Kvikmyndin Þrot er væntanleg í kvikmyndahús landsins síðar í mánuðinum. Leikstjóri myndarinnar, Heimir Bjarnason, vill gefa landsbyggðinni forskot á sæluna með því að endurvekja gömlu roadshow (ísl. sýningarferðalag) hefðina.

„Það eru margar fyrirmyndir að þessu. Tarantino var til dæmis með roadshow þegar hann var að kynna The Hateful Eight,“ segir Heimir sem mun túra ásamt hundinum sínum Ripley um landsbyggðina til að kynna myndina. „Þetta var líka vinsælt í gamla daga, þegar myndir voru á filmum og ekki var hægt að senda á milljón staði í einu, að byrja með forsýningar utan við bæjarmörkin.“

Hugmyndina fékk Heimir við tökur á heimildarmynd á Hótel Laugabakka í vor.

„Ég labbaði inn í sal þar sem var risastórt tjald og hljóðkerfi og fór að hugsa með mér hvað það væru margir svona staðir víða á landinu, með frábæra aðstöðu til að sýna mynd,“ segir hann. „Ég talaði við hótelstjórann sem var mjög spenntur fyrir þessu og þaðan fór boltinn að rúlla.“

Þannig er áætlunin að myndin verði sýnd víðs vegar um land auk þess sem Heimir mun sitja fyrir svörum eftir sýningar. Þá verða leikarar úr myndinni einnig gestir á völdum sýningum.

„Það verður sérstök stemning á þeim stöðum þar sem leikararnir hafa tengingu, eins og til dæmis á Patreksfirði þar sem Bjarni Snæbjörnsson ólst upp,“ segir Heimir. „Við erum að reyna að gera þetta frekar persónulegt.“

Bíóhúsin endurlífguð

Heimir er sjálfur mikill áhugamaður um kvikmyndahús og er spenntur fyrir því að upplifa bíóstemninguna á landsbyggðinni.

„Það er líka gaman að þetta eru ekki allt bíóhús, en þau voru það og mér finnst það mjög heillandi,“ segir hann. „Að koma í þessar byggingar sem voru kvikmyndahús fyrir einhverjum áratugum og gera þau að bíó í eitt kvöld í viðbót.“

Þrot segir frá dularfullu sakamáli sem skekur líf þriggja einstaklinga.

Það er ansi líklegt að Þrot muni hitta í mark hjá krimmaelskandi Íslendingum en myndin er sakamáladrama sem segir frá dularfullu morðmáli sem skekur smábæjarsamfélag. Gömul sár verða að nýjum og fljótt verður ljóst að sögum ber ekki saman og reynir á fjölskylduböndin sem aldrei fyrr eftir því sem sannleikurinn skýrist. Með helstu hlutverk fara Bára Lind Þórarinsdóttir, Anna Hafþórsdóttir, Bjarni Snæbjörnsson, Pálmi Gestsson og Guðrún S. Gísladóttir.

Hægt er að kynna sér dagskrá sýningarferðalagsins betur á Facebook-síðu kvikmyndarinnar Þrots.