Guðjón Baldursson læknir venti kvæði sínu í kross og sendi á dögunum frá sér sína fyrstu bók, smásagnasafnið Og svo kom vorið.

„Þetta kom nú eiginlega til þannig að ég hafði skrifað eina smásögu þegar ég var nítján ára, hún er þarna aftast í bókinni. Svo hef ég nú voðalega lítið skrifað annað en blaðagreinar og eitthvað svoleiðis. Svo tók ég upp á því fyrir tveimur, þremur árum að búa til punkta að gamni mínu. Ég heyrði ýmsar svona skemmtilegar sögur í viðtölum við fólk. Út frá því fór ég að spinna sjálfur sögur í kringum það sem ég heyrði í viðtölum mínum við ýmsa aðila, bæði sjúklinga mína og kollega,“ segir Guðjón.

Bókin kom út á dögunum á vegum útgáfunnar Sæmundar en í henni má meðal annars finna sögur um sprengjutilræði í Hvalfirði, kveflæknandi hrútspunga og lækna með gálgahúmor.

„Ég fór að hlaða svona aðeins utan á þetta efni og einhvern veginn þróaðist þetta þannig að sögurnar urðu stærri. Þetta er allt saman pjúra skáldskapur en svona byggt á minni eigin reynslu í viðtölum og samböndum við lifandi fólk,“ segir hann.

Guðjón kveðst aðeins vera búinn að draga saman seglin enda kominn yfir sjötugt en hann starfar þó enn sem heimilislæknir í um 50 prósent starfi. Áður starfaði hann í 17 ár sem sérfræðingur í krabbameinslækningum.

Hafa störf þín sem læknir áhrif á skáldskapinn?

„Nei, mér finnst það eiginlega ekki. Ekki nema bara það að síðustu árin þegar ég tala við fólk og sjúklinga þá fer ég oft að tala við það um ýmislegt annað í leiðinni. Af því það er svo skemmtilegt að eiga samtöl við fólk. Þannig hef ég haft lag á því að fá ýmislegt út úr fólki, en læknisstarfið hefur að öðru leyti ekki haft áhrif á þessar skriftir.“

Og svo kom vorið er fyrsta bók Guðjóns Baldurssonar.
Kápa/Sæmundur

Guðjón er ekki við eina fjölina felldur og hefur einnig fengist við tónlist. Árið 2005 sendi hann til að mynda frá sér plötuna Plokkfiskur ásamt kollega sínum Hlyni Þorsteinssyni. Spurður um hvers konar sögur sé í bókinni segir hann:

„Þetta eru mest sögur úr samtímanum og hversdagslífinu, bara daglegu lífi fólks. Ég reyndi nú að skrifa þær flestar í dálítið léttu og læsilegu formi. Venjulegt fólk getur tekið eina sögu og lesið hana án þess að þurfa að rýna og spekúlera í hana.“

Nú þegar þú ert farinn að draga saman seglin sem læknir ætlarðu þá að fara á fullt í skáldskapinn?

„Já, ég ætla mér það nú. Ég er kominn með kannski þriðjung af glæpasögu sem ég er að skrifa. Hún er svolítið ólík þessu en ég hef haft mjög gaman af því að lesa spennusögur og glæpasögur. Þetta er ofboðslega gaman og gefandi!“