Sænska söngkonan Molly Sandén var í kvöld sæmd titli heiðursborgara Húsavíkur af Hannesi Heimissyni, sendiherra Íslands í Svíþjóð. Hannes afhenti Sandén heiðursnafnbótina í beinni útsendingu í spjallþættinum Hellenius hörna á sjónvarpsstöðinni TV4 í kvöld og var íslenska fánanum flaggað við tilefnið.

Molly Sandén hefur líklega gert manna mest af því að auka vegsemd Húsavíkur á alþjóðavelli, en hún söng lagið „Húsavík (My Hometown)“ í kvikmyndinni Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga, sem vann Óskarsverðlaun sem besta frumsamda lagið við 93. veitingu verðlaunanna í apríl síðastliðinn. Í myndinni er það raunar Rachel McAdams sem virðist syngja lagið, en það er rödd Sandén sem var spiluð yfir leik hennar.

Sandén kom til Húsavíkur og söng lagið ásamt stúlknakórnum úr fimmta bekk Borgarholtsskóla til að opna Óskarsverðlaunin í apríl. Þótti það hin besta landkynning fyrir bæinn og því full ástæða til að launa Molly greiðann.