Það má með sanni segja að hljómsveitin Heimilistónar hafi sungið sig inn í hjörtu landsmanna þegar sveitin tók þátt í undankeppni Eurovision söngvakeppninnar árið 2018 en þá lenti hún í þriðja sæti með lagið Kúst og fæjó. Meðlimir Heimilistóna eru Vigdís Gunnarsdóttir, Elva Ósk Ólafsdóttir, Ólafía Hrönn Jónsdóttir (Lolla) og Katla Margrét Þorgeirsdóttir en þær eru allar leikkonur sem ýmist starfa sem slíkar, kenna, skrifa ásamt öllu því sem fylgir svo fjölbreyttu starfi segir Vigdís Gunnarsdóttir. „Hljómsveitin varð til árið 1997 og fyrsta æfingin var haldin í september sama ár. Elva Ósk var nýkomin heim frá Danmörku þar sem hún hafði lært grunn í bassaleik. Eftir að hún kom heim hóaði hún í nokkrar samleikkonur í Þjóðleikhúsinu og úr varð hljómsveitin Heimilistónar. Hljómsveitin hefur tekið nokkrum breytingum síðan þá, en Ólafía, Vigdís og Elva Ósk hafa verið í bandinu frá upphafi.

Fyrsta jólaplatan á leiðinni

Meðlimir Heimilistóna hafa undanfarna mánuði tekið upp frumsamin jólalög og er fyrsta jólaplata sveitarinnar væntanlega á næstu dögum að sögn Elvu Óskar. „Okkur hefur lengi langað til að gefa út jólaplötu. Hingað til höfum við meira verið í að þýða gamla „standarda“ en nú er stefna hljómsveitarinnar að skapa ný lög og gefa út.“

Vinnsla plötunnar hefur tekið langan tíma að sögn Kötlu Margrétar. „Við höfum safnað þessum lögum yfir nokkurra ára tímabil. Síðasta sumar tókum við snúning á henni og hver og ein okkar samdi „sitt“ jólalag, þ.e. lag og texta, sem var mjög skemmtilegt ferli. Það var svo frekar fyndið að vera í upptökum á jólalögum um hásumar.“

Allt efnið á plötunni er frumsamið og þær eru ótrúlega ánægðar með útkomuna segir Lolla. „Við ætlum að pressa nokkrar vínylplötur sem við seljum sjálfar. Annars verður þetta stafrænt og kemur út á Spotify. Lögin á plötunni eru mjög ólík þar sem við flökkum á milli stíla en öll fanga þau jólaandann. Þetta eru „Rugl góð jólalög” eins og kemur fram í titli plötunnar.“

Meðlimir Heimilistóna rifja upp nokkur minningabrot úr lífi sínu sem tengjast tónlist.

Hvaða lag fær ykkur til að hugsa um fyrsta barnið?

Lolla: Það er ekki spurning, það er Barfly með Jeff who? Frumburðurinn hann Magnús minn syngur þetta óaðfinnanlega þegar hann er beðinn að troða upp. Hann tók t.d. þetta lag á balli í Flatey. Þá var mamma hans á trommunum. Ég var svakalega stolt af frammistöðu hans.

Hvaða lag eða plata minnir á frábæra tónleika?

Vigdís: Ég gleymi aldrei flutningi Ómars Ragnarssonar á Þrjú hjól undir bílnum, sem ég upplifði í Bæjarbíói í Hafnarfirði á síðustu öld. Hæfileiki hans til að fá fólkið með sér, útgeislun hans og úthald hefur alltaf hrifið mig svo ekki sé talað um textana hans sem eru ómetanlegar perlur.

„Ég hlusta reglulega á Harvest Moon með Neil Yong. Það mýkir hjartað," segir Katla Margrét.

Hvaða lög minna á sveitaböll unglingsáranna?

Elva Ósk: Traustur vinur með Upplyftingu, ekki spurning, og Proud Mary með Tinu Turner.

Lolla: Ég er á leiðinni með Brunaliðinu er nú það sem poppar fyrst upp í hausnum á mér. Maður svoleiðis öskraði með bakröddunum: Á leiðinni ... úúú ... aaa.

