Vefurinn sund­laugar.com hefur það mark­mið að hjálpa lands­mönnum að upp­götva allar fal­legu sund­laugar landsins. Þar er hægt með ein­földum hætti að halda utan um allar heim­sóknir.

Heiða Harðar­dóttir og kærasti hennar, Finnur Magnús­son, hafa í sam­einingu sett upp vefinn sund­laugar.com. Þar er hægt, með ein­földum hætti, að halda utan um heim­sóknir í sund­laugar landsins og sjá um leið hvaða sund­laugar er eftir að heim­sækja. Hug­myndin er þó ekki ný af nálinni, heldur um fjögurra ára hug­mynd sem hefur dúkkað reglu­lega upp að sögn Heiðu. „Ég hef alltaf haft mikinn á­huga á sund­laugum. Því minni og skrítnari, því betra. Þegar við Finnur vorum að kynnast fórum við í ferða­lag um Vest­firði með vina­fólki og einn daginn náði ég að heim­sækja þrjár sund­laugar. Upp frá því fórum við að pæla í hversu margar sund­laugar væru á landinu og hvað það tæki langan tíma að fara í þær allar.“

Árangurs­rík sam­vinna

Finnur, sem er tölvunar­fræðingur, hóf að skoða hvernig leysa mætti tækni­legu hliðina, á meðan Heiða vann meira með hug­myndina sjálfa og listaði upp sund­laugar. Hug­myndin fór svo á flug þegar heims­far­aldurinn skall á og þau höfðu að­eins of mikinn tíma saman, að hennar sögn. „Það tók ekki nema viku frá því að við keyptum lénið sund­laugar.com þar til fyrsta út­gáfan var komin í loftið. Finnur sér um tæknina og ég sé um efnis­tökin. Svo höfum við verið að grípa í þetta oftar eftir því sem á­huginn vex, til dæmis að sjá til þess að upp­lýsingarnar séu réttar og bæta við virkni á vefinn. Það er merki­lega lítið rifist á reglu­legum stöðu­fundum við eld­hús­borðið.“

Margra ára verk­efni

Hún segir vefinn vera eins og margar góðar hug­myndir, fyrst og fremst fram­kvæmdar til að leysa eigin vanda­mál, sem í þeirra til­felli var að halda utan um mark­miðið að heim­sækja allar sund­laugar á landinu. „Það er bara frá­bært ef fleiri koma með og setja sér svipuð mark­mið. Þetta verður margra ára verk­efni svo það er nauð­syn­legt að hafa gott bók­hald meðan við vinnum okkur í gegnum allar laugarnar.“
Hún segir þau vera að skil­greina reglurnar fyrir sig sjálf og þar með alla aðra not­endur vefsins. „Fljót­lega á­kváðum við að skrá ein­göngu sund­laugar þar sem hægt er að borga sig inn og skola af sér. Við viljum leyfa náttúru­laugunum að vera svo­lítið dular­fullar á­fram og finnst það ekki vera okkar að aug­lýsa þær. Svo eru þær flestar á einka­jörðum sem flækir málið enn meira. Þannig að mark­miðið er eigin­lega bara að hjálpa fólki að upp­götva allar fal­legu sund­laugarnar okkar hringinn í kringum landið og hvetja það til að heim­sækja sem flestar.“

Heiða fer oftast í Vesturbæjar- eða Laugardalslaug.
Fréttablaðið/Anton Brink

Mikill á­hugi á vefnum

Stutt er síðan vefurinn fór í loftið og hefur hann helst verið aug­lýstur meðal vina og ættingja. „Ef við skoðum skráða not­endur í dag sýnist mér meðal­talið fyrir fjölda sund­lauga vera ná­lægt þrjá­tíu svo þau sem hafa skráð sig hingað til eru lík­lega fólk sem er jafn galið og við. Það er samt á­huga­vert að segja frá því að það eru bara sex­tán aðilar sem hafa farið í fleiri en fimm­tíu laugar. Metið er 91 laug!“
Hún segist skynja mikinn á­huga á vefnum og að fjöl­skyldur hafi til dæmis sam­einast í að merkja við sínar laugar og ætla sér stóra hluti í sumar. „Svo vitum við af alla­vega einum sauma­klúbbi sem ætlar í metnaðar­fulla keppni. Skömmu eftir að við fórum í loftið fréttum við líka af vinnu­staða­keppni sem hefur verið haldin ár­lega þar sem starfs­fólk verk­fræði­stofu keppir í sund­lauga­ferðum. Við fengum sent af­rit af excel-skjali þeirra sem sjá um keppnina og erum að klóra okkur í hausnum yfir því hvernig við gætum hugsan­lega sett upp eitt­hvað í líkingu við það. Við viljum endi­lega hvetja fólk á­fram með því að hafa þetta svo­lítið keppnis.“

Sjálf fer Heiða oftast í Vestur­bæjar­laug og í Laugar­dals­laugina, sér­stak­lega ef hún ætla að synda. „En ætli upp­á­halds­laugin mín sé ekki laugin í Hey­dal fyrir vestan og laugin í Sel­ár­dal er svo í öðru sæti.“
Sund­laugar landsins munu skipa stóran sess í lífi þeirra í sumar. „Nú er kerfið að verða til­búið svo mark­miðið að klára allar sund­laugar landsins er ræki­lega komið á kortið. Við hvetjum fólk bara til að koma með okkur í þetta ferða­lag og skrá sig á sund­laugar.com. Svo er líka hægt að fylgjast með okkur á Face­book (Sund­laugarnar) og Insta­gram (@sund­laugar_com).“ ■