Katrín á tvo drengi og annar þeirra er farinn að heiman en hinn 13 ára gamli býr enn heima.

„Ég hef mikla ástríðu og metnað fyrir vinnunni minni sem ég lít ekki bara á sem vinnu heldur sem stóran part af mér, þar sem hugurinn er alltaf að leika sér við að velta fyrir sér formum, hugmyndum og hvernig lífsstíll fólks er, þar sem ég hanna í kringum hann. Ég ver einnig tíma mínum í það besta og dýrmætasta sem ég á, drengina mína, barnabörnin tvö og mína fallegu tengdadóttur. Á milli sköpunar, líkamsræktar og fjölskyldu er ég dálítill fjörkálfur og elska vinina mína. Ég gef mér ávallt tíma, hversu naumur sem hann er, til að fara út og gleðjast í góðum félagsskap góðra vina og þiggja boð sem er verið að hafa fyrir og mér boðið með.“

Katrín er líka mikil íþróttaskvísa og hefur ávallt haft þörf fyrir að hreyfa sig.

„Þar sem ég eyddi barnæskunni mikið til í fimleikum í Gerplu, þar sem ég stundaði áhaldafimleika í tíu ár, hef ég enn þessa þörf fyrir að hreyfa mig mikið og geri það.“

Leikið með liti, húsgögn og listaverk á veggjum í djúpum jarðtónum sem gefa mýkt og rómantík á móti ljósum sandlit sem er á stærsta stofuveggnum, sams konar sandlitur var valinn í innréttingu og er í loftadúknum. MYNDIR/RAKEL ÓSK SIGURÐARDÓTTIR

Í öðru sæti í alþjóðlegri hönnunarsamkeppni

Segðu okkur aðeins frá því hvað varð til þess að þú ákvaðst að verða innanhússarkitekt.

„Ég er stúdent frá FB þar sem ég sökkti mér í sálfræði, heimspeki og félagsfræði. Þessi fög heilluðu mig og síðar fór ég að finna sterkt fyrir tilhneigingu fyrir því að skapa og búa til umhverfi þar sem tilfinningar og upplifun í umhverfinu væru í fyrirrúmi. Síðan lá leiðin í Iðnskólann í Hafnarfirði í iðnhönnun. Ég fékk mikla útrás í að handleika efni og gera tilraunir og lagði einnig stund á módelteikningu í kvöldskóla frá Myndlistaskólanum í Reykjavík. Síðan þegar tækifærið og tíminn vann með mér fór ég í innanhússarkitektúr til Flórída í Art Institute of Ford Lauderdale, sem er einkarekinn listaháskóli sem er í fjölda ríkja og einn fremsti listaháskólinn þar um slóðir.“

Katrín fann sig strax í náminu.

„Ég fann mig mjög vel í náminu og fannst ég vera komin á rétta hillu enda blómstraði ég þar og útskrifaðist með láði og náði öðru sæti fyrir hönd skólans í alþjóðlegri hönnunarsamkeppni.“

Katrín hefur ávallt haft auga fyrir því að hanna híbýli og séð fyrir sér hvernig hægt er að nýta rými, þar sem fagurfræðin og notagildið er í fyrirrúmi.

„Ég hef ávallt verið að stúdera rými og er með mikla rýmistilfinningu og elska að skoða þetta allt fram og til baka.“

Takið eftir fallegum lit á veggnum sem tónar við innbúið.

Hönnun og list fá að flæða alls staðar í fallegu rýminu

Þegar kemur að hönnuninni skiptir innblásturinn lykilmáli.

„Innblásturinn fæ ég mikið úr umhverfinu, þar sem ég nota mikið liti og litasamsetningar sem eru frá okkar fallega landi og þar allt um kring. Ég bjó í Hollandi eftir útskrift, þar sem fyrrverandi maðurinn minn er Hollendingur, þaðan fæ ég innblástur því ég hrífst mjög að hollenskri hönnun og arkitektúr. Hollendingar er mjög framarlega með sína hönnun og list sem er á heimsmælikvarða. Tel ég það vera af því þeir leyfa hönnun og list að flæða fram alls staðar um kring þannig að fólk er ávallt að njóta hennar í umhverfinu og þá í sérstökum formum, mynstruðum byggingum, nýjungum í formum og hefðum. Þannig helst upplifun og nýsköpun fersk hjá fólkinu sem fær að njóta og upplifa.“

:Hljóðdempandi viður á veggjum, að hluta og í niðurteknu loftinu yfir eyjunni, spilar fallega saman með jarðlitum og gefur töfrandi mýkt í rýmið. Stórar flísar á öllu rýminu.