Woman með John Lennon fær Lollu til að hugsa um ástina.

Hvaða lag fær þig til að hugsa um ástina?

Katla: Ég hlusta reglulega á Harvest Moon með Neil Yong. Það mýkir hjartað.

Lolla: það er svona þriðja hvert lag. En Woman með John Lennon setur mig alltaf á ástfanginn stað. Ég man þegar ég hitti manneskju sem fannst þetta ekkert sérstakt lag og það kveikti ekkert í henni. Ég velti fyrir mér hvort hún væri tilfinningalaus.

La det swinge með Bobbysocks minnir Lollu á góða vini og minningar tengdar þeim.

Hvaða tónlist minnir þig á góða vini og minningar tengdar þeim?

Lolla: La det swinge með Bobbysocks, það er hún Ingrid mín. Síðan allt með Spilverki þjóðanna sem minnir mig á æskuvinkonur mínar Evu, Ernu og Hildi. Þær eru systur og við sátum heima hjá þeim og spiluðum gat á spóluna.

Tengist eitthvert lag sorglegum atburðum í lífi þínu?

Vigga: Þegar mér líður illa hlusta ég á Smile eftir Chaplin

Lolla: Þegar ég lenti í ástarsorg síðast hlustaði ég á lögin Sail on og Við og við tvö, með Myrru Rós, og raunar allan diskinn. Frábær tónlistarkona.

Meat Loaf var í miklu uppáhaldi hjá Elvu Ósk á unglingsárum hennar.

Hvaða lag fær þig til að vilja stökkva inn í tímavél og fara aftur í tímann?

Lolla: Breakfast in Amerika með Supertramp.

Katla: I love to love með Tinu Charles. Við æskuvinkonurnar dönsuðum stríðsdans kringum stofuborðið með lagið í hæsta styrk á fóninum.

Katla Margrét og vinkonur hennar dönsuðu stríðsdans kringum stofuborðið með við lagið I love to love, með Tinu Charles.

Hvaða plata tengist unglingsárunum?

Elva Ósk: Fyrsta platan sem ég fjárfesti í var Off The Wall með Michael Jackson. Hún var mikið á fóninum og við æskuvinkonurnar æfðum dans við lagið Don’t stop til you get enough og tróðum upp á skemmtunum í bænum. Brunaliðið og Meat Loaf voru líka í uppáhaldi. Svo get ég ekki gert upp á milli Fleetwood Mac, 10cc, Dire Straits og Billy Joel. Ég hlustaði og hlusta enn mjög mikið á tónlist. Aðeins seinna kom svo Eagles. Ég er nýbyrjuð að spila aftur vínil og það er sko búið að dusta rykið af þessum frábæru plötum.

Lolla: Unglingsárin mín eru Spilverk þjóðanna, Patty Smith, Genesis, Pink Floyd og Supertramp.

Katla: Duran Duran var stöðugt í spilaranum og ég átti stóra drauma um að hitta Simon Le Bon. Svo tók The Cure við kringum sextán ára aldurinn og Simon hvarf úr kollinum.

Breakfast in Amerika með Supertramp fær Lollu til að vilja stökkva inn í tímavél og fara aftur í tímann.

Hvers konar tónlist fær þig til að brosa og gleyma öllum áhyggjum?

Elva Ósk: Ég verð nú að segja Heimilistónar, annars væri ég að ljúga. En utan þess má nefna lög eins og Connected með Stereo MC’s og I can see clearly now með Jimmy Cliff. Gjörsamlega frábær lög sem fara með mig í einhverskonar gleðivímu.

Vigga: Kúst og fæjó kemur mér alltaf í gott skap.

Lolla: Happy með Pharrell Williams og Lucky með Daft Punk og Pharrell Williams. En auðvitað fer hjartað mitt að brosa þegar ég heyri í Hljómsveit Jarþrúðar, Gertrude and the flowers og Heimilistónum. Þetta eru nefnilega hljómsveitirnar sem ég er í.