðan auðvitað var Friedman náttúrlega svo skemmtilegur og orðheppinn að mér fannst rétt að færa í letur margt af því sem hann sagði.“

Hannes rekur síðan tvær sögur af Friedman sem hann tilfærir í bókinni. Annars vegar orðskipti sem urðu þegar hann leiddi Friedman á fund íslensks seðlabankastjóra og þegar Friedman sagði kvöldverðargestum Verslunarráðs að sjálfur væru þeir mesta ógn kapítalismans. „Vegna þess að ógnin við kapítalismann er kapítalistarnir sjálfir sem vilja alltaf takmarka samkeppni.“

Þér leiðist nú ekkert þegar þú getur komið að persónulegum kynnum og þú „neindroppar“ svolítið í bókinni.

„Ég velti þessu mikið fyrir mér. Hvort ég ætti að segja frá persónulegum kynnum mínum af þessum mönnum mörgum,“ segir Hannes og leggur mikla áherslu á að þetta hafi kostað hann mikla yfirlegu.

„En ég komst að þeirri niðurstöðu að ég ætti að gera það því það getur verið að það bæti einhverju við vitneskju okkar og þekkingu um þá. Þannig að bókin verði eitthvað annað og meira heldur en bara endurtekning á því sem hefur komið fram í ótal öðrum bókum og sannleikurinn er sá að ég kynntist vel mörgum þessara manna.“

Upphefð að utan

Bókin er á ensku eins og reyndar fleiri miklu fleiri greinar og bækur Hannesar á undanförnum árum enda virðist eftirspurnin eftir Hannesi meiri úti í hinum stóra heimi.

„Það er mjög lítil eftirspurn á mér á Íslandi og ég er sko ekki spámaður í mínu föðurlandi. En það getur vel verið að ég sé spámaður þegar er komið út fyrir föðurlandið. Ég skal bara ekki um það segja. Ætli það komi ekki bara í ljós með þessari bók,“ segir Hannes.

Eru þessi skrif þín á ensku drjúgur tekjupóstur?

„Ja, ég kvarta ekki,“ svarar Hannes mátulega dularfullur og við tekur þögn sem sýnir svo ekki verður um villst að þetta verður ekki rætt frekar.

Bókinni hefur verið dreift í bókabúðir á Íslandi en bindi I og bindi II má einnig nálgast ókeypis á netinu á vef útgefandans.

Hvernig stendur á því? Það getur nú varla talist góður bissniss?

„Það er bara vegna þess að útgefandinn vill að þetta verði sem aðgengilegast fyrir sem flesta,“ segir Hannes hlæjandi.

Ekki fyrir sósíalista

„Og nútíminn er þannig að þú prentar hluti og þú setur þá líka á netið og ég tel að næsta skref væri að gera þetta að hljóðbók,“ segir Hannes og fer í markhópagreiningu.

„Útgefandinn ætlar til dæmis að senda þetta til allra Evrópuþingmanna held ég. Það er að segja í borgaralegu flokkunum. Ég sagði nú við hann að það væri nú sóun á fjármunum að senda þetta til sósíalistanna því þeir vilja ekkert lesa neinar bækur á móti sósíalísku.“

Heldurðu að Gunnar Smári myndi ekki komast í gegnum þetta?

„Ég veit ekki hver það er. Eini smárinn sem ég þekki er fjögurra laufa smárinn og hann er heillamerki,“ segir Hannes og vill ekkert kannast við formann framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokks Íslands þótt þeir hafi ítrekað eldað grátt silfur.

Grúskar á daginn, grillar á kvöldin

Hannes Hólmsteinn er dvelur venjulega í Brasilíu yfir vetrarmánuðina en COVID hefur haldið honum innan landhelgi síðasta árið. „Það er nú nákvæmlega eitt ár síðan ég fór frá Rio de Janero. En það er alveg rétt að ég hef haft vetursetu í Rio de Janero og svo hef ég verið á sumrin á Íslandi.

Þar fór ég nú bæði að dæmi farfuglanna og hvalanna. Hvalirnir fara alltaf suður í höf hérna á veturna og sama gera farfuglarnir og það er það sama um þá eins og mig að þeir koma alltaf aftur. Þeir koma alltaf aftur til Íslands, óskalandsins.“

Hannes segist að sjálfsögðu nota tímann í Brasilíu í alls konar fræðagrúsk og ritstörf. „Ég grúska á daginn og grilla á kvöldin,“ segir Hannes vongóður um að geta eytt næsta vetri í Rio.

„Ég mundi nú halda það að þessum heimsfaraldri fari að ljúka á næstu mánuðum. Við erum að ná utan um þetta í sambandi við bólusetningar og bóluefnin virka mjög vel.“