Það er langt síðan þetta var samið og það er meira að segja langt síðan þetta var tekið upp,“ segir Georg Hólm, bassaleikari Sigur Rósar, um Hrafnagaldur Óðins sem hljómsveitin samdi með og að undirlagi ​Hilmars Arnar Hilmarssonar, tónskálds og allsherjargoða, fyrir átján árum.

Staða Hrafnagaldurs Óðins í Eddukvæðunum hefur verið nokkuð umdeild en Hilmar hefur alltaf staðið fastur á því að þar eigi það heima. Hann hreifst af kvæðinu fyrir margt löngu og átti hugmyndina að því að semja verk í kringum það.

„Og við förum bara í það saman og þetta var mjög gaman. Þetta var samið fyrir Listahátíð á sínum tíma og það má segja að þetta var svona fólk úr öllum áttum,“ heldur Georg áfram og bendir á að þarna hafi í raun hljómsveitin í fyrsta skipti starfað með öðrum af einhverri alvöru.

Kvæðamaðurinn Steindór Andersen og María Hulda Markan Sigfúsdóttir komu einnig að verkinu að ógleymdum Páli Guðmundssyni með sína steinhörpu sem Georg segir hafa vegið þungt í þessu öllu saman. „Þetta var mjög skemmtilegt vegna þess að formið var svo opið og allir gátu bara komið með einhverjar hugmyndir og gert það sem þeir vildu.“

Bútar hér og þar

Hrafnagaldurinn var saminn að beiðni​ Listahátíðar í Reykjavík árið 2002 og var aðeins flutt nokkrum sinnum það sama ár en eftir það hefur það aðeins lifað sem hluti af sagnaheimi Sigur Rósar í litlum myndbandsbútum sem aðdáendur hafa grafið upp á netinu.

„Það hefur verið hægt að horfa á svona búta af þessu hér og þar á YouTube og aðdáendur okkar hafa verið að biðja um þetta í mjög langan tíma,“ segir Georg og bætir við að honum finnist þessi tímasetning býsna góð.

„Þegar maður hugsar út í það er kannski bara svolítið viðeigandi að þetta komi loksins út núna vegna þess að þetta ljóð, Hrafnagaldur Óðins, fjallar í raun um endalok alheimsins. Þannig að ég held það passi bara ágætlega að þetta komi út árið 2020.“

Sigur Rós tók þátt í að semja og flytja Hrafnagaldur Óðins fyrir átján árum en það er fyrst núna sem verkið er gefið út í sinni 70 mínútna heild.

70 mínútur

Þessi 70 mínútna heildarútgáfa Hrafnagaldursins var tekin upp þegar verkið var flutt í La Grande Halle de la Villette í París 2002 þegar meðal annars kammerkórinn ​Schola cantorum og ​L’Orchestre des Laureats du Conservatoire national de Paris tóku þátt.

„Þetta er ekki stúdíóplata. Þetta er í raun og veru bara „live“ upptaka frá París 2002 og í raun og veru ekkert gert við þetta sem slíkt. Bara mixað vel,“ segir Georg um langþráða heildarútgáfuna sem kemur út í dag.

„Ástæðan fyrir því að þetta hefur ekki komið út áður er kannski að þetta var líka tekið upp á filmu og í raun var alltaf upprunalega hugmyndin að þetta myndi verða mynd ekki bara plata. Það var alltaf markmiðið.“

Viss léttir

Georg segir kvikmyndaáformin líklega hafa ráðið mestu um að verkið hafi ekki komið út strax. „Af því að við vorum kannski ekkert rosalega sáttir við útkomuna á myndinni. Okkur fannst hún bara kannski ekki nógu áhugaverð,“ segir Georg og bætir við að þeir hafi reynt nokkra mismunandi vinkla til þess að gera myndina spennandi en það hafi enn ekki tekist.

„Okkur hefur alltaf fundist það vera synd að sitja svona á þessu og í raun og veru eru bara allir voðalega fegnir að þetta er loksins komið út,“ segir Georg og bætir við að hugmyndin um að drífa í útgáfunni hafi oft komið upp.

„Það hefur bara einhvern veginn aldrei verið rétti tíminn. Hefði okkur tekist að gera myndina þá hefði verkið samt hugsanlega komið út fyrr. Ég veit það ekki. En það einhvern veginn tókst aldrei.

Svo veit maður aldrei. Kannski finnum við vinkilinn á myndina en platan er allavegana komin út og það er viss léttir að koma henni frá sér og að fólk fái loksins að heyra okkar mix af henni í alvöru hljóðgæðum.“