Litir og litaval breytist mikið eftir tísku og árstíðum

Katrín notar mikið dökka og ljósa jarðliti saman og hefur gaman af því að fara sínar eigin leiðir í þeim efnum.

„Mínar leiðir eru ávallt tilfinningin fyrir því sem ég set saman með litum og fólkið sem á að njóta þeirra, eins og heimili fólks þar sem ég skoða litina í fötunum sem viðskiptavinurinn klæðist og geri tilraunir á því hvað viðkomandi hrífst af. Litir og litaval breytist mikið eftir tísku og árstíðum og fanga ég það og vel út það sem mér finnst fallegt í litaskalanum. Þessa stundina er ég að nota dálítið af vínrauða skalanum og sjávarlitum á móti kakí og ljósari litum.“

Baðinnréttingin og vaskurinn á baðherberginu er frá Arrital og er í sama lit og innréttingin og var WC valið frá Tengi sem er í sams konar lit.

Flísaheimurinn hrífandi

Katrínu finnst skemmtilegast að vinna með við og flísar.

„Viður er alltaf svo heillandi og heilandi að hafa í umhverfinu og flísar þar sem flísaheimurinn er orðinn svo hrífandi með þessari nýju tækni á munstrum sem prentuð eru á flísar. Ég hef ávallt heillast og notað veggfóður og textíl, það hefur alltaf fengið að fylgja mér í gegnum mína hönnun. Efnin eru orðin svo flott í stórkostlegum prentuðum munstrum og veggfóðrin alveg að fanga andann minn með stórkostlegum ýktum stórum mynstrum.“

Eldhúsinnréttingin og baðinnréttingin voru teiknuð og pöntuð hjá Studio Ísfeld, fallegar keramikborðplötur, 12 mm, eru með sama efni og vaskurinn í eldhúsinnréttingunni.

Áskorun að endurhanna heimili

Katrín fékk þá skemmtilegu áskorun að endurhanna heimili hjóna í Kópavogi frá grunni eftir að skipta þurfti um þak til að koma í veg fyrir leka og rakaskemmdir. Húsið er á tveimur hæðum og hefur Katrín nú lokið við að endurhanna húsið. Útkoman er hin glæsilegasta þar sem dulúð og hlýleiki fá að njóta sín í öllu rýminu.

Rýmið var opnað og gaf um leið meiri birtu inn í það.

Ítalskur stíll sveipaður rómantík

Katrín vinnur ávallt í samráði við húseigendur og passar að þeirra persónulegi stíll fái að njóta sín.

„Hönnunin og litavalið er allt í samráði við húseigendur en þau vildu fara alla leið og fá heildarmynd á allt rýmið. Innréttingarnar eru allar sérsmíðaðar á Ítalíu og efnivið og litum blandað saman þar sem hlýleikinn er í forgrunni,“ segir Katrín en hún er þekkt fyrir sinn ítalska stíl sveipaðan rómantík og hlýja náttúrulega liti sem hún samtvinnar með sterkum litum. Hugsað er fyrir allri lýsingu í hönnuninni og draumaeldhús húseiganda er orðið að veruleika.

Horft frá eldhúsi inn í stofuna.

Eldhúsið og stofan í alrými

Þegar inn er komið á efri hæðina í forstofuna er þar baðherbergi og í framhaldinu eldhús, borðstofa og stofa í opnu alrými.

„Þetta verkefni gekk út á að efri hæðin, aðalhæðin í þessu húsi, var endurnýjuð, þar sem þurfti að endurnýja þakið og loftið. Settur var hljóðdúkur á allt rýmið. Veggur var tekinn út sem skildi að eldhúsrýmið frá stofu og einnig var forstofan opnuð upp með því að taka veggina þar og rýminu leyft að flæða inn með ganginum og áfram inn með alrými.“

Eldhúsið skartar fallegri blöndu af efnivið, háum skápum með reyktu eikarútliti, eyju og borðplötum úr keramik og áferðin er mjúk og rómantísk í senn.

Litasamsetningin vekur athygli.