„Það eru nokkrir skólar í ratleikjagerðinni eða öllu heldur nokkrar leiðir að settu marki,“ segir Stefán Eiríksson útvarpsstjóri, ráðgátumeistari og sérfræðingur í páskaeggjaratleikjum.

„Mikilvægt er að ratleikurinn hæfi aldri og þroska barnsins, sé heilt yfir fremur léttur en með einni til tveimur þungum vísbendingum,“ segir Stefán.

Morgunkornið tilvalið

„Ein leið er að byrja á því að velja staðina þar sem fela á vísbendingar og skrifa þær í samhengi við þessa staði,“ heldur Stefán áfram. Heimili búi yfir fjölda heppilegra felustaða.

Setja megi vísbendingar í bækur og morgunverðarkassa, bak við myndir, í skúffum, bak við húsgögn, og heimilistækjum.

Mikilvægt er að leikurinn henti aldri og þroska barnsins.
Stefán Eiríksson

Bókaþema tilvalið núna

Þemaleikur er ekki síður skemmtileg leið falli þemað sem valið er að áhugasviði barnsins.

„Bókaþema væri frábær hugmynd núna þegar við ætlum að setja heimsmet í lestri,“ bendir Stefán á. Fela megi allar vísbendingarnar í mismunandi bókum og hver vísbending vísi þá til næstu bókar.

Stefán hefur líka unnið með þrautaþema. „Vísbendingarnar eru þá krossgátur, stafarugl og slíkar þrautir eins og gjarnan mátti finna í Æskunni í gamla daga,“ segir Stefán og nefnir líka vísnagátuþema.„Svo má líka blanda þessu öllu saman ef svo ber undir.“

Stafarugl og þrautir eru metnaðarfull aðferð sem Stefán hefur náð góðum tökum á.

Í stað þess að vinna sig út frá felustöðunum er líka hægt að búa til heildstæða sögu eða endursegja þekkt ævintýri eða þjóðsögu.

„Tökum sem dæmi Rauðhettu þar sem fela má vísbendingar á stöðum sem vísa til atburða í því dramatíska ævintýri. Fyrir Harry Potter aðdáendur er hægt að búa til slíkt vísbendingaþema,“ segir Stefán.

Sendið börnin út í garð

Stefán hvetur fólk líka til að taka ratleikinn út fyrir húsið ef veður leyfir og ná í leiðinni smá hreyfingu. Fela megi vísbendingar úti í garði eða öðrum þekktum stöðum í nágrenninu.

Vísbendingarnar megi gera hvort heldur er með tré- og tússlitum eða í tölvu og þá með viðeigandi útprentuðum myndum. Fjölbreytni sé skemmtilegust. Sumar geti verið í orðum, aðrar í orðum og myndum. Þriðja útgáfan er að teikna bara vísbendingarnar, sem hentar vel fyrir allra yngstu börnin. Svo megi yrkja vísur, ríma vísbendingarnar eðaspegla orðin. Límmiðar úr gömlum límmiðabókum geti líka öðlast nýjan tilgang.

Límmiðar af ýmsu tagi geta komið vel út.

Stefán segir lykilatriði að foreldrarnir njóti þess að setja ratleikinn saman. Leikurinn eigi ekki bara að vera fyrir börnin heldur alla fjölskylduna.

Tilvalið sé að setjast niður í kvöld þegar börnin eru háttuð og njóta páskadagskrárinnar á rás eitt eða tvö og dunda við vísbendingarnar með tré- og tússliti að vopni, fá sér jafnvel heitt kakó með eða aðra góða drykki en gæta þó að því að hafa það ekki mjög marga ef áfengishlutfallið er í hærri kantinum. „Það getur sett þetta allt í uppnám þegar kemur að því að koma vísbendingunum fyrir, hef ég frétt,“ segir Stefán.