Valur Freyr segir nokkurn aðdraganda vera að verkinu, þau Ilmur, sem eru hjón, eigi stóran vina- og kunningjahóp. „Fyrir nokkrum árum kom hrina af skilnuðum innan þessa hóps, sumir höfðu jafnvel verið saman í áratugi. Þessir skilnaðir komu manni mjög á óvart og svo skildu foreldrar Ilmar eftir 48 ára hjónaband. Eitt kvöldið vorum við í matarboði þar sem voru þrjú pör með nýjum mökum og þau töluðu bara um fyrrverandi, um erfið samskipti og gríðarlega flókið fjölskyldumynstur. Þá fór ég að hugsa: Er yfirhöfuð hægt að skilja ef maður er með börn? Er hægt að losna við fyrrverandi úr taugakerfinu? Ef maður hefur verið illa svikinn er þá hægt að finna traustið aftur? Er hægt að elska aftur án þess að vera með neyðarútgang?

Ég fór að skoða alls konar fyrirlestra og tók viðtöl við um tuttugu manns sem hafa skilið og eru með nýjar fjölskyldur. Þetta fólk var á mismunandi aldri og á mismunandi stigum sambanda. Svo skall Covid á og ég sagði Brynhildi Guðjónsdóttur leikhússtjóra frá þessu verkefni og hún sagðist vilja taka það til sýningar.“

Grátbroslegt verk

Fyrrverandi er þriðja leikverk Vals Freys og fyrsta verkið í átta ár en hann hefur áður skrifað Tengdó og Dagbók djasssöngvarans. „Þetta er grátbroslegt verk eins og lífið er. Þar er undirliggjandi heimsendaupplifun fólks enda er það búið að missa það sem það átti, en þetta er líka fyndið verk,“ segir Ilmur.

Leikarar eru Þórunn Arna Kristjánsdóttir, Jörundur Ragnarsson, Vala Kristín Eiríksdóttir, Þorsteinn Bachmann, Katla Margrét Þorgeirsdóttir, Halldór Gylfason og Árni Þór Lárusson.

Verkið var í þróun á æfingaferlinu. „Að skrifa er ekki ólíkt því að leikstýra. Maður er að skapa og móta en svo kemur leikhópurinn með ýmislegt að borðinu og í sameiningu fundum við tungumál sýningarinnar,“ segir Valur Freyr. „Þetta hefur verið mikil þerapía hjá okkur, ekki hafa allir gengið í gegnum skilnað í þessum hópi en margir samt.“

Fólk af holdi og blóði

Valur Freyr og Ilmur reka fyrirtækið CommonNonsense ásamt Davíð Þór Jónssyni tónlistarmanni en hann skapar tónlist Fyrrverandi ásamt Sölku Valsdóttur sem einnig skapar hljóðheim. „Við höfum unnið sýningar saman frá árinu 2002,“ segir Ilmur. „Við höfum verið með spunavinnu sem hefur þróast í ýmsar áttir, en alltaf hefur vinnan verið leit að tungumáli þar sem hljóð, mynd og fólk talar saman. Í þessu verki hefur það hjálpað okkur mikið að fá til liðs Önnu Kolfinnu Kuran sem sér um sviðshreyfingar, en hún er með ballettbakgrunn auk þess að vera menntuð í performance-listum í New York. Hún aðstoðaði okkur mikið við að finna rétta tungumálið.“

Um samvinnu þeirra Vals Freys í sýningunni segir Ilmur: „Ég er myndlistarkona og Valur er leikari, leikskáld og leikstjóri. Hann minnir á innra lífið í verkinu og ég hef abstrakt hlutverk, minni á að við erum í leikhúsi þar sem má nota marga miðla. Við minnum svo hvort annað á að þarna er fólk af holdi og blóði með raunverulegar tilfinningar og líf en þar sem þetta er leikhús þarf að skrúfa aðeins upp í veruleikanum.“