Berglind Eyjólfsdóttir, rannsóknarlögreglumaður hjá LRH, hefur starfað í Bjarkarhlíð frá því að starfsemin þar hófst 2017. Hún segir að heimilisofbeldi sé því miður allt of algengt á Íslandi. 

Berglind segir að tæplega 700 tilkynningar hafi borist lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu árið 2018. „Lögreglu berst einungis vitneskja um lítinn hluta ofbeldisins,“ bætir hún við. Þegar hún er spurð hvernig tilkynningar um heimilisofbeldi berist, svarar hún. „Lögreglan er oftast kölluð á vettvang vegna heimilisofbeldis en stundum berast kærur til lögreglu með þeim hætti að þolandi kemur á lögreglustöð og leggur fram kæru. Einnig getur þolandi ofbeldis leitað aðstoðar í Bjarkarhlíð sem er miðstöð fyrir þolendur ofbeldis. Þar starfar lögreglukona í fullu starfi og veitir aðstoð og upplýsingar fyrir alla þolendur óháð kyni og kemur þeirra málum í réttan farveg.

Þolendur heimilisofbeldis geta leitað ráðgjafar hjá Bjarkarhlíð, miðstöð fyrir þolendur ofbeldis, en Bjarkarhlíð er samstarfsverkefni ýmissa aðila, þ.m.t. Kvennaathvarfs, Stígamóta, Drekaslóðar, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Kvennaráðgjafarinnar og lögreglu. Framangreindir aðilar veita þjónustu sína í Bjarkarhlíð,“ útskýrir Berglind. „Þolendur geta einnig fengið ráðgjöf með því að panta tíma hjá ráðgjafa Bjarkarhlíðar og auk þess geta þeir leitað aðstoðar hjá Kvennaathvarfi og Stígamótum. Kvennaathvarf er með sólarhringsþjónustu fyrir þolendur heimilisofbeldis. Svo veita sveitarfélögin (félagsþjónusta og barnavernd) einnig ýmsa aðstoð.“

Eru einhver úrræði til fyrir gerendur?

„Gerendur geta leitað aðstoðar hjá Heimilisfriði. Hjá Heimilisfriði starfa sálfræðingar sem sérhæfa sig í meðferð fyrir þá sem beita ofbeldi,“ svarar Berglind og bætir við að birtingarmyndir heimilisofbeldis geti verið með ýmsum hætti. „Sem dæmi má nefna andlegt ofbeldi þar sem gerandi stjórnar öllum með orðum og látbragði, margir þolendur andlegs ofbeldis hafa leitað sér aðstoðar í Bjarkarhlíð og hjá Kvennathvarfi. Andlega ofbeldið er lang algengast og er yfirleitt einnig fyrir hendi þar sem um líkamlegt ofbeldi er að ræða. Mikilvægt er að brotaþoli leiti læknis hafi hann verið beittur líkamlegu ofbeldi og hyggst leggja fram kæru. Kynferðislegt ofbeldi er enn ein birtingarmynd heimilisofbeldis. Fjárhagslegt ofbeldi viðgengst oft en þá er þolandi gerður fjárhagslega háður gerandanum og er „fastur“ í sambandinu. Einstaklingar sem beita heimilisofbeldi eru í öllum stigum þjóðfélagsins á öllum aldri.“

Berglind segir að heimilisofbeldi sé síður en svo alltaf tilkynnt. „Heimilisofbeldi er oft falið, þolendur skammast sín og ræða það ekki og segja jafnvel ósatt um áverka þurfi þeir að leita til læknis. Þá óttast þeir afleiðingarnar af því að segja frá. Þögnin er besti vinur þess er beitir ofbeldinu.“

Hvert á fólk að snúa sér sem býr við slíkt ofbeldi?

„Til lögreglu og/eða annarra sem geta veitt hjálp. Oft er erfitt að stíga það skref eða hringja eftir aðstoð en þolendur geta leitað til Bjarkarhlíðar, fengið þar ráðgjöf og rætt við lögreglu á sínum eigin forsendum. Ég vil benda þolendum heimilisofbeldis á ef áverkar eru líkamlegir að leita til læknis, bráðamóttöku eða neyðarmóttöku,“ segir Berglind.