Vefurinn sundlaugar.com hefur það markmið að hjálpa landsmönnum að uppgötva allar fallegu sundlaugar landsins. Þar er hægt með einföldum hætti að halda utan um allar heimsóknir.
Heiða Harðardóttir og kærasti hennar, Finnur Magnússon, hafa í sameiningu sett upp vefinn sundlaugar.com. Þar er hægt, með einföldum hætti, að halda utan um heimsóknir í sundlaugar landsins og sjá um leið hvaða sundlaugar er eftir að heimsækja. Hugmyndin er þó ekki ný af nálinni, heldur um fjögurra ára hugmynd sem hefur dúkkað reglulega upp að sögn Heiðu. „Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á sundlaugum. Því minni og skrítnari, því betra. Þegar við Finnur vorum að kynnast fórum við í ferðalag um Vestfirði með vinafólki og einn daginn náði ég að heimsækja þrjár sundlaugar. Upp frá því fórum við að pæla í hversu margar sundlaugar væru á landinu og hvað það tæki langan tíma að fara í þær allar.“
Árangursrík samvinna
Finnur, sem er tölvunarfræðingur, hóf að skoða hvernig leysa mætti tæknilegu hliðina, á meðan Heiða vann meira með hugmyndina sjálfa og listaði upp sundlaugar. Hugmyndin fór svo á flug þegar heimsfaraldurinn skall á og þau höfðu aðeins of mikinn tíma saman, að hennar sögn. „Það tók ekki nema viku frá því að við keyptum lénið sundlaugar.com þar til fyrsta útgáfan var komin í loftið. Finnur sér um tæknina og ég sé um efnistökin. Svo höfum við verið að grípa í þetta oftar eftir því sem áhuginn vex, til dæmis að sjá til þess að upplýsingarnar séu réttar og bæta við virkni á vefinn. Það er merkilega lítið rifist á reglulegum stöðufundum við eldhúsborðið.“
Margra ára verkefni
Hún segir vefinn vera eins og margar góðar hugmyndir, fyrst og fremst framkvæmdar til að leysa eigin vandamál, sem í þeirra tilfelli var að halda utan um markmiðið að heimsækja allar sundlaugar á landinu. „Það er bara frábært ef fleiri koma með og setja sér svipuð markmið. Þetta verður margra ára verkefni svo það er nauðsynlegt að hafa gott bókhald meðan við vinnum okkur í gegnum allar laugarnar.“
Hún segir þau vera að skilgreina reglurnar fyrir sig sjálf og þar með alla aðra notendur vefsins. „Fljótlega ákváðum við að skrá eingöngu sundlaugar þar sem hægt er að borga sig inn og skola af sér. Við viljum leyfa náttúrulaugunum að vera svolítið dularfullar áfram og finnst það ekki vera okkar að auglýsa þær. Svo eru þær flestar á einkajörðum sem flækir málið enn meira. Þannig að markmiðið er eiginlega bara að hjálpa fólki að uppgötva allar fallegu sundlaugarnar okkar hringinn í kringum landið og hvetja það til að heimsækja sem flestar.“

Mikill áhugi á vefnum
Stutt er síðan vefurinn fór í loftið og hefur hann helst verið auglýstur meðal vina og ættingja. „Ef við skoðum skráða notendur í dag sýnist mér meðaltalið fyrir fjölda sundlauga vera nálægt þrjátíu svo þau sem hafa skráð sig hingað til eru líklega fólk sem er jafn galið og við. Það er samt áhugavert að segja frá því að það eru bara sextán aðilar sem hafa farið í fleiri en fimmtíu laugar. Metið er 91 laug!“
Hún segist skynja mikinn áhuga á vefnum og að fjölskyldur hafi til dæmis sameinast í að merkja við sínar laugar og ætla sér stóra hluti í sumar. „Svo vitum við af allavega einum saumaklúbbi sem ætlar í metnaðarfulla keppni. Skömmu eftir að við fórum í loftið fréttum við líka af vinnustaðakeppni sem hefur verið haldin árlega þar sem starfsfólk verkfræðistofu keppir í sundlaugaferðum. Við fengum sent afrit af excel-skjali þeirra sem sjá um keppnina og erum að klóra okkur í hausnum yfir því hvernig við gætum hugsanlega sett upp eitthvað í líkingu við það. Við viljum endilega hvetja fólk áfram með því að hafa þetta svolítið keppnis.“
Sjálf fer Heiða oftast í Vesturbæjarlaug og í Laugardalslaugina, sérstaklega ef hún ætla að synda. „En ætli uppáhaldslaugin mín sé ekki laugin í Heydal fyrir vestan og laugin í Selárdal er svo í öðru sæti.“
Sundlaugar landsins munu skipa stóran sess í lífi þeirra í sumar. „Nú er kerfið að verða tilbúið svo markmiðið að klára allar sundlaugar landsins er rækilega komið á kortið. Við hvetjum fólk bara til að koma með okkur í þetta ferðalag og skrá sig á sundlaugar.com. Svo er líka hægt að fylgjast með okkur á Facebook (Sundlaugarnar) og Instagram (@sundlaugar_com).“ ■