Hugmyndin að einingahúsum var upphaflega sú að byggja íbúðarhúsnæði á einfaldan og fljótlegan máta. Þá voru léttar einingar framleiddar til húsbygginga sem auðvelt væri að flytja á milli landshluta og til að mæta þörfum fólks sem var mikið á hreyfingu vinnu sinnar vegna.

Upp úr 1950 voru einingahús markaðssett sem ódýr húsakostur sem fljótlegt væri að setja upp en líka hægt að skilja eftir í langan tíma og fleirum til gagns. Þá var einnig hægt að flytja þau á milli staða með tiltölulega lítilli fyrirhöfn. Oftast voru fyrstu húsin lítil en árið 1956 voru stærri hús kynnt til sögunnar. Á sjöunda og áttunda áratugnum stækkuðu einingahúsin enn meira sem gerði flutning á þeim erfiðari og í dag eru einingahús oftast nær staðsett á lóðum til frambúðar.

Fyrstu árin var það oftar en ekki efnalítið fólk sem settist að í færanlegum og skjóllitlum einingahúsum og fengu þau óorð á sig vegna þess. Vandaðri einingahús seinni tíma breyttu þeirri ímynd og nú þykja einingahús jafn traust og glæsileg og hverjar aðrar húsbyggingar sem uppfylla þurfa skilyrði strangra byggingarreglugerða, og möguleikarnir eru ótæmandi.

Grænt einbýlishús, byggt úr kubbaeiningum, eftir hönnun arkitektsins Ray Kappe í Kaliforníu. Það hlaut viðurkenningu fyrir margvíslegar og vistvænar lausnir við húsagerðina, er hitað með sólarorku og unnið að mestu úr endurunnum efnivið. MYNDIR/GETTY
Þessi einingahús í Brandenburg, Bernau, tóna ágætlega við götumynd gamalla og virðulegra bygginga fyrri ára.
173 einingahús úr áli voru reist í Cheltenham árið 1946 en aðeins var búið í þeim í rúma ellefu mánuði